Um bernskuvini og brostna drauma

Kvidasnillingarnir

Skáldaga Sverris Norland, Kvíðasnillingarnir, segir frá þremur æskuvinum, þeim Steinari, Óskari og Herbert, æsku þeirra og uppvexti ásamt fyrstu  fullorðinsárunum með öllum þeim breytingum, vonbrigðum og óöryggi sem þeim fylgja. Sagan er í þremur hlutum sem hver um sig fjalla aðallega um eitt tímaskeið í lífi vinanna, þó einnig sé flakkað fram og aftur í tíma. Þrátt fyrir að ýmislegt drífi á daga þeirra vinanna er það þó ekki söguþráðurinn sem situr eftir þegar lestri sögunnar er lokið enda eru uppvaxtarár og vinátta stráka ekki beint ókannaðar slóðir í íslenskum bókmenntum. Þvert á móti eru það stíllinn og persónusköpunin sem gera söguna áhugaverða.

Stíllinn er afar sérstakur og getur jafnvel virkað fráhrindandi áður en maður nær að venjast honum. Hann er áhugaverð blanda af barnslegri einlægni og bókmenntalegum leik að tungumálinu með orðgnótt og langsóttu líkingamáli. Á köflum er engu líkara en að sögumaður sé ellefu ára barn sem hefur alist upp hjá afa sínum og ömmu í afskekktri sveit. Eftir nokkrar blaðsíður venst þessi sérkennilegi stíll ágætlega og maður fer að hafa gaman af óvenjulegu málfarinu og leik höfundar að orðum og hugsunum.

Það er þó ekki eingöngu málfarið og stíllinn sem hefur áhrif á textann. Ýmis konar frásagnaraðferðum er beitt af misjafnri fimi. Til að mynda er flakkað fram og aftur í tíma sem tengir saman æsku strákanna og fullorðinsárin til að varpa ljósi á hvernig fortíð strákanna, atburðir og ávanar, hafa bein áhrif á framtíð þeirra. Hins vegar er ekki eingöngu flakkað milli bernsku þeirra og fullorðinsára, heldur einnig fram og til baka innan þessara mismunandi tímaskeiða án þess að það sé gefið sérstaklega til kynna, sem getur verið ruglandi fyrir lesendur. Auk tímaflakksins má nefna að textinn er öðru hverju brotinn upp með ljóðum, skyndilega er skipt yfir í 2. persónu frásögn í seinni hluta bókarinna og höfundur birtist sem persóna í sögunni í litlu hlutverki  Þetta gerir söguna ofhlaðna og ruglingslega, sérstaklega í seinasta hlutanum þar sem textinn virðist taka stökkbreytingum nánast á hverri síðu.

Einn helsti styrkleiki bókarinnar er persónusköpunin. Steinar, Herbert og Óskar stökkva ljóslifandi af síðunum og ýmsar litríkar aukapersónur lífga upp á umhverfi þeirra. Í fyrsta hluta verksins, sem fjallar um barnæsku vinanna, fáum við að sjá þessa ungu stráka gera sitt besta til að takast á við skólafélagana, fjölskyldur sínar, ástina, dauðann og vináttuna. Heimurinn og fólkið í kringum strákana taka á sig ævintýralega mynd sem minnir á köflum á töfraraunsæi þegar athafnir og líf fullorðna fólksins eru skoðaðir út frá barnslegu sjónarhorni þeirra. Atriðin þar sem afi töggur stígur í vænginn við ömmu ljúfu með frumsömdum ástarsöngvum rauluðum fyrir utan svefnherbergisglugga og þar sem pabbi Alfreð lokar Steinar í nýsmíðaðri líkkistu meðan þeir rabba um dauðann eru ágæt dæmi um þetta. Í þessum bernskuhluta bókarinnar tekst höfundi sérstaklega vel upp. Ólíkir heimar strákanna og lífsviðhorf þeirra eru kynnt til sögunnar og sýnt hvernig þessir þættir þjappa þeim saman eða stía í sundur, sitt á hvað.

Í síðari hlutum bókarinnar, sérstaklega þeim þriðja, þar sem fjallað er um líf strákanna eftir að þeir vaxa úr grasi, verður hins vegar áherslubreyting í frásögninni og Steinar er settur í kastljósið. Um leið verða kaflarnir sem fjalla um Óskar og Herbert færri og óskýrari. Sverrir hafði áður gefið út nóvelluna Kvíðasnillinginn í örlitlu upplagi, sem mætti kalla nokkurs konar uppkast að verkinu sem nú er komið út. Ástæðan fyrir þessu ósamræmi gæti því skrifast að einhverju leyti á vinnuna við að koma nóvellunni í skáldsagnaform. Í fyrra verkinu er kvíðasnillingurinn aðeins einn, Steinar, og atburðir hennar minna á síðasta hluta Kvíðasnillinganna. Persónum eins og afi töggur og amma ljúfa bregður líka fyrir, auk þess sem ýmislegt er látið í veðri vaka varðandi fortíð Steinars, sem gefur til kynna að Steinar hafi verið orðinn að þrívíðri persónu löngu áður en vinir hans, Óskar og Herbert koma til sögunnar. Fyrir vikið birtist Steinar sem fullmótuð persóna, en hinir vinirnir falla inn í bakgrunninn eftir því sem líður á bókina og saga þeirra endar í lausu lofti. Þetta gerir það líka að verkum að vinátta þeirra og þróun hennar, sem gerði fyrstu kaflana svo heillandi, dagar að einhverju leyti uppi um miðja bók þegar áherslan færist yfir á einstaklingsraunir Steinars.

Þegar líður á söguna fáum við því að sjá unga menn sem eiga erfitt með að fóta sig í fullorðinstilveru, sérstaklega eftir að þeir hafa rekið sig á að það er erfiðara að láta æskudraumana rætast en þeir héldu í upphafi. Með ógnarlanga skáldsögu, söngleik sem fékk dræmar móttökur og misheppnað viðskiptaævintýri í farteskinu þurfa þeir að tína upp brotin af sjálfum sér og búa sér til nýja drauma. Þessi seinni hluti skáldsögunnar, sem gerist nær samtímanum í tíma, nær þó ekki að grípa mann á sama hátt og hinn fyrri. Mótunarár og skrautlegir fjölskyldumeðlimir strákanna, sem aðeins er ýjað að í Kvíðasnillingnum, verða á endanum efniviður í skemmtilegri og heildstæðari frásögn en tilvistarkreppa ungra manna við upphaf fullorðinsaldursins sem er uppistaðan í upprunalega verkinu.

Kvíðasnillingarnir er skemmtileg aflestrar þrátt fyrir að leikur að texta og frásagnaraðferðum eigi það til að flækjast fyrir sögunni. Munar þar mestu um persónusköpunina, sérstaklega í fyrri hluta bókarinnar, og hinn sérstaka stíl sem höfundur beitir til að koma til skila hinum þungu þönkum sem og léttari vangaveltum kvíðasnillinganna þriggja. Þessi þroskasaga þeirra fer vel af stað með innilegum lýsingum höfundar á vináttu þeirra og bernskubrekum en missir jafnvægið í seinni hluta bókarinnar þegar áherslurnar í frásögninni breytast og innra samræmi frásagnarinnar riðlast.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone