Ummerki um málverk – Málverk. Guðjón Ketilsson í Hverfisgalleríi

Picture30

Um miðja 19. öldina heyrðust fyrst þær sögusagnir að franski málarinn Paul Delaroche hefði lýst yfir dauða málverksins þegar hann bar fyrstu ljósmynd Louise Daguerre augum. Eflaust má segja að eitthvað sé til í þeirri dómsdagsspá þar sem vinsældir hins hefðbundna trönumálverks hafa átt undir högg að sækja gagnvart öðrum listmiðlum eins og ljósmyndum, gjörningum og vídeólist. En þrátt fyrir margendurteknar spár um endanlegan dauða málverksins hefur það þó sýnt sig að Málverkið með stóru M-i hefur þann eiginleika að geta endurnýjað sig sem framsækið listform og útvíkkað þannig skilgreininguna á eðli og birtingarmyndum málverksins. Togstreitan við takmörkun hins tvívíða flatar málverksins hefur verið listamanninum Guðjóni Ketilssyni hugleikið viðfangsefni frá því um miðjan tíunda áratuginn en þá fékk hann fyrst áhuga á að yfirfæra málverkið yfir á þrívítt form.

Picture10

Í Hverfisgalleríi við Hverfisgötu stendur yfir önnur einkasýning Guðjóns Ketilssonar í galleríinu sem nefnist Málverk og mun sýningin standa til 9. apríl. Þrátt fyrir að sýningin beri hinn „upplýsandi“ titil Málverk fer þó lítið fyrir málverkinu í hinum hefðbundna skilningi sem olíumynd á striga. Viðfangsefni sýningarinnar er jú málningarpallettur, málning og strigi sem tilheyra málverkinu en útkoman er eitthvað allt annað en hefðbundin málverkasýning.

Að fínpússa fortíðina í skrautlegt form

Á sýningunni Málverk má annars vegar sjá myndröð þar sem málningarpallettur listamannsins, í formi diska og skála, koma við sögu en þeim hefur hann safnað frá miðjum 10. áratugnum til ársloka 2015. Palletturnar hefur Guðjón fínpússað niður með sandpappír og minnir útkoman einna helst á jarðlög eða aldurhringi trjáa þar sem lesa má úr litanotkun listamannsins síðastliðin tuttugu og fimm ár. Litapalletturnar eru á mörkunum milli málverksins og höggmyndalistarinnar og virðast byggja á hugmyndafræði póstmódernismans, sem einkennist af þörf fyrir uppgjöri og endurmati á fortíðinni. Með því að fínpússa fortíð hlutarins í burtu á sér stað umbreyting þar sem hluturinn öðlast nýtt upphaf sem býður upp á endurskilgreiningu á eðli listhlutarins.

Tilraun til að þýða málverk yfir á textaform

Í hinum hluta sýningarinnar vinnur listamaðurinn áfram með sömu hugmyndafræðina; framhaldslíf hlutarins, þar sem hann hefur skorið niður gömul málverk í þunnar ræmur og límt saman; lag ofan á lag, auk texta sem prentaður er á álstöng (bæði á íslensku og ensku) og lýsir myndefni hins upprunalega málverks.

 

Í textanum sem fylgir sýningunni segir Guðjón um verkin: „[Þau] voru í raun alltaf fyrir augunum á mér. Allan þennan tíma fannst mér ég ekki þurfa að breiða úr rúllunum því utaná hverja þeirra hafði ég skrifað lýsingu á hverri mynd og veit undir eins af þeirri lýsingu hvaða verk þetta er afþví ég þekki það. Ég vissi að ég ætti aldrei eftir að sýna þessi málverk aftur. Ég tók þau fram, skar þau í ræmur og límdi ræmurnar saman. Mig langaði að sjá hvernig þverskurðurinn væri, því ég hef verið að vinna nokkuð með bókina sem objekt.“

 

Guðjón fékk sjónlýsanda til að lýsa myndunum með texta sem er settur upp eins og innihaldslýsing sem hefst á upplýsingum um stærð, ártal, efni, hvar og hvort verkið hefur verið sýnt og í framhaldinu kemur sjónlýsingin. Með því að færa myndtúlkun listamannsins af striganum yfir í textalýsingu opnast rými fyrir margar og ólíkar túlkanir hjá áhorfendum til að upplifa málverkin á nýjan hátt og jafnfram tækifæri til að útvíkka enn á ný skilgreininguna á eðli málverksins í samtímanum.

Picture30

Það er freistandi að líta á báðar myndraðirnar sem einskonar yfirlýsingu Guðjóns um dauða málverksins en þegar listamaðurinn er inntur eftir því hafnar hann því alfarið og vill frekar meina að hann sé að „heiðra“ gömlu verkin með endurvinnslunni. Það má því segja að sýningin gangi út á uppgjör og endurmat á eðli málverksins þar sem fortíðin er gerð upp í hugmyndafræðilegri vitundarbreytingu.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone