Við sundin blá eftir Önnu Björgu Siggeirsdóttur

skaldverk

Við sundin blá

 

Nýlega rakst ég á mynd af kunnuglegu gulu húsi á fasteignasíðum Fréttablaðsins;

vel skipulagt sex herbergja

einbýlishús við Efstasund

á tveimur hæðum með bílskúr

stór gróin lóð

opið hús sunnudaginn sjöunda mars

verð fjörutíuogátta milljónir

 

og mundi alltíeinu söguna sem systurnar í húsinu sögðu af því þegar fjölskyldan stækkaði og endalausir krakkarnir ultu út úr kjöllurunum, í hundraðogeinum þeirra tíma, eins og grautur sem sýður upp úr kastarholu, og fjölskyldan flutti búferlum í Kartöfluland þar sem þau áttu skúr í mýrinni neðan við kartöflugarðana inn við Sund, bættu við skúrinn svolítilli eldhúskytru, stofuómynd og svefnplássi fyrir alla; foreldrana, sex krakka og kött, auðvitað allt byggt af vanefnum og það timbur notað sem til féll og þó að eftir nokkur ár færi gólfið að síga, og gluggarnir skekktust og lækju þegar gerði slagveður, þá gerði það ekkert til því þetta var þegar tískan var að sníða sér stakk eftir vexti og það var synd að skulda, og þegar stríðið kom með peningana var kíttað í rifurnar, veggfóðrað, teppalagt og byggð önnur hæð ofaná þetta forskalaða timburhús, sem seinna varð að annarri íbúð, þar sem börnin sem áttu börn gátu búið og gamli kartöfluskúrinn var orðinn að tuttugu manna heimili, skuldlausu, loks var byggður bílskúr enda fjölskyldan orðin stöndug uppúr sjötíu. Árið nítjánhundruðogníutíu voru systurnar orðnar einar í húsinu, sem hékk enn uppi innan í broddskitugulri klæðningunni (seinni tíma björgunaraðgerð) og rauðir gluggapóstarnir (lakkaðir með hárauðu vinnuvélalakki) gerðu húsið eins og leikmynd í gömlum barnasöngleik, þær höfðu komið sér upp gróðurhúsi sem fauk í storminum sumarið nítjánhundruðníutíuog eitt, þetta var árið sem ég flutti í húsið við hliðina og það var endalaust sólskin og gráhærðar systurnar sögðu mér sögur, önnur stutt og digur, góðleg og ræðin, hin hvassyrt, há og mjó eins og fuglahræða sem skrölti innan í fötunum, sögðu frá hriplekum skúrnum sem var einhversstaðar innan í miðju húsinu og út frá honum herbergi af herbergi eins og æxli og blautri moldinni í kartöflugörðunum sem loddi við götótt stígvélin, smælkinu sem þær týndu í blátt vaskafat og mamma þeirra sauð með ýsunni um kvöldið, þessu sögðu þær frá sitjandi í gróðurhúsinu innan um ljósgular og bleikar stórblómstrandi rósir og viðkvæmar liljur og drekkandi bragakaffi úr gömlum skörðóttum bollum með gylltri rönd sem var löngu farin að dofna.

 

Lastu þennan prósa og hugsaðir inn á milli: „Af hverju sendi ég aldrei neitt inn?“ – Sendu okkur skáldskap á sirkustjaldid@gmail.com. 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone