Vika bókarinnar á Háskólatorgi

CelesteRC

CelestRC

Í tilefni af viku bókarinnar munu þrír höfundar tengdir Hugvísindasviði lesa upp úr nýútkomnum verkum sínum á Litla torgi (Háskólatorgi) föstudaginn 24. apríl 12–13.

 

Alda Björk Valdimarsdóttir, aðjunkt í almennri bókmenntafræði, les úr bók sinni Við sem erum blind og nafnlaus. Ljóð Öldu Bjarkar snúast um mörk tjáningarinnar, strengina sem liggja milli einstaklinga og tilvistar, sambönd sem verða til og rofna, og þörfina á að nefna veruleikann, jafnt til góðs og ills. Alda lauk nýverið doktorsritgerð um ensku skáldkonuna Jane Austen. Hún var valin Háskólaskáldið í ljóðasamkeppni Stúdentablaðsins 2013.

 

Vika bókarinnarÁstráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs, les kafla úr Höllinni eftir Franz Kafka, en Ástráður hefur ásamt föður sínum Eysteini Þorvaldssyni þýtt öll helstu verk höfundarins. Í Höllinni segir af ferðalangi sem kemur í þorp nokkurt og kveðst vera landmælingamaður en fær blendnar móttökur. Þetta er saga um útlegð og útskúfun, um aðkomumanninn leitandi, um völd og valdaleysi, og um mörk tilfinninga, atvinnu, einkalífs og stofnana, en þau reynast oft óljósari en ráð er fyrir gert.

 

Þóra Karítas Árnadóttir, leikkona og nýútskrifaður meistaranemi í ritlist, les upp úr bók sinni Mörk – saga mömmu, en hún segir frá vel földu leyndarmáli Guðbjargar Þórisdóttur, móður Þóru, sem í æsku lifði „í tveimur aðskildum heimum, himnaríki og helvíti, í einu og sama húsinu.“ Mörk er fyrsta bók höfundar sem dregur hér upp mynd af lífi móður sinnar sem elst upp í hlýjum faðmi stórrar fjölskyldu, en undir niðri kraumar sá hryllingur sem ekkert barn á að þurfa að þola.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone