Villtur í vestrinu

slow1

Slow West (2015): Öðruvísi vestri á RIFF

Nú er nýafstaðin alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF (Reykjavík International Film Festival), og var þetta í tólfta sinn sem hátíðin er haldin. Það var góð stemning og margt um manninn í Bíó Paradís á sýningu Slow West og mátti greina hin ýmsu tungumál í myrkvuðum salnum áður en sýningin hófst.

Leikstjóri og handritshöfundur myndarinnar er hinn skoski John Maclean og hlaut myndin verðlaun á Sundance Film Festival sem besta alþjóðlega dramað. Með aðalhlutverk fara Kodi Smit-McPhee og Michael Fassbender. Sögusviðið er Colorado árið 1870 og hinn ungi og óreyndi skoski piltur Jay Cavendish (Smit-McPhee) er á valdi ástarinnar og drífur hún hann alla leið inn í hið villta vestur Ameríku í örvæntingarfullri leit að Rose (Caren Pistorius), konunni sem hann elskar.

 

A jackrabbit in a den of wolves, fortunate to be alive.

– Silas Selleck

Í vestrinu ráfar Jay með öllu ómeðvitaður um hætturnar sem þar leynast en útlaginn Silas Selleck (Fassbender) tekur hinn óharðnaða ungling að sér – gegn gjaldi. Hinn útsmogni Silas, sem einnig er sögumaður myndarinnar, er ímynd hinnar villtu karlmennsku vestursins og kennir hann Jay lífsreglurnar sem þar gilda. Lífsviðhorf útlagans einskorðast hins vegar við það að lifa af og því hefur hinn ungi Jay einnig ýmislegt að kenna honum um hvað lífið hefur að bjóða. Rose er hins vegar ekki öll þar sem hún er séð og eru hún og faðir hennar eftirlýst og 2000 dölum lofað hverjum þeim sem nær þeim dauðum eða lifandi.

Villta vestrið er enginn leikvöllur.

Villta vestrið er enginn leikvöllur.

Villta vestrið er enginn leikvöllur og strax á fyrstu mínútum er tónninn settur fyrir blóði drifna atburðarrás þar sem þessir ólíklegu félagar keppast um að finna Rose á undan hausaveiðurum sem eru á eftir henni – sem reynist þrautinni þyngri þegar þeir hafa nóg með að halda sér á lífi í heimi þar sem engum er treystandi og peningar eru metnir meira en mannslíf. Saman við þetta kapphlaup fléttast svo annars konar leit, eða leit aðalpersónannna að sjálfum sér. Jay leitar að ástinni en er jafnframt uppfullur af sektarkennd og finnst hann bera ábyrgð á því að Rose og faðir hennar þurftu að flýja Skotland. Hann vill sættast við sjálfan sig og er sannfærður um að það að finna Rose sé lykillinn. Silas er ekki jafn meðvitaður um leit sína en hann hefur í langan tíma lokað tilfinningar sínar kyrfilega af. Vera hans með Jay hreyfir við einhverju innra með honum og hann uppgötvar að lífið getur verið svo miklu meira ef maður hefur einhvern sem manni þykir vænt um til þess að deila því með. Því má segja að hann sé í leit að sínum mýkri manni. Rose, sem ekki prýðir margar mínútur á skjánum, er hins vegar í leit að friði; hún þráir venjulegt líf með ástvinum, laus við ofsóknir.

 

Óskiljanleg ást

Michael Fassbender og Kodi Smit-McPhee í hlutverkum sínum sem hinn gallharði Silas og drengurinn Jay.

Persónusköpun hefði mátt vera talsvert dýpri. Forsaga Jays og þar með ævintýrsins er lítið sem ekkert skýrð sem gerir manni erfitt fyrir að finna til með Jay og lifa sig inn í ástarsöguna. Það sama má segja um Rose, en eins mikilvæg persóna og hún er fyrir söguþráðinn er tenging áhorfandans við hana lítil. Eitt er þó víst, Jay er ástfanginn upp fyrir haus og hann hættir lífi og limum í leit sinni að ástinni einu. Þrátt fyrir að Rose sé ekki með GPS-tæki í vasanum sem auðveldar Jay leit sína að henni, er leitin frekar auðveld – Rose er í vestrinu og eru það nægar upplýsingar til þess að hann finni hana. Það er því ekki langsótt að líkja Rose við sírenur grísku goðafræðinnar sem seiða dáleidd fórnarlömb sín til sín. Hætturnar skipta engu máli, þær eru hundsaðar í afvegaleiddum ástarbríma. Að þessu leyti kallast Slow West á við söngleikjamyndina O Brother, Where Art Thou? (Joel og Ethan Coen, 2000) sem er lauslega byggð á Ódysseifskviðu Hómers. Rómantíkin er drifkraftur Jay og myndarinnar í heild en hvað segir það áhorfandanum um ástina?

 

Hægeldaður vestri

Eins og titill myndarinnar gefur til kynna er framvinda myndarinnar fremur hæg, jafnvel þó að myndin sé ekki nema 84 mínútur. Maclean líkir þessu við muninn á hægelduðum mat og skyndibita og að þar með vísi „slow“ í eitthvað sem er ánægjulegt að taka sér tíma í að njóta. Þessar mínútur eru því vel nýttar og er af nægu að taka sem heldur áhorfendum við efnið. Fallegt landslag Nýja-Sjálands, þar sem myndin er tekin, gefur villta vestrinu og söguþræðinum draumkenndan blæ, sem er nokkuð viðeigandi í ljósi þess hve draumkennd ást Jays á Rose virðist vera, sem og leit hans að henni. Myndin veltir upp pælingum um mannlegt eðli; svik og ástir, vonir og vonbrigði, græðgi og samkennd. Á ferðum sínum komast félagarnir í tæri við allskyns fólk og lenda þeir í aðstæðum þar sem þeir þurfa að velja á milli siðferðis og þess að lifa af. Í myndinni er þó einnig slegið á létta strengi sem sést helst í kómískum aðstæðum sem félagarnir lenda í og þurrum húmor útlagans.

Slow West er ágætis afþreying og mátulega löng, svona þegar maður vill ekki skuldbinda sig í allt að þrjá tíma yfir skjánum. Myndin vekur áhorfendur til umhugsunar um mannlegt eðli; hún er ferðalag tveggja ólíkra manna sem hvor um sig er í leit, ekki bara að Rose heldur einnig að sjálfum sér. Spurningin er bara; finna þeir það sem þeir leita að og hvaða afleiðingar hefur það í för með sér?

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone