Vottar og vesalingar – um Týnd í Paradís eftir Mikael Torfason

MJ_fors

Tvær ungar, heftar manneskjur í vanlíðan kynnast, verða ástfangnar og stofna til fjölskyldu. Þetta er gömul saga og ný, þar á meðal í nýjustu bók Mikaels Torfasonar, Týnd í Paradís. Bókin er sjálfsævisaga höfundar og um leið saga foreldra hans og sambands þeirra. Sögumaður er í fyrstu persónu, fullorðinn rithöfundur sem segir frá samskiptum foreldra sinna (Huldu Fríðu og Torfa) og fjölskyldu. Hann lýsir æsku beggja foreldra sinna, kynnum þeirra og sambandi og að loks frumbernsku sinni þar til hann er um það bil fimm ára gamall. Mikael litli fæddist með sjúkdóm sem hann þurfti mikla meðhöndlun við og það flækti málið að faðir hans var genginn í Votta Jehóva og aftók með öllu að sonurinn fengi blóðgjöf sem hann þurfti þó nauðsynlega á að halda.

Foreldrarnir eru ýmist kallaðir eiginnöfnum sínum eða (oftast) mamma og pabbi. Afar og ömmur sögumanns eru oftast kölluð afi og amma, stundum fylgja eiginnöfnin með (amma Lilja, t.d.). Þetta getur orðið ruglingslegt fyrir lesandann sem er ekki alveg alltaf með á nótunum hvaða amma gerir hvað. Eins er hálfóþægilegt að heyra því lýst þegar mamma vildi ekki sofa hjá pabba og hvernig pabbi horfði á klámmyndir fram eftir nóttu, sérstaklega af því að í sjálfri frásögninni er sögumaðurinn lítið barn, þó hann segi frá sem fullorðinn maður. Sögumaður skiptir nægilega oft á milli eiginnafns og foreldraheitis til þess að þetta hefði átt að vera hægt að leysa vandræðalaust.

 

Frásögnin er vel upp byggð og persónusköpun með svo miklum ágætum að lesandinn er strax eftir nokkrar blaðsíður farinn að hafa talsverðar áhyggjur af örlögum þessa fólks. Það næst talsverð dýpt vegna þeirra tilfinningatengsla sem sögumaður hefur við persónur og þetta gerir það að verkum að lesandinn nær að tengjast persónunum betur en hann hefði annars gert. Kaflarnir eru fremur stuttir og góðar tengingar á milli þeirra. Sögumaðurinn er traustvekjandi og virkar mjög einlægur. Þó Mikael hlífi foreldrum sínum hvergi og feli svo sannarlega ekki bresti þeirra er saga þeirra dregin upp af samúð, skilningi og fyrirgefningu og frásögnin fetar sig þannig fimlega framhjá þeirri gryfju að verða samfelld ásökun barns til foreldra.

MT minni

Það liggur greinilega talsverð rannsóknarvinna í þessari bók, bæði viðtöl við foreldra Mikaels og aðra ættingja og eins er sagt mikið frá Vottum Jehóva og þeirra sögu bæði hérlendis og erlendis. Mikael er einlægur í afstöðu sinni til þeirra og dregur t.d. ekki úr því að hvað sem skoðunum hans núna líður heillaðist hann af starfseminni sem barn. Umfjöllunin um Vottana er einhliða og fellur að mestu inn í samfélagsleg viðhorf til þeirra en frásögnin veitir engu að síður áhugaverða innsýn inn í heim sem flestum er hulinn.

Þegar á heildina er litið er þetta vel unnin og skemmtileg bók sem auðvelt er að lifa sig inn í. Það hefði kannski mátt hugsa sögumannshlutverkið örlítið betur og hægja á framvindunni á stöku stað en bókin er nægilega áhugaverð og læsileg til þess að þetta er smámunasemi. Mikael tekst með einlægni og frásagnargáfu að vekja samúð og áhuga lesandans í þessari afbragðsfínu bók.

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone