Að elska vampíru – Hleyptu þeim rétta inn

Hleyptuþeimrettainn2

Óskar (Sigurður Þór Óskarsson) er lagður í afskaplega gróft einelti í skólanum og ekki tekur betra við inni á heimilinu þar sem móðir hans (Katla Margrét Þorgeirsdóttir) er drykkjusjúklingur sem ræður alls ekki við móðurhlutverkið. Þegar Elí (Lára Jóhanna Jónsdóttir) flytur inn í næstu íbúð tekst með þeim kunningsskapur og líf Óskars breytist svo um munar.

Hán og hann

Þegar rætt er um Elí er ákveðinn fornafnavandi á ferðinni. Hún birtist áhorfendum fyrst sem stúlka en fæddist sem drengur, er vampíra og segist tilheyra hvorugu kyninu. Þess vegna verður hér notað nýja fornafnið „hán“ sem hægt er að nota um fólk sem skilgreinir sig fyrir utan karlkyn og kvenkyn. Nafn háns verður heldur ekki fallbeygt.

Leikritið er hörkuspennandi og heldur áhorfendum í heljargreipum frá fyrstu mínútu. Blóðið flýtur um sviðið og atburðarásin er mjög harkaleg. Lára Jóhanna Jónsdóttir er bókstaflega stórkostleg sem vampíran Elí og stendur sig frábærlega í öllum þeim stökkum og klifri sem hlutverkið útheimtir. Sigurður Þór Óskarsson heldur bráðvel um taumana í hlutverki Óskars. Aðrir leikarar eru einnig á réttum stað, og má þar sérstaklega nefna Hallgrím Ólafsson í hlutverki Mikka, drengs sem þykist vilja hjálpa Óskari en er ekkert síður grimmur við hann en höfuðpaurinn Jonni (Oddur Júlíusson).

Spennan er byggð upp jafnt og þétt og áhorfandinn verður sífellt flæktari í líf Óskars og þar er engin auðveld lausn í boði. Örlög hans virðast annars vegar vera þau að vera undir í bæði heimilislífinu og skólanum eða veiða fólk svo Elí geti borðað, en hán nærist eingöngu á mannablóði. Ástarsögur fjalla um elskendur sem þurfa að yfirvinna einhverjar hindranir til að geta elskast.Það væri hægt að kalla þetta verk ástarsögu, en ástin er ekki endilega í fyrirrúmi og það verður sérstaklega flókið í tilfelli Elí, þar sem hán virðist ekki fær um að elska. Óskar elskar Elí en þó Elí sé annt um Óskar og hafi mikla þörf fyrir ást hans, elskar hán hann ekki og það er í meira lagi vafasamt að skilgreina verk sem ástarsögu þegar önnur aðalpersónan getur ekki elskað hina.

Hleyptuþeimrettainn1  

 

Undirvagn óskast

Leikgerðin er eftir Jack Thorne, gerð eftir skáldsögu og kvikmyndahandriti John Ajvide Lindqvist. Skáldsagan nefnist á frummálinu La den rette komme inn. Tvær kvikmyndir hafa verið gerðar eftir bókinni, sænsk mynd í leikstjórn Thomas Alfredsson og Hollywodmyndin Let me in, í leikstjórn Matt Reeves. Þessi leikgerð er byggð á skáldsögunni og sænsku myndinni og hefur í sér ákveðna brotalöm þar sem það vantar baksögu Elí og litlar upplýsingar koma fram um hvers vegna hán er eins og hán er og hvað það er sem skapaði skrímslið. Eins er titillinn lítið útskýrður. Þessar upplýsingar er vissulega að finna í skáldsögunni og myndinni en áhorfendur sem koma ferskir að sýningunni lenda þarna í ákveðnum vanda.

Leikmynd Höllu Gunnarsdóttur er afskaplega vel unnin og flott. Ég lét það fara pínulítið í taugarnar á mér að það er eins og hún vísi í gotneskar rætur vampírunnar, en þegar frá leið fannst mér tilvísunin eiginlega bara eiga vel við. Lýsing Ólafs Ágústs Stefánssonar er sömuleiðis mjög falleg og hljóðmynd Högna Egilssonar og Elvars Geirs Sævarssonar er svo vel gerð að hún á stóran þátt í því að byggja upp spennu og fá hárin til að rísa hvað eftir annað í sýningunni.

Aðstandendur þessarar sýningar mega una sáttir við sitt, þetta er vönduð sýning sem nær að fanga hug og hjörtu áhorfenda. Þetta er frumlegt vampíruleikhús, sem fer út fyrir formúluna um vampírur. Sýningin er myrk og spennandi og ég mæli eindregið með henni. Verkið er sýnt í Þjóðleikhúsinu.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone