Að owna þetta – Þemun í Beyoncé myndbandinu Formation

Poppdrottningin Beyoncé frumsýndi tónlistarmyndbandið „Formation“ síðastliðinn laugardag. Rúmum sólarhring síðar flutti hún lagið í hálfleik Super Bowl, úrslitaleik Bandaríkjamanna í fótbolta. Super Bowl úrslitaleikurinn slær öll bandarísk áhorfsmet, en að meðaltali fær þessi lokaleikur 114.4 milljón áhorfa á hverju ári. Þess má einnig geta að Super Bowl dagurinn er neysluhæsti dagur Bandaríkjamanna á eftir Þakkargjörðarhátíðinni.

Því er ekki að furða að Beyoncé hafi einmitt valið þennan sólarhring til þess að varpa pólitískri sprengju á netheima með boðskap myndbandsins. Reynsluheimur svartra í Bandaríkjunum er aðalviðfangsefnið; afleiðingarnar eftir fellibylinn Katrina og vanræksla stjórnvalda við svörtu hverfin sem fóru þar í rúst; lögreglugrimmd og Black Lives Matter hreyfingin – en einnig má sjá kveneflingu og femínisma. Í myndbandinu sjáum við ekki aðeins ádeilu Beyoncé á ofantalið heldur eignar hún sér eigin menningararf, og eigið líf.

Byrjum á því:

My daddy Alabama, Momma Louisiana

You mix that negro with that Creole make a Texas bamma

I like my baby hair, with baby hair and afro

I like my negro nose with Jackson Five nostrils

Earned all this money but they never take the country out me

I got a hot sauce in my bag, swag

Með öðrum orðum, Beyoncé own-ar þetta. Hún er stolt. Hún ætlar ekki að verða eins og Michael Jackson, fara í nefaðgerð og gerast hvít. Hún eignar sér orðin „negro“ og „bamma,“ sem bæði hafa verið niðrandi orð um svart fólk. Samkvæmt netheimildum hefur notkunin á „bamma“ breyst í gegnum tíðina, en upprunalega var það niðrandi orð um svartan sveitalubba frá Suðurríkjunum. Eitthvað sem Beyoncé ætlar ekki að skammast sín fyrir: „I like cornbread and collard green, bitch.“  Þú getur tekið sveitalubbann úr sveitinni en þú tekur ekki sveitina úr sveitalubbanum. Eða eitthvað í þá áttina.

 

beyonce-formation-music-video

 

Myndbandið er sviðsett í Suðurríkjunum þar sem saga svartra í Bandaríkjunum hófst, þar sem þrælahaldið byrjaði og þar sem þrælahaldið hélst lengst. En einnig þar sem mannréttindabarátta blökkumanna var haldin með Martin Luther King í fararbroddi. Ein klippa myndbandsins sýnir mann halda á dagblaði þar sem Martin Luther King prýðir forsíðuna: „More than a dreamer.“

Í lok myndbandsins sjáum við vopnaðan lögregluflokk standa andspænis litlum, hettuklæddum, svörtum strák sem dansar fyrir framan þá. Á vegg fyrir aftan hann stendur graffað: „Stop shooting us.“ Lögreglumennirnir lyfta höndum, það er uppgjöf þeirra megin.

 

408-formation-beyonce-940-620x330

 

Þetta er þátttaka Beyoncé í Black Lives Matter hreyfingunni, sem er alþjóðleg herferð gegn lögregluofbeldi í garð svartra. Ennfremur leiðir hún athygli okkar að vanrækslu stjórnvalda í New Orleans gagnvart svörtu hverfunum sem fellibylurinn Katrina lagði í rúst. Í byrjun myndbandsins er spurt „What happened after New Orleans?“ og Beyoncé birtist sitjandi ofan á lögreglubíl í miðju flóðinu. Á endanum sekkur lögreglubíllinn og Beyoncé með. Eða í orðum: Yfirvöld bera ábyrgð gagnvart þegnum sínum.

Okay ladies, now let‘s get in formation, cause I slay

Prove to me you got some coordination, cause I slay

Slay trick, or you get eliminated.

 

Formation má þýða sem „mótun“ eða „myndun“ en og út frá því væri hægt að sjá áminningu frá Beyoncé um að blökkufólk í Bandaríkjunum þurfi að endurskilgreina sjálft sig, skila skömm, taka sitt, own-a menninguna sína og síðast en ekki síst – hætta ofbeldi. Beyoncé geymir þessa setningu þar til síðast: Always stay gracious, best revenge is your paper. Síðan kveður hún hlustendur sína með því að veifa bless. Afstaða hennar gegn ofbeldi kristallast bæði í þessari síðustu setningu en einnig í uppgjöf lögreglumannanna í myndbandinu.

 

RTEmagicC_beyonce_clipe_formation.jpg

 

„Slay“ er fullkomið orð í þessu samhengi. Upprunalega þýðir orðið „að drepa“ en er núna notað á svipaðan hátt og þegar við tölum um að einhver „rústar“ einhverju, til dæmis þegar maður rústar prófi. Merkingin hefur líka þróast yfir í að hrífa og heilla, laða að sér. Og ennfremur er sögnin notuð á kven-niðrandi hátt um að ríða konu. Samkvæmt Urban Dictionary: „To mercilessly fuck, bone or screw a shady/skanky girl.“

I dream it, I work hard,

I grind‘til I own it.

[…]

Get what‘s mine, take what‘s mine

[…]

Cause I slay.

 

Beyoncé eignar sér allar þessar merkingar orðsins: When he fuck me good I take his ass to Red Lobster, cause I slay. Ef við notumst við dónalegu merkinguna af „slay“ þá tekur Beyoncé hlutleysi kvenna í kynlífi og snýr því upp í hlutlægni, virkni. Þess vegna er lagið og myndbandið ekki síst kvenefling, þar sem Beyoncé sýnir og segir okkur hvernig hún eignar sér eigin líkama, kynþokka og kynlíf. Hún er eigin yfirráðamaður. Hún ownar þetta.

 

 

Fyrir frekari upplýsingar:

Myndbandið við lagið Formation

http://blacklivesmatter.com/about/

http://onlineslangdictionary.com/meaning-definition-of/bamma

http://www.nytimes.com/2016/02/07/arts/music/beyonce-formation-super-bowl-video.html

http://www.urbandictionary.com/define.php?term=slay

https://en.wikipedia.org/wiki/Super_Bowl

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone