“Af draugum ertu komin” – Um Drauga-Dísu eftir Gunnar Theodór Eggertsson

DraugaDisaKapa

Í fjallshlíð í Fergjudal stendur kræklótt og óhugnanlegt tré sem kallað er varðmaðurinn því það minnir um margt á manneskju sem teygir handleggina upp til himna. Það er ekki aðeins óhefðbundið útlitið sem gerir það einstakt. Þetta tré er einnig tímahlið, aðgangur að tveimur heimum: Íslandi árið 2015 og Íslandi 300 árum fyrr, árið 1714. Það sem skilur þessi tvö tímabil á sömu eyjunni að er ekki aðeins munurinn á lifnaðarháttum fyrir og eftir iðnvæðingu því Ísland fortíðarinnar er morandi í skrímslum og ýmsum verum sem aðeins tilheyra þjóðsagnaarfi Íslands framtíðarinnar. Þetta er í stórum dráttum upphafið á sögu Gunnars Theodórs Eggertssonar, Drauga-Dísu.

Sagan hefst á skoffíni. Skoffín eru þjóðsagnarverur sem sagðar eru klekjast út úr eggjum sem sumir hanar verpa á dauðastundinni. Skoffín eru lítil en stórhættuleg skrímsli því með augnaráðinu einu saman geta þau sent fólk í djúpt dá. Drengurinn Björn, uppi á 18.öld, þráir ekkert heitar en að eignast sitt eigið skrímsli og heppnin er með honum þegar hann nælir sér í skoffín. Þetta skoffín reynist hins vegar vera mikill örlagavaldur þegar unglingsstúlkan Dísa stígur í gegnum tímahliðið fyrir tilviljun, finnur skoffínið og tekur það með sér til Reykjavíkur árið 2015. Í kjölfarið hefst atburðarás sem engan óraði fyrir.

Ókind, galdrar og ástin

GTE

Gunnar Theodór Eggertsson

Í sögunni, sem er þriðja skáldsaga Gunnars, styðst hann við íslenskan þjóðsagnaarf og býr til fortíðarheim sem er ævintýri líkastur. Sögunni má lýsa sem nokkurs konar ævintýra/hrollvekju/ástarsögu. Aðalsöguhetjurnar tvær, Dísa og Björn, verða ástfangin þó 300 ár skilji þau að í tíma og rúmi. Ástarsagan er hugljúf og tímaflakkið stórsniðugt og bæði Björn og Dísa eiga það sameiginlegt að eiga undir högg að sækja. Björn verður fyrir miklu aðkasti frá stóra bróður sínum og öðrum vinnumönnum heima á bænum í Fergjudal á meðan Dísa er fórnarlamb eineltis í grunnskólanum sínum. Dísa flýr veruleikann og aðstæður sínar með því að semja sögur og fantasíur en þegar hún finnur tímahliðið lendir hún loksins sjálf í langþráðu ævintýri.

Það er algengt stef í ævintýrasögum að hetjan eigi erfitt uppdráttar en fái aðgang að ævintýraveröld sem hún notar til að flýja ömurlegar aðstæður sínar og er galdradrengurinn Harry Potter gott dæmi um slíka sögu. Það býður hins vegar hættunni heim að leika sér að hinu óþekkta og því fá þau Björn og Dísa vissulega að kynnast. Dísa er virkilega vel skrifuð persóna. Hún er mannleg og gerir afdrifarík mistök en hún er flott, töff og stendur sig þegar á þarf að halda. Björn er andstæðan við Dísu, saklaus og trúgjarn sveitadrengur á 18. öld, en sýnir samt sem áður mikið hugrekki þegar á reynir.

Sagan er spennandi, frumleg og persónur vel útfærðar.

Það er erfitt að segja frá Drauga-Dísu án þess að gefa of mikið upp. Best er að vita sem minnst um söguþráðinn til þess að framvinda sögunnar komi sem mest á óvart. Gunnar nýtir þjóðsagnaarfinn vel og fléttan í sögunni útskýrir skort á skrímslum og öðrum óvættum í okkar samtíma á einstaklega skemmtilegan hátt. Í sögunni er flakkað á milli 18. aldar og þeirrar 21. og sjónarhorna Björns og Dísu eftir því hvað við á. Höfundur hefur jafnframt vandað sig við að passa uppá að sögupersónur noti viðeigandi málfar eftir því á hvaða tíma þau eru uppi, sem er flott stílbragð. Hönnun bókakápunnar er einnig virkilega flott, bæði upphleypt áferðin og svo er gaman að kíkja reglulega á kápumyndina, virða fyrir sér tréð sem er í aðalhlutverki framan af í sögunni, skoða skoffínið og Ókindina og ímynda sér hvernig umhorfs er í ævintýraveröldinni í Fergjudal.

Ævintýri enn gerast

Sagan er spennandi, frumleg og persónur vel útfærðar. Hin rammgöldrótta amma Björns er frábær persóna og aðrar sögupersónur, til dæmis hrekkjusvínið Emilíu, eru sannfærandi. Gunnar býr yfir þeim góða hæfileika að skrifa þannig um sögupersónur að lesandanum finnst persónan lifna við og þetta tekst honum að gera í sögunni bæði með mennskar persónur og þær ómennsku. Þar má nefna sem dæmi lýsingarnar á Ókindinni sem eru það vel heppnaðar að auðvelt að ímynda sér ótta þeirra sem hitta fyrir óskapnaðinn.

Sagan er fyndin á köflum en einnig átakanleg og óhugnanleg og á þessum rúmu 280 blaðsíðum gengur mikið á. Eftirmálinn, sem ber heitið 100.000.000 f.Kr., slær skemmtilegan botn í söguna. Það er ekki annað hægt en að mæla eindregið með Drauga-Dísu fyrir þá sem hafa gaman af þjóðfræði og ævintýrum. Gunnar Theodór hefur mikla frásagnarhæfileika og þeir njóta sín sannarlega í þessari bók. Hann hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir fyrstu bókina sína, Steindýrin árið 2008 og kæmi það ekki óvart ef að Drauga-Dísa yrði slík verðlaunabók.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone