Bæjarins besta listasafn

pylsur

Síðastliðna helgi var vikublaðinu Reykjavík stungið inn um bréfalúguna hjá mér sem og  öðrum íbúum miðborgarinnar. Á forsíðunni blasti við fyrirsögn sem benti til þess að „Bæjarins bestu [væru] mikilvægari miðborginni en Listasafnið”.

Í meðfylgjandi grein var rætt við Pétur Sveinbjarnarson, fyrrverandi framkvæmdarstjóra Þróunarfélags Reykjavíkur. Hugrenningatengsl greinahöfundar tengdu fyrirsögnina við umræðuna um sameiningu opinberra safna, hagræðingar á ríkisrekstri og annarra útþynntra mála undanfarinna vikna.

Forsíðumyndin með fyrirsögninni var tekin við Tjörnina, þar sem Litla Hafmeyjan hennar Nínu Sæmundsson naut sín í sólinni með Listasafn Íslands í bakgrunni. Ég kippti blaðinu með mér og las greinina meðan ég gekk meðfram Tjarnargötunni.

Nágrannarnir á Tryggvagötu

Eftir fyrstu skimun fann ég lítið um tengsl í textanum milli Listasafns Íslands og Bæjarins bestu á Tryggvagötunni. Hins vegar fylgdi önnur ljósmynd með greininni af vagninum á Tryggvagötu. Undirtexti myndarinnar vitnaði í einu setninguna sem tengir greinina við umræðu á Listasöfn á nokkurn hátt: „Bæjarins bestu eru þýðingarmeiri fyrir miðborgina heldur en Listasafn Reykjavíkur í Tryggvagötu með öllum þeim kostnaði sem því safni fylgir. Þannig að þetta er ekki alltaf spurning um peninga”.

Forsíða Reykjavík Vikublað 13. febrúar 2016

Það var semsagt átt við Listasafn Reykjavíkur, nágranna pulsumeistaranna á Tryggvagötunni. Hins vegar er erfitt að benda fingrinum á hvað nákvæmlega er verið að segja. Í vikublaðinu Reykjavík var viðtalið við Pétur stytt þónokkuð, en eftir nokkra leit kom í ljós að um stytta útgáfu af fjögurra ára gömlu viðtali væri að ræða, sem birt var á 101reykjavík.is. Þannig hafði það ekkert að gera með umræðu síðustu vikna um stöðu listasafna á landinu.

Tímaskökk „smellubeita”

Þrátt fyrir þessa tímaskökku „smellubeitu” ritstjórnar Reykjavíkur, þá vakti hún athygli mína þannig að ég ákvað að grafa aðeins dýpra í málið. Kannski eru nágrannarnir á Tryggvagötunni verðugri til samanburðar í menningarlegu samhengi en virðist vera við fyrstu sýn. Það verður þó að benda á hið augljósa, að ásamt samhengislausu vali á myndefni, verður að teljast varhugavert að bera saman pylsuvagn og starfsemi listasafns. Útprentaða „smellubeitan virkaði allavega á pirraðan listfrömuð sem reif blaðið með sér út í rigninguna til þess eins að lesa annars viðburðarlítið, gamalt viðtal við gamlan ref í miðborgarmálunum.

Í heildarútgáfu viðtalsins kemur álit Péturs á staðsetningu Listasafns Reykjavíkur í Hafnarhúsinu betur fram: „Mér finnst að gerð hafi verið hrapaleg mistök þegar Listasafni Reykjavíkur var komið fyrir þar. […] Í staðinn fyrir að vera með tvö veikburða listasöfn, dýr í rekstri, að byggja upp eitt stórt á Kjarvalstöðum, úti sem inni. Og nota aftur á móti Hafnarhúsið fyrir atvinnustarfsemi sem dregur miklu meira að sér, en safn gerir – með fyllstu virðingu fyrir safninu.” Stuttu síðar fer hann svo í samanburðinn á nágrönnunum á Tryggvagötu, sem var prentaður án samhengis í umræddu vikublaði, fjórum árum síðar.

Stofnun þróunarfélagsins

Sögulegt samhengi er kannski viðeigandi hér. Þróunarfélag Reykjavíkur var stofnað á árunum 1989-1990, með það að markmiði að „efla miðborg Reykjavíkur sem miðstöð stjórnsýslu ríkis og borgar, menningarlífs, verslunar og þjónustu.” Í frétt Morgunblaðsins um stofnun Þróunarfélagsins var lítið talað um mikilvægi menningarlífs í miðborginni. Orðið „menning” var notað einu sinni í greininni, sem tilvísunin hér að ofan bendir í, en það er ekki minnst á menningu í fjórum yfirlýstum markmiðum félagsins þar sem áherslan var öllu heldur lögð á að styðja við eigendur fasteigna verslunar- og þjónustuaðila, sem og íbúðabyggð. Umboðsmenn viðskiptalífs og stjórnmála sátu í nefndinni, en enginn menningarfulltrúi. Vert er að nefna að í fréttatilkynningunni bornar fram hugmyndir um að nýta neðstu hæð Hafnarhússins undir þjónustu og verslun.

En hvers vegna telur Pétur „Bæjarins bestu mikilvægari miðborginni en Listasafnið”? Er það sú staðreynd að Pulsuvagninn veltir mun meira á fermetra en safnið? Breytir það einhverju að vagninn er líklega arðbærustu fjóru fermetrarnir í Reykjavík, og að það sé augljóslega langsóttur samanburður við listasafn?

Lýðræðið er pulsa

kjorsedill1

Kjörseðillinn sem fylgdi með verki Steinunnar

Þessar hugrenningar draga upp minningu um myndlistaverk frá árinu 2009 eftir myndlistarkonuna Steinunni Gunnlaugsdóttur, Lýðræðið er Pulsa. Það var fyrst sett upp á Háskólatorgi á vordögum 2009, í aðdraganda fyrstu kosninga eftir hrun. Vídeóverki var stillt upp á pulsubás. Þar var hægt að næla sér í eina pulsu og fylla út kjörseðil sem lá á borðinu. Kjörseðillinn var óhefðbundinn að því leyti að ekki var um að ræða framboðslista heldur áleggssamsetningar á pulsu.

Á vefsíðu sinni tengir Steinunn verkið við það stýrða val sem núverandi kosningakerfi býður uppá. Það eru aðeins vissir stjórnmálaflokkar (eða áleggssamsetningar) í boði. Samsetningin er forskrifuð á framboðslista flokkanna. Hægt er að færa framboðsmenn (eða sósur) upp eða niður með listanum eftir þörfum. Sú aðgerð hefur reyndar takmörkuð áhrif á eiginlegar niðurstöður, bragðið breytist lítið.

Kerfið býður hins vegar ekki upp á valkost fyrir þá sem borða ekki pulsur; það er til fólk sem finnst það til dæmis siðferðislega rangt að troða í sig næringarsnauðum kjötlengjum í fransbrauði, löðrandi í sykruðum sósum. „Pulsan sjálf er hins vegar ekki valkostur – heldur skal hún vera étin af hverjum og einum borgara, ef ekki af frjálsum vilja, þá með afli” (Af vefsíðu listamanns, þýtt af greinahöfundi).

Í verkinu notar Steinunn pulsur sem myndlíkingu, og tengir við það hvernig ýmis leiðandi öfl stýra orðræðunni, menningunni, mataræðinu, jafnvel lýðræðinu. Pulsan hefur vissulega þjónað ríku hlutverki í menningarsögu Íslendinga allt frá landnámi bandaríska hersins. Hins vegar eru ekki allir jafn sammála um vissar yfirlýsingar í neytendamenningu Íslendinga, til dæmis að pulsan sé þjóðarréttur Íslendinga, eða að Strákarnir okkar hafi heilagan forgang að sjónvarpsdagskránni og hlutdrægum fréttaflutningi. Þrátt fyrir það verður pulsuvagninn að vendipunkti verksins, einmitt vegna mikils vægis í íslenskri dægurmenningu, hvort sem það er þvingað eða ekki.

Fermetratengd arðbærni

Miðborg Reykjavíkur, eða Miðborg Íslands, eins og Pétur lýsir henni, hefur að geyma menningu af ýmsum stærðum og gerðum. Þrátt fyrir það virðast hugsjónir Þróunarfélagsins beinast aðallega að fermetratengdri arðbærni. Þannig væri Hafnarhúsið álitlegra ef þar væru hýstar nokkrar hönnunar- og lundabúðir í viðbót við þær sem fyrir eru.

Rök Péturs gegn því að Hafnarhúsið hafi hýst Listasafn Reykjavíkur voru líklega til umræðu á sínum tíma, en borginni til góða var ákveðið að ráðast í framkvæmdir á safni, sem í dag er orðið vinsælt og veigamikið listasafn við hafnarbakka miðborgarinnar, með gríðarlegt menningarlegt aðdráttarafl.

Það frekar djúpt í árina tekið að staðhæfa að pulsuvagninn hafi meiri þýðingu fyrir miðborgina en Hafnarhúsið. Þannig er umræðunni slátrað og troðið inn í sama formið; ef starfsemi í miðborginni framkallar ekki hámarks arðbærni per fermetrafjölda (eða allavega eina með öllu) þá hefur hún enga þýðingu fyrir miðborgina.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone