Barnapósan

bp2

Rúmenska kvikmyndin Child’s Pose er hvort í senn lágstemmt og átakanlegt drama. Hún segir sögu sem sameinar samfélagsádeilu og karakterstúdíu, en meginumfjöllunarefni hennar eru stéttskipting og meðvirkni. Brugðið er upp samfélagsmynd þar sem efnameira fólk getur bæði samið sig og keypt út úr vandræðum auk þess að fá almenna forréttindameðferð innan opinbera kerfisins. Aðalsögupersónur myndarinnar eru mæðginin Cornelia Keneres og Barbu; Cornelia er farsæll arkítekt sem á í stirðu sambandi við Barbu, uppkominn son sinn á fertugsaldri. Cornelia þráir eðlilegt samband við son sinn sem er fjarrænn og leitast við að halda henni utan við líf sitt. Vandamálið er hins vegar hið blinda ofríki og stjórnsemi Cornelíu gagnvart syni sínum, sem virðist líka almennt einkenna samskipti hennar við fólk. Barbu er sömuleiðis mjög markeraður af ofríki móður sinnar, en hann er ófær um að standa undir ábyrgð og leitast við að forðast vandamál fremur en að takast á við þau. Hann forðast móður sína og svarar henni alla jafna með skætingi og vanmáttugri reiði. Myndin hefst vel að merkja á að Cornelía segir frá því að Barbu neiti að mæta í sextugsafmælið hennar.

Frásagnarframvindu myndarinnar er hrundið af stað þegar Cornelia fær símtal þar sem henni er tjáð að sonur hennar hafi verið valdur að bílslysi. Barbu hafi ekið á dreng á barnsaldri úti á landi með þeim afleiðingum að drengurinn deyr. Það að Barbu hafi orðið barni að bana virðist trufla Cornelíu ákaflega lítið, hennar ótti og áhyggjur eru af því hvort Barbu sé slasaður og hvaða áhrif manndráp hans af gáleysi komi til með að hafa á mögulegan framtíðarstarfsferil hans. Í kjölfarið fara tvær fléttur af stað þar sem Cornelía reynir að ráðskast með son sinn og örlög hans. Hún hefst handa við að fá vitni til að hagræða vitnisburði sínum og fá lögregluna til að breyta skýrslum, með mútum og fortölum. Eftirminnilegt er samtal Cornelíu við manninn sem Barbu var að taka fram úr þegar hann ók á drenginn, þar sem hún biðlar til hans að segja að Barbu hafi ekið á 110 km hraða en ekki 160 km eins og hans upprunalegi vitnisburður sagði. Cornelía leitar líka allra ráða til að nota slysið og umkomuleysi Barbu í kjölfarið, til að beygja hann undir vald sitt á forsendum móðurlegrar umhyggju en án árangurs.

Bæði eru mæðginin afar sjálfhverfir einstaklingar sem virðist ómögulegt að setja sig í spor annarra. Þau eru um margt skólabókardæmi um meðvirkt samskiptamynstur í fjölskyldu. Algeng ranghugmynd um meðvirkni er að hún sé alltaf eins konar stjórnlaus góðmennska og greiðvikni. Aftur á móti er gjarnan um að ræða fólk sem á í erfiðleikum með að setja sig í spor annarra, gera sér grein fyrir eigin tilfinningum en telur sig þó algerlega helgað velferð annars fólks. Umhyggja Cornelíu birtist í stjórnsemi gagnvart Barbu sem vanmættislega streitist á móti og hegðar sér eins og uppreisnargjarnt barn, en hún í blindni heldur sig við sama hegðunarmynstrið í von um að það skili tilætluðum árangri að lokum. Titill myndarinnar vísar ekki síst til hegðunarmynsturs Barbu. Sjálfhverfan er dregin fram á sláandi hátt með því hvernig Cornelía talar um og kemur fram gagnvart fjölskyldu drengsins sem Barbu ók á og hvernig dauði barnsins er aukaatriði í hennar huga. Það kemur fram með nokkuð átakanlegum hætti í lokaatriði myndarinnar. Hegðun hennar endurspeglar líka vissan stéttahroka sem aðilar í opinbera kerfinu spila með og staðfesta um leið að sömu lög gildi ekki fyrir alla Rúmena. Myndin er sterkt og vandað drama sem er ágætlega að lofi og Gullbirni komin.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone