„Bókin er samt betri“ – Aðlaganir á sviði og hvíta tjaldinu

Atli Rafn Sigurðarson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir í hlutverkum sínum sem Bjartur í Sumarhúsum og Rósa.
Atli Rafn Sigurðarson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir í hlutverkum sínum sem Bjartur í Sumarhúsum og Rósa.

Þegar litið er yfir þær sýningar sem boðið er upp á hjá Þjóðleikhúsinu á þessu leikári verður manni strax ljóst hve stór hluti þeirra er aðlaganir. Karítas án titils eftir Kristínu Mörju Baldursdóttur, Sjálfstætt fólk eftir Halldór Laxness, Svartar fjaðrir eftir Davíð Stefánsson og bækurnar um Kugg eftir Sigrúnu Eldjárn eru ekki nema örfá þeirra ritverka sem fengið hafa nýjan búning á sviði í ár. Þau bætast þar með í hóp ritverka sem sviðsett hafa verið síðustu ár en af eldri leikgerðum má nefna Svar við bréfi Helgu, Hreinsun og Íslandsklukkuna sem nutu mismikilla vinsælda. Það fer væntanlega ekki framhjá neinum að hér er um einhver ástsælustu verk íslenskrar bókmenntasögu að ræða. Heyra hefur mátt á umræðunni að það er aðdáendum bókanna hjartans mál að þessum vinsælu verkum séu gerð góð skil á fjölum leikhússins. Þegar hugað er að aðlögunum er mikilvægt að staldra við og athuga til hvers við ætlumst af leikritum sem eiga uppruna sinn í öðrum verkum. Mikilvægt er ekki síst að gera greinarmun á hinum þremur sjálfstæðu skáldverkum sem eru undirstaða sýninganna, það er að segja, skáldsögunni, leikgerðinni og sviðsverkinu.

Flestir kannast við það að verða svo hugfangnir af söguþræði, persónu eða heimi í bók að það er erfitt að leggja hana frá sér. Við viljum líka oftast fá meira af því sem okkur líkar vel og er skáldskapur þar engin undantekning. Þetta sést kannski skýrast á aðdáendahópi bókanna um Harry Potter. Heil samfélög hafa sprottið upp á netinu þar sem fólk talar saman um bækurnar og deilir myndum og aðdáendaspuna (e. fan-fiction). Fólk er ekki tilbúið að yfirgefa heiminn sem skapaður er í bókunum alveg strax og vill fá að sjá sögurnar sem það þekkir taka á sig mynd. Frá sjónarhorni markaðsaflanna gengur dæmið líka vel upp, því það gefur augaleið að auðveldara er að kynna og selja vöru sem viðskiptavinurinn þekkir nú þegar. Þegar Karítas, Bjartur og fleiri vel þekktar persónur mæta á sviðið eru margir sem bíða þeirra með eftirvæntingu en það getur reynst bæði kostur og galli, allt eftir því hvernig litið er á málið.

Brynhildur Guðjónsdóttir í hlutverki sínu sem Karítas.

Brynhildur Guðjónsdóttir í hlutverki sínu sem Karítas.

Stærsti kosturinn við að setja upp leikrit sem skrifað hefur verið og hugsað sem leikrit frá upphafi er sá að saga sem samin er með leiksvið í huga er líklegra að hún sé uppbyggð á hátt sem auðvelt er að miðla á sviði. Það er hægara sagt en gert að flytja sögu af pappírnum yfir á leiksviðið eða hvíta tjaldið enda eru listformin og skynjun okkar á þeim gerólík. Við upplifum skáldsögu með því að lesa orð og ímynda okkur atburði út frá þeim en kvikmyndir og leikrit miðla atburðarás með því að sýna okkur ýmist augnaráð, hreyfingar og samtöl sem áhorfandinn þarf að túlka. Dansverk, á borð við Svartar fjaðrir, eru svo enn annar kafli þar sem orðalausar athafnir verða að duga til að koma sögunni til skila. Þetta gerir það að verkum að sá sem tekur að sér að laga ritverk að öðrum miðli þarf að endurhugsa allar leiðir sem notaðar voru til að miðla upplýsingum og hughrifum í upprunalega verkinu, svo hann geti komið sama eða svipuðu efni á framfæri í öðru listformi. Aðeins þegar þeir möguleikar sem hið nýja listform býður upp á eru fullnýttir getur aðlögun talist vel heppnuð sem sjálfstætt verk en ekki bara skuggamynd af upprunalega verkinu.

Skýrasti munurinn á skáldsögu og leikgerð er sá að leikararnir hafa einungis örfáa klukkutíma til að koma sögunni til skila á meðan skáldsagnahöfundur getur haft mörg hundruð blaðsíður til þess. Þessi grundvallarmunur gerir það að verkum að ósk aðdáanda skáldsögu um að sjá hana dregna upp í smáatriðum á sviði er bæði óraunhæf og skaðleg fyrir aðlögunina. Það er til dæmis hægt að gera ráð fyrir því að ef sviðsetja ætti alla atburði skáldsögunnar Karítas án titils, sem er 447 blaðsíður, í réttri tímaröð yrði leikritið ákaflega langdregið.

Enn ein hindrunin við aðlaganir skáldsagna er að lokaverkið þarf bæði að koma til móts við áhorfendur sem þekkja söguna vel og þá sem eru að kynnast persónum og atburðum verksins í fyrsta sinn. Kvikmyndir um myndasöguhetjur, sem eru með því vinsælasta sem kemur frá Hollywood þessa dagana, eru líkast til besta dæmið um slíkt vandamál. Áhugafólk um myndasögur þekkir söguþráðinn í þeim út og inn, veit hvað varð til þess að ofurhetjurnar tóku að sér að berjast gegn glæpum og er kunnugt elskendum þeirra sem og helstu þorpurunum sem þær kljást við. Kvikmyndirnar ná hins vegar einnig til enn stærri hóps sem ekki þekkir söguna og þurfa að taka tillit til hans. Að ná að kynna söguna nægilega vel fyrir fólki sem þekkir ekki til og halda samt athygli þeirra sem það gera er hárnákvæmur línudans sem tekst misvel.

Atli Rafn Sigurðarson og Tinna Gunnlaugsdóttir í hlutverkum sínum sem Bjartur í Sumarhúsum og Rauðsmýrarmaddaman.

Atli Rafn Sigurðarson og Tinna Gunnlaugsdóttir í hlutverkum sínum sem Bjartur í Sumarhúsum og Rauðsmýrarmaddaman.

Það er augljóst að ekki er hægt að flytja sögu eins og hún leggur sig af síðum bókar og yfir á leiksvið, en hversu langt má, og á, höfundur leikgerðar að ganga í breytingum á sögunni? Það er spurning sem ekki verður endanlega svarað hér en mismunandi nálganir má sjá í verkunum Karítas og Sjálfstætt fólk, sem Þjóðleikhúsið hefur til sýninga. Í fyrrnefnda verkinu er sögunni fylgt nokkuð  nákvæmlega og nýtir ekki til fulls þá möguleika sem sviðssetningin býður upp á. Raunar fellur Karítas í flestar gildrur sem fyrirfinnast á leiðinni frá skáldsögu að sviðsverki. Mikið er lagt í að koma sem mestu af söguþræðinum til skila á kostnað persónusköpunarinnar sem gerði Karítas án titils svo heillandi. Auk þess má finna mörg atriði í sýningunni sem eru illskiljanleg hafi áhorfandi ekki lesið bókina. Sagan verður einföld frásögn af lífi konu í stað hinnar marglaga myndar af flóknum persónuleikum í ómögulegum aðstæðum sem dregin er upp í skáldsögunni. Karítas er ekki leiðinleg sýning, en hún nær þó aldrei að vera meira en bergmálið af Karítas án titils, vel heppnuð myndskreyting við skáldsögu Kristínar Mörju, en missir marks sem sjálfstætt verk.

Sjálfstætt fólk fer í algjörlega gagnstæða átt. Kannski er það vegna þess hve skáldsagan er vel þekkt og kannski vegna þess hversu oft verkið hefur verið sett upp áður, en í þeirri uppfærslu er ýmislegt gert til að aðgreina verkið frá fyrirrennurum sínum. Tilvísunum í nútímann er skotið inn í hinn hefðbundna sögutíma verksins, fjórði veggurinn er ítrekað brotinn þegar leikarar beina orðum sínum að áhorfendum og gengið er langt í að túlka á ákveðinn hátt það sem hefur aðeins verið gefið í skyn, sagt undir rós eða viljandi gert svo tvírætt að margar túlkanir séu mögulegar. Í þessari viðleitni við að hressa upp á verkið og draga það á afturfótunum inn í nútímann tapast mikið af því sem lesendur bókarinnar hafa dást að við verkið. Brandararnir um nútímann virka ódýrir, sjálfsmeðvitundin sem gegnsýrir sýninguna er tilgerðarleg og áhorfendur fá á tilfinninguna að verið sé að mata þá með hinni eindregnu túlkun sýningarinnar á atburðum bókarinnar.

Það er ekki öfundsvert hlutskipti að snúa vinsælli skáldsögu yfir í leikrit eða kvikmynd enda er viðkvæðið oft að „bókin sé nú betri“. Það er líka fátt verra en slæmar aðlaganir, eins og allir sem hafa séð Daredevil frá 2003 með Ben Affleck í aðalhlutverki geta vitnað um, eða Catwoman sem gerð var ári seinna. Þegar vel tekst til hinsvegar verður ekki bara til listaverk sem jafnast á við, eða jafnvel er betra, en upprunalega verkið, heldur gefur nýja verkið forvera sínum nýja vídd. Myndir eins og One Flew Over the Cuckoo‘s Nest, The Shawshank Redemption, Blade Runner og Bridget Jones‘s Diary og uppsetning Þjóðleikhússins frá 2013 á Englum Alheimsins eru allt dæmi um góð verk sem bæði njóta sín ein síns liðs en gefa einnig aðdáendum upprunalegu sögunnar færi á að njóta hennar á nýja vegu og frá mismunandi sjónarhornum. Það er því til mikils að vinna. Þó að söguþráðurinn sé til staðar og kynningarvinnan að hálfu unnin er mikilvægt að láta ekki letina ná yfirhöndinni við gerð aðlagana. Sé einhver metnaður fyrir verkinu til staðar verður markmiðið að vera sýning, kvikmynd eða dansverk sem nýtir til fullnustu möguleika miðilsins til að koma sögunni til skila á nýjan hátt bæði til aðdáenda og þeirra sem ekki þekkja til.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone