Boxhanskar og ballettskór – Billy Elliot

BillyEll

Það er veturinn 1984-85. Við erum stödd í Durhamsýslu á Englandi, nánar tiltekið í kolanámubænum Everington. Kolanámumenn eru í verkfalli og mikil ólga hefur myndast á milli verkalýðsins og þáverandi ríkisstjórnar, undir forystu Margaret Thatcher. Mótmæli og óeirðir eru daglegt brauð og lögreglan reynir að stilla til friðar. Átök brjótast út milli verkalýðsins og lögreglunnar og ofbeldið stigmagnast. Skelfing, ótti og vonleysi grípur bæjarbúa sem flestir hafa misst lifibrauð sitt en mitt í öllu kviknar vonin. Hún birtist í hæfileikum ballettdansarans, Billy Elliot, sem dansar í gegnum mannfjöldann, út úr sortanum og vonleysinu, inn í hjörtu manna og beina leið út úr smábænum Everington í átt að frelsi og frama.

Einhvern veginn á þessa leið er söguþráður söng- og dansleiksins um Billy Elliot sem var frumsýndur í Borgarleikhúsinu föstudaginn var, 6. mars. Sýningin er sú stærsta sem hefur verið sett upp í Borgarleikhúsinu fram til þessa en alls standa 69 listamenn að sýningunni; 34 börn, 24 fullorðnir og 11 hljómsveitarmeðlimir. Höfundur handrits er Lee Hall. Tónlist er eftir Elton John og danshöfundur er Lee Proud. Sagan kom upphaflega út sem kvikmynd árið 2000 (Billy Elliot, Stephen Daldry) en handritið var síðar lagað að leikhúsforminu og var verkið sett upp á West End í London árið 2005. Sagan er þroskasaga ungs drengs og hinna fullorðnu og fjallar að verulegu leyti um fordóma samfélagsins og einstaklingsins. Karl Ágúst Úlfsson annaðist íslenska þýðingu og Bergur Þór Ingólfsson leikstýrir verkinu. Þrír ungir dansarar deila með sér aðalhlutverkinu; þeir Hjörtur Viðar Sigurðarson, Baldvin Alan Thorarensen og Sölvi Viggósson Dýrfjörð.

Fulltrúi Sirkústjaldsins var viðstödd æfingu sem fór fram þremur dögum fyrir frumsýningu og varð síður en svo fyrir vonbrigðum. Það kvöld fór Hjörtur Viðar Sigurðarson með hlutverk Billy og leysti það vel af hendi. Leikarinn ungi þurfti ekki aðeins að leika afbragðsvel heldur einnig að dansa og syngja og gott jafnvægi var á milli þessara þátta. Leikararnir stóðu sig allir með stökustu prýði og persónur þeirra urðu ljóslifandi á sviðinu. Jóhann Sigurðarson fer með hlutverk föður Billy, Jackie, og Hilmir Jensson leikur bróður hans, Tony. Billy býr ásamt föður sínum, bróður og móðurömmu í smábæ á Englandi en Sigrún Edda Björnsdóttir leikur ömmuna. Þegar sagan hefst er u.þ.b. ár liðið frá andláti Jenny Elliot, móður þeirra Elliotbræðra og eiginkonu Jackie. Jóhanna Vigdís Arnardóttir leikur Jenny Elliot en hún vakir yfir Billy og birtist honum af og til. Eftir fráfall Jenny eiga Elliot-feðgar gjarnan erfitt en einnig vegna yfirstandandi verkfalls í kolanámunum, þar sem Jackie og Tony starfa báðir, og óvissu í atvinnumálum.

default

Þótt peningar séu af skornum skammti á heimilinu sendir Jackie son sinn, Billy, á hnefaleikaæfingar sem hann iðkar einu sinni í viku undir leiðsögn hins fúla og orðljóta George Watson. Þegar Billy er einhverju sinni á leið í hnefaleikatíma lendir hann fyrir slysni í miðjum balletttíma hjá Söndru Wilkinson og kemur hún þegar auga á hæfileika hans. Frú Wilkinson vill ólm fá Billy í einkatíma hjá sér til frekari þjálfunar sem og að skrá hann í inntökupróf við Konunglega ballettskólann. Halldór Gylfason leikur hnefaleikakennarann en Halldóra Geirharðsdóttir fer með hlutverk Söndru Wilkinson. Í verkinu endurspeglast grófur húmor sem birtist gjarnan í samskiptum ballettkennarans og hnefaleikakennarans við aðra. Halldóra og Halldór túlka þessar persónur afar vel og oftsinnis mátti heyra salinn hlæja dátt þegar þau voru á sviðinu. Sigrún Edda Björnsdóttir var óborganleg í hlutverki ömmunnar og túlkun þeirra leikara sem fóru með hlutverk Elliot-feðga var svo raunveruleg að gjarnan var sem maður tengdist þeim persónulegum böndum. Sorg þeirra og gleði varð áþreifanleg og andrúmsloftið var á köflum rafmagnað.

 

default[2]Verkið inniheldur söng, dans og leik en þó má segja að minna hafi borðið á söngnum, einkum þar sem dansatriðin voru þeim mun fallegri og leikurinn undraverður. Búninga annast Helga I. Stefánsdóttir en þeir samræmast persónum verksins afar vel og fanga ágætlega tíðarandann innan þess. Ekkert er nema gott um hljóðvinnslu Ólafs Arnar Thoroddsen og Gunnars Sigurbjörnssonar að segja og tókum við sessunautur minn sérstaklega eftir gæðum hljóms í einu dansatriðanna, þegar Billy steig steppdans á sviðinu. Þórður Orri Pétursson, ljósamaður, nær gjarnan að undirstrika dramatíkina í verkinu og sviðsmynd Petr Hlousek spillir svo sannarlega ekki fyrir. Reglulega er skipt á milli kolanámanna, heimilis Elliot fjölskyldunnar, leikfimisalarins, götumyndar og salernisaðstöðu í leikfimisalnum. Skipti á sviðinu voru mjög hröð, en þar var gjarnan margt að gerast í einu. Flæði sýningar er afar gott og var vart að sjá að aðeins hafi verið um æfingu að ræða. Hins vegar er greinilegt hve mikil vinna liggur að baki slíkri sýningu en undirbúningur hefur tekið um það bil ár og uppselt er á 28 sýningar. Aðstandendur allir mega vera stoltir af þeirri vinnu sem þeir hafa lagt á sig og ætti sýning sem þessi að höfða til breiðs hóps menningarunnenda. Hún inniheldur eitthvað fyrir alla; dans, leiklist og söng í bland við húmor, háð og dramatík.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone