„Concerned citizen – can you make a change?“

maxresdefault

Dracula’s Pack er sýnt í Tjarnarbíói, næsta jafnframt og síðasta sýning verður 5. júlí.

Sýning Juliette Louste Dracula’s Pack er einskonar heróp, hvatning til vitundarvakningar. Líkt og Juliette nefnir í viðtali sínu við Sirkústjaldið í júní finnst henni „heimurinn okkar vera orðinn ruglaður“ og verkið er hennar framlag til þess að breyta því. Verkið er spuni þar sem jazz, dans og ljóðaslamm koma saman í hugvekju um hlutverk einstaklingsins í nútímalegu lýðræði.

Verkið hefst á frumstæðum dansi þátttakenda sem hægt og rólega þróast yfir í fágaðri hreyfingar og tónlistarflutning. Jazzlistamennirnir færa sig hægt og rólega yfir að hljóðfærum sínum og þegar tónarnir fara að flæða breytast þeir í tæki fyrir dansarana til þess að túlka reiðuleysi nútímasamfélags. Dansararnir eru fjórir, þrjár konur og einn karlmaður, sem einnig fer með meirihluta ljóðaslammsins.

Ljóðaslammið er á ensku, svo að verkið er aðgengilegt flest öllum. Þar spyr flytjandinn spurninga um hlutverk okkar sem einstaklinga í samfélagi sem byggist á lýðræði en endurspeglar einning þann vanmátt sem við finnum fyrir gagnvart hinum ógurlega bákni sem stjórnvöld eru í huga okkar. Er lýðræðið enn lifandi? Getur ein manneskja í raun og veru breytt einhverju?

Verk Juliette kallast harkalega á við þann raunveruleika sem við lifum við. Nýafstaðnar forsetakosningar hér á landi og úrslit Brexit sýna mátt einstaklingsins, bæði við það að taka afstöðu en einnig við það að taka ekki afstöðu. Greining á niðurstöðum Brexit sýnir að dræm þátttaka ungs fólks hafði afgerandi áhrif á úrslitin. Juliette vill ýta á unga fólkið, koma því á kosningastaði og taka þátt í að móta sína eigin framtíð.

„When people are more important than borders, there are no refugees.

When people are more important than power, there is true equality.“

En hvernig stendur á þessu afstöðuleysi? Hvers vegna hefur unga fólkið misst trúna á virku lýðræði? Almenningur í dag upplifir mikið valdaleysi gagnvart stjórnvöldum og endurspeglast þessi vanmáttur í Dracula’s Pack. Hjarðeðli einstaklingsins er gagnrýnt, þar sem dansararnir apa eftir hvor öðrum og verða á tímabili bókstaflega skuggar hvors annars.

Hver er sannur máttur einstaklingsins?

Endurspeglun er einnig mikilvægur partur sýningarinnar, bæði í samskiptum þátttakenda en einnig spegla þau áhorfendur út í sal, með því að stilla sér upp og horfa á þá. Þá myndast áhugaverð en á köflum óþægileg dýnamík, þar sem áhorfandinn er neyddur til að horfa til baka og takast á við í huga sínum, þær spurningar sem þátttakendur verksins varpa til áhorfenda.

Sú hugleiðing sem verkið skildi eftir sig fyrir mig, er eitthvað á þennan veg: Samfélagið stíar okkur í sundur en með sannri list og tjáningu getum við tengst hvort öðru á ný, og með virkri þátttöku í samfélaginu getum við breytt þessum sjúka veruleika sem við búum við.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone