Eftir eigin höfði: spuna- og skásögur á netinu 1/2

Harry Potter eftir Eygló Strand Jóhannesdóttur
Harry Potter eftir Eygló Strand Jóhannesdóttur

 

Um daginn sat ég á kaffihúsi þegar ég heyrði tvær vinkonur á næsta borði uppgötva sér til mikillar furðu að þær hefðu báðar skrifað Harry Potter spunasögur, eða fanfiction, þegar þær voru unglingar. Ég lét á engu bera þó mig bráðlangaði að láta vita af mér því það er fátt skemmtilegra en að hitta fólk sem er upptendrað af sama áhugamáli og maður sjálfur. Skipti engu að sá spunaheimur sem ég var að skrifa í þá stundina væri óskildur Harry Potter, við áttum annað mun mikilvægara sameiginlegt: Við vorum hluti af ákveðnu samfélagi, samfélagi aðdáenda sem á ensku kallast fandom.

 

Hið frábæra fandom

Það er erfitt að útskýra fandom, sem mætti kalla aðdáendaheiminn, fyrir utanaðkomandi. Opinber umfjöllun í fjölmiðlum er yfirleitt lituð hæðni og lítilsvirðingu en þó má finna dæmi um sanngjarnari meðferð. Rithöfundurinn Lev Grossman skrifaði t.d. stórgóða grein á Time, The Boy Who Lived Forever, sem ég mæli eindregið með. Þar segir meðal annars: „They’re fans, but they’re not silent, couchbound consumers of media. The culture talks to them, and they talk back to the culture in its own language.“ Aðeins þeir sem eru hluti af fandom geta þó virkilega skilið hversu stórkostlegt það er. Þannig kemst spunahöfundurinn Hesychasm snilldarlega að orði í einlægri upptalningu sinni á því hvað fandom þýðir fyrir hana og myndbandið Us eftir Lim fléttar á afhjúpandi hátt saman texta Regina Spektor og brotum úr hinum ýmsu kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.

Það sem einkennir aðdáendaheiminn framar öðru er þó ástríðan. Og þó hún geti stundum brotist út á neikvæðan hátt, í gagnrýni og jafnvel stríðsátökum milli andstæðra póla í samfélaginu, þá spretta allar þessar tilfinningar frá sömu rótum: innilegri og jafnvel gagntekinni ást á tilbúnum persónum og veruleika sem stendur okkur jafn nær og okkar eigin.

 

Fjölbreytileikinn í fyrirrúmi

Ef ég ætti að lýsa dæmigerðum spunahöfundi myndi ég segja að líklegast væri kynvitundin kvenlæg. Aldur, kynhneigð, kynþáttur, hjúskaparstaða, menntun, atvinna og búseta eru hins vegar eins margbreytileg og á öllum öðrum sviðum samfélagsins. Þó má með nokkurri vissu staðhæfa að höfundar skásagna (slash fiction = hinsegin spunasagna) séu upp til hópa ákafir stuðningsmenn réttinda samkynhneigðra.

Til að nefna nokkra af mínum uppáhalds spunahöfundum þá er ein nítján ára nýsjálensk háskólastúlka, önnur er sextug bresk amma og höfundur hátt á þriðja tug útgefinna bóka, ein önnur er fimmtugur lesbískur prestur, svo er fertug óperusöngkona og loks tvíkynhneigður ástralskur listamaður.

Það eina sem spunahöfundar og aðrir gagnvirkir aðdáendur eiga í raun sameiginlegt er ástríðan og sköpunargleðin. Auk þess að skrifa og lesa spunasögur, teikna þeir og mála, sauma, prjóna, búa til kvikmyndir, hreyfimyndir (gif) og tónlistarmyndbönd, semja tónlist og ljóð, skrifa akademískar greinar og áhugaverða pistla (meta) áhugamáli sínu til heiðurs. Sköpunarverkum sínum deila þeir yfirleitt með öðrum í gegnum netið og skapast oft líflegar umræður í kjölfarið.

 

En hvað eru spunasögur?

Flest eigum við okkur eftirlætisbækur, kvikmyndir eða sjónvarpsþætti – skáldaða heima sem við tengjumst fremur öðrum. Persónur þessara heima standa okkur ljóslifandi fyrir sjónum enda upplifum við með þeim sorgir og gleði, sigra og ósigra. Þegar bókinni eða myndinni lýkur er það eins og að kveðja gamla vini og því er ekki að undra að hugurinn reiki stundum til þeirra. Hvað ætli hafi gerst næst? Hvernig var líf þeirra áður en við kynntumst þeim? Hvað gerðist á milli kafla sex og sjö? Hvernig hefði sagan þróast ef þetta hefði gerst en ekki hitt? Hvað ef? Möguleikarnir eru endalausir.

Spunasögur verða til þegar spunahöfundar skrifa þessa möguleika niður og deila þeim með öðrum aðdáendum sömu heima. Spunasögur gefa lesendum tækifæri á að skyggnast inn í huga aukapersóna jafnt sem aðalpersóna og fylgjast með þeim frá mismunandi sjónarhornum, tímapunktum. staðsetningum … Ja, hvað sem höfundunum dettur í hug. Hugarfluginu eru engin takmörk sett og upprunalega hugverkið er því ekki lengur afmarkað. Það er enginn upphafspunktur, enginn endir, bara víddir og dýptir sem teygjast út í hið óendanlega.

 

Spunasögur – saga og staða í samtímanum

Það er erfitt að segja til um upphaf spunasagna. Sumir telja sögu þeirra hefjast með útgáfu Jane Austen spunatímarita (fanzines) um 1920, aðrir vilja fara alveg aftur til 1421 er John Lyndgate skrifaði The Siege of Thebes sem framhald Kantaraborgarsagna eftir Chauser. Enn öðrum þykir Eneasarkviða Virgils augljóst dæmi um spunasögu byggða á Illionskviðu eftir Hómer. Hugsanlega má þó segja að spunasögur verða til þegar hugmyndin um höfundarrétt kviknar. Sögur sem áður fyrr voru almenningseign, samkvæmt sagnahefð þjóðsagna, goðsagna, ævintýra og dæmisagna, töldust nú eign höfundarins. Sama hvaða kenningu menn aðhyllast þá er augljóst að spunasögur eru langt frá því nýtt fyrirbæri.

 

“To boldly go …”

Spunasögur í núverandi merkingu komust þó fyrst verulega á kreik þegar aðdáendur Star Trek þáttanna fóru að senda sögur sín á milli í spunatímaritum. Aðdáendur Star Wars fylgdu í kjölfarið og fleiri og fleiri. Þessar sögur urðu sífellt opinberari, voru jafnvel gefnar út í bókum og má nefna að Nichelle Nichols sem lék Uhuru í Star Trek átti sjálf sögu í einni þeirra. Fór svo að lagadeild Star Wars framleiðendanna sendi út reglugerð um leyfilegt innihald slíkra sagna, einkum til að stemma stigu við kynlífssenunum sem voru skiljanlega mjög vinsælar meðal lesenda. Ekki fara sögur af hversu vel tókst til að láta spunahöfunda fylgja þessum reglum.

 

Netvæðingin

Með komu internetsins varð bylting þegar kom að dreifingu spunasagna. Aðdáendur skriðu úr einmana fylgsnum sínum og gátu deilt sögum með sístækkandi hóp samsinntra lesenda alls staðar að úr heiminum. Þeir mynduðu heil samfélög á netinu, fandom, sem hægt og rólega fóru að verða sýnilegri bæði á menningarmiðlum og í samfélaginu almennt. Nú er svo komið að reglulega er minnst á spunasögur og fandom á netmiðlum og öðrum fjölmiðlum. Áhugasömum er bent á As Others See Us á Dreamwidth, sem er fandomstýrt vefsetur, en þar er vikulega birtur listi yfir tengla á slíkar umfjallanir.

 

Af hverju spuni?

Fyrir utan það að vera skemmtilegt tómstundagaman, ágætis afþreying og leið fyrir höfunda að þjálfa og þroska ritstíl sinn, þá er tilgangur spuna- og skásagna m.a. að reyna að rétta af samfélagsskekkjuna í því efni sem í boði er á hinum almenna markaði. Sannleikurinn er nefnilega sá að útgefið efni, hvort sem um ræðir bækur, kvikmyndir eða sjónvarpsefni, kemst ekki nálægt því að sýna þverskurð af venjulegu samfélagi. Konur, aðrir kynþættir en hvítir og minnihlutahópar yfir höfuð eru yfirleitt aðeins aukapersónur í tilbúnum heimi hinnar hvítu karlhetju.

Staða hinsegin fólks í hvers kyns sagnamiðlum er einstaklega slæm. Ef það fær yfirhöfuð að vera með er það yfirleitt í hlutverki trúðsins, illmennisins eða fórnarlambsins. Kynhneigðin spilar þá oft stærra hlutverk en persónan sjálf og persónugerðin byggist oftast á staðalímyndum sem eiga sér litlar stoðir í raunveruleikanum. Til samanburðar má nefna að sjaldnast þykir ástæða til að minnast á kynhneigð gagnkynhneigðra persóna eða afstöðu annarra til hennar. Þess í stað fá þær að einbeita sér að söguþræðinum, persónuþróun og almennum samskiptum sín á milli, þ.e. þær fá að vera alvöru persónur, ekki bara skuggi staðalímyndar eða fánaberi kynhneigðar sinnar.

Það er því ekki að furða að skásögur njóti vinsælda í aðdáendaheiminum. Ekki einungis meðal hinsegin fólks heldur einnig gagnkynhneigðra sem eru leiðir á klisjunum og hungrar eftir efni sem sýnir hinsegin fólk sem sjálfsagðan hluta af samfélaginu.

 

Kynstrin öll af kynlífi

Spuna- og skásögur eru ekki feimnar við að sýna kynferðislegu hliðina á persónum sínum enda er kynlíf mikilvægur hluti af lífinu. Þær eru því leið til að kynna sér ýmsar hliðar kynferðislega nautnar og samskipta án skuldbindinga eða eftirvæntinga frá öðrum. Spunaumhverfið er þannig verndaður vettvangur en að sama skapi mjög opinn. Spunahöfundar og lesendur telja nefnilega almennt að þegar kemur að kynlífi, löngunum, fantasíum og útrás lostatilfinninga eru engar leiðir þær „réttu“. Klisjur, kink og blæti, allt er þetta jafnrétthátt í spunaheiminum og engum gert að skammast sín fyrir langanir sínar, sama hversu undarlegar þær myndu þykja í „raunheiminum“. Eina skilyrðið er að efni sem gæti stuðað eða jafnvel sært eða hrætt, er rækilega merkt svo lesendur geti tekið upplýsta ákvörðun við val á lesefni. Ég þekki mörg dæmi þess að þolendur kynferðilegs ofbeldis hafi notað spunasögur til að vinna á tilfinningahnútum og endurvekja sjálfa sig sem kynferðislega þenkjandi og njótandi manneskjur.

Margir lesendur hafa líka uppgötvað hlið á sjálfum sér sem þeir vissu ekki af áður. Öðrum hefur létt að komast að því að þeir eru ekki sér á báti, eru ekki skrýtnir eða afbrigðilegir fyrir að líða eins og þeim líður. Aðdáendaheimurinn gefur fólki tækifæri til að finna aðra af sama sauðahúsi og kanna betur hliðar á sjálfum sér sem það þorði kannski ekki að uppljóstra fyrir neinum áður, eins og kynferðislegar hugsanir til annarra en hins gagnstæða kyns. Hvort sem við lítum á kynhneigð sem skala í anda Kinsey, hnitakerfi líkt og Klein eða einhvers konar þrívítt allsumlykjandi rými þá er augljóst að það er ekki hægt að skipa henni í kassa, merkta annað hvort sam- eða gagn-. Það getur því tekið tíma að staðsetja sjálfan sig, sérstaklega ef uppeldi og umhverfi gefa ekki svigrúm til umhugsunar.

 

Lagalega hliðin

Þó núlifandi höfundum vinsælla hugverka sé mörgum vel kunnugt um listrænar túlkanir aðdáenda á verkum sínum, eru þeir mishrifnir. Sumir höfundar telja spunasögur vera vanvirðingu við verk sín og brot á höfundarrétti, hóta jafnvel lögsókn ef ekki er af látið. Það er þó erfitt að koma lögum yfir sjálfstætt starfandi fólk sem tekur enga borgun fyrir sköpun sína, enda hefur enginn spunahöfundur enn verið dreginn fyrir dómstóla þótt nokkrum hafi verið sent lögbann. Sköpun af þessu tagi er líka á nokkuð gráu svæði. Samkvæmt bandarískum lögum er annars vegar hægt að túlka hana sem sanngjarna notkun (fair use) og hins vegar sem löglega afleitt (derivative) eða ummyndað (transformative) verk.

Margir eru þó mun jákvæðari. J.K. Rowling, höfundur Harry Potter bókanna, hvetur til dæmis sína aðdáendur til listsköpunar en biður þá þó um að sýna stillingu þegar kemur að ástarlífi persónanna. Joss Whedon, höfundur Buffy the Vampire Slayer, Firefly o.fl., setur engar slíkar hömlur: „There’s a time and place for everything, and I believe it’s called ‘fan fiction’,” var haft eftir honum í viðtali. Í bókinni Fangasm viðurkennir Eric Kripke að hann hafi beinlínis haft aðdáendur og hugmyndaflug þeirra í huga við gerð Supernatural þáttanna: “[W]e set out in the beginning to obtain … a really self-contained universe in which fans can come and go…so just as in all good universes, you can find new ways to expand and explore other corners of that universe…And the fact that the fans are actually doing that is a good sign – I love it and I welcome it. I wanted to create a universe where we welcome others to come and play.” Í stuttu máli á hinu ástkæra ylhýra: þessi heimur var búinn til fyrir ykkur, skemmtið ykkur vel!

Höfundar og rétthafar hugverka eru margir hverjir farnir að gera sér grein fyrir því valdi sem aðdáendur hafa. Vinsældir verkanna eru undir neytendum, þ.e. aðdáendum, komnar, ánægðir og skapandi aðdáendur halda merki sinna uppáhaldshugverka á lofti, breiða út boðskapinn og auka þannig áhorf og sölu. Það getur því reynst varasamt að styggja þá.

 

Að vera eða vera ekki viðurkenndur

Fáir hafa veitt eins mörgum höfundum innblástur og Jane Austen. Listi Wikipediu yfir skáldsögur sem byggja t.d. á Pride & Prejudice telur nú yfir 170 bækur. Þá eru ótalin óbeinni verk eins og Dagbækur Bridget Jones eftir Helen Fielding. Kvikmyndin Clueless er að sama skapi byggð á Emmu á meðan kvikmyndin Metropolitan byggir á Mansfield Park. Vandi er að sjá af hverju þessar ummyndanir og svo margar, margar fleiri fá viðurkenningu sem sjálfstæð verk á meðan spunasögur eru oft umlyktar skömm og fyrirlitningu. Eini sjáanlegi munurinn virðist vera að þau eru gefin út opinberlega í gróðatilgangi á meðan spunasögur halda sig yfirleitt í undirheimum netsins og eru aðgengilegar án endurgjalds hverjum sem er.

Þetta er þó að breytast. Vinsældir 50 gráa skugga eftir E.L. James, sem er endurskrifuð Twilight spunasaga, hafa beint athygli markaðsins að þessum vannýtta möguleika. Sitt sýnist þó hverjum, margir spunahöfundar kunna betur við sig í myrkrinu og kæra sig ekkert um að áhugamál þeirra sé milli tannanna á fólki. Sumum þykir brotið á grunnreglu fandoms að öll listræn tjáning innan þess eigi að vera fólki aðeins til ánægju en aldrei til gróða. Öðrum þykir skelfilegra að af öllu því stórgóða efni sem hægt er að finna í spunasagnasarpinum skuli þessi hafa orðið fyrir valinu. Ekki af því hún er klámfengin – spunahöfundar eru yfirleitt nokkuð erótískt þenkjandi – heldur vegna þess hve hún þykir illa skrifuð og hættulega misvísandi um lífsstíl BDSM. Enn aðrir sjá hins vegar vinsældir skuggatrílogíunnar sem brautryðjandi tækifæri fyrir spunahöfunda sem hafa hug á að koma sínum endurrituðu spunasögum í hendur útgefenda.

Hvað sem því líður þá eru spunasögur komnar út úr skápnum eftir margra áratuga feluleik. Viðtökurnar eru þó því miður oftar neikvæðar en jákvæðar. Hæðst er að sögunum og höfundum þess á hinum ýmsu miðlum, illa skrifaðar, ofurdramatískar og klámfengnar sögur sóttar á Fanfiction.net og hlegið að því hversu hallærislegar og hryllilegar þær eru. Það er kannski ekki að furða að spunahöfundar kunna betur við sig í aðdáendaheiminum, innan um fólk sem hefur vit á að greina hismið frá kjarnanum og dæmir ekki að ósekju.

Næst: Skásögur.

[Mynd: Harry Potter eftir Eygló Strand Jóhannesdóttur.]
Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone