Ég á mig sjálf – Shakespeare og drusluskömm

Women may fall when theres no strength in men

Nú eru 400 ár liðin frá dauða William Shakespeare. Fyrir stuttu var innslag í útvarpinu um sjeikspírska túlkun á stjórnmálum hér á landi og skemmtilega kveðið um fráfarandi forseta og tengt við fallna konunga úr verkum skáldsins.

Það má segja að drusluskömm eða eignaréttur yfir líkama kvenna hafi verið eitt af meginþemum Shakespeare. Í verkum hans er að finna margar konur sem verða fyrir áreitni eða nauðgun og er refsað fyrir það. Er það sett fram með spurningu um rétta framkomu gagnvart konum, svipað og #freethenipple.

Konu nauðgað vegna ýkts hreinleika

Í ljóðinu The Rape of Lucrece er konu nauðgað vegna þess að eiginmaður hennar lýsir henni sem bestu eiginkonu sem til er og hve heiðvirð og hrein hún er. Sakleysi hennar er ýkt þar til hún virðist varnarlaus. Sem hún er. Hún getur ekki sannfært öflugan mann um að nauðga sér ekki. En vegna þeirrar skammar sem nauðgun hefur á fjölskyldu hennar fremur hún sjálfsmorð. Hún gerði það eina sem hægt var til að eiginmaðurinn héldi heiðri.

Þegar kemur að kynlífi utan hjónabands, er einnig að finna drusluskömm. Í Much Ado About Nothing er stúlka niðurlægð af heitmanni sínum á brúðkaupsdaginn og sögð hafa þóst vera hrein mær en gefið líkama sinn öðrum manni. Hún fellur í yfirlið og faðir hennar óskar þess að hún vakni aldrei, skömmin er það mikil. Dauði er eina lausnin fyrir hann sem þótti vænt um barnið sem sveik hann. Þess má geta að í sama leikriti kemur fram að einn herramaður hefur gaman af samvistum við konur, en vill ekki giftast þeim, og það er í lagi.

Fleiri dæmi er að finna í verkum Shakespeare. Einni konu er varpað í fangelsi þar sem eiginmaðurinn telur hana bera barn undir belti sem ekki er hans. Annarri er nauðgað og því næst limlest, en það er ekki nóg, faðir hennar drepur hana því hún ber skömmina bókstaflega utan á sér. Annarri ungri dömu eru gefnir þrír möguleikar. Hún getur gifst manninum sem faðir hennar telur réttan maka, gengið í klaustur eða dáið. Það leikrit byrjar á sigri landshöfðingjans á Amasónum þar sem konur hafa völdin. Einnig tekur hann höfðingja þeirra með sér til baka sem eiginkonu.

Ekki nógu mikið breyst

Dæmin eru endalaus, en þrátt fyrir það hefur enn í dag, 400 árum seinna, ekki nógu mikið breyst. Jú, við megum giftast þeim sem við viljum (í flestum samfélögum) og stunda kynlíf utan hjónabands, eða hvað? Eru konum ekki viss takmörk sett? Við megum stunda kynlíf, en ekki eiga of marga bólfélaga. Er karlmaður sem stundar kynlíf með mörgum konum litinn sömu augum?

Við munum eftir ræðunni sem hratt druslugöngunni af stað, þar sem konur voru hvattar til að klæða sig ekki á vissan hátt til að auka ekki líkurnar á áreitni. Þar með er okkur sagt að við berum hluta ábyrgðarinnar ef okkur er nauðgað. Við megum vera „sexy“ en ekki of. Nei kemur ekki í veg fyrir nauðgun og karlmenn eiga ekki að þurfa að hafa stjórn á sér ef konan er klædd á vissan hátt. Við verðum að passa okkur og taka skömminni sem fylgir því að vera nauðgað. Er þessi hugsunarháttur mjög ólíkur þeim persónum Shakespeare sem ég nefndi hér að ofan?

Þegar #freethenipple stóð sem hæst komu upp allskonar málefni í tengslum við geirvörtuna. Einn kærasti var ósáttur við „frelsi“ kærustu sinnar og kvartaði undan því að þetta, sem hann einn ætti að sjá var gert opinbert. Hér vil ég benda á að í ljóði skáldsins lagði gerandinn áherslu á að snerta brjóstin sem aðeins eiginmaðurinn mátti sjá. En hver á geirvörtuna?

„He was not of an age, but for all time“ sagði Ben Johnson um Shakespeare. En miðað við þær miklu þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa á síðustu fjórum öldum, þarf eign á líkama kvenna enn að vera vafamál?

Ég á mig sjálf.

Lokaverkefni: “„Nú skal með valdi njóta hreinleikans.“ Líkamar og þöggun kvenna í þremur verkum Shakespeares” eftir Helga Guðmundsdóttir 1986 [2016] | Skemman

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone