Ég teiknaði mynd af þér

Mike Kelly (1954 -2012)
Mike Kelly (1954 -2012)
Mike Kelly (1954 -2012)  

  …

Og þú munt verða leiður

til lengdar á að skapa

og lætur allar stjörnur

úr greipum þínum hrapa.

Því hamingja þín mælist

við það, sem þér er tapað,

og þá er lífið fagurt

og eftirsóknarvert,

ef aldrei hafa fegurri

himinstjörnur hrapað

en himinstjörnur þær,

er þú sjálfur hefur gert. 

(Brot úr ljóðinu Stjörnur vorsins eftir Tómas Guðmundsson)

 

Ólíkt skáldskapnum getur myndlistin komist handan tungumálsins. Og þegar vel lætur er hún á einhverju kitlandi, mállausu svæði hugans. Svæði skynjunar, frekar en skilnings. Ég horfi á þetta verk og get lítið sagt. Allavega langar mig ekki að segja neitt.

 

(Þögn)

Mér finnst ég vita svo sára lítið. Þó segir fólk, myndlist er fag sem er hægt að tala um. En því lengur sem ég starfa í faginu virðist tungumálið bregðast mér. Tungumálið dettur út. Ég horfi á verk og eitthvað neitar að beita tungumálinu til skilnings.

En ég verð að segja eitthvað.

Helst myndi ég vilja að tungumálið dytti reglulega algjörlega út og við værum hér annan hvern dag í sjónrænu „blissi“.

 

Innileikinn

Myndlist virkar bæði á sjónrænan og tilfinnningalegan hátt. Þegar best lætur er hún áreynslulaus. Hægt er að ímynda sér að verkin komi til listamannsins án erfiðis og það sé einmitt áreynsluleysið sem geri sum verk aðgengileg, aðlaðandi, nánast andleg. Rólegt yfirbragð þeirra getur minnt á hugleiðslu, þau geta verið ljóðræn og ákaflega innileg.

Þegar ég hóf nám við myndlistardeild Listaháskóla Íslands og sagði vini mínum í mesta trúnaði að ég skildi ekki alltaf myndlistina, þá svaraði hann: „Skilja, maður á ekki að skilja myndlist, maður á að skynja myndlist.“ Það var Steingrímur Eyfjörð sem sagði þetta og á því andartaki opnaðist fyrir nýjan skilning á myndlist hjá mér. Að skynja. Ég þurfti ekki að skilja.

Stundum er myndlist í hinu minnsta og ómerkilega en miðlar þó undrum veraldar. „Object“ sem á sér enga fyrirmynd og hefur þar af leiðandi aldrei verið til í þessum heimi í því formi sem hann birtist.

Myndlistin fæst við „sensational“ áhrif sem skapast við samsetningu efna. Margir listamenn geta ekki séð eiginleika verksins fyrirfram. Stundum ekki fyrr en mörgum árum síðar þegar þeir nálgast verkin sem áhorfandi.

 

Að horfa og að sjá – sá sem lýsir upp það sem er upplýst

Listamaðurinn er stundum haldinn ákveðnu skilningsleysi gangvart eigin verkum. Það gæti verið merki um það að vinnan við verkið eigi sér stað á svæði undirvitundarinnar. Upplýsingar um verkið eru ekki komnar á hlaupabrautir heilans. Undirstúka heilans er að verki. Listamaðurinn opnar lófann, tungumálið dettur út og list verður til án minnstu áreynslu. Þegar lögmálinu um hina minnstu áreynslu er beitt verða til meistaraverk. Þetta er andlegt lögmál. List verður til milliliðalaust, án tíma eða hugsunar. Listamaðurinn veit að deildin sem fæst við línulegan tíma er deild, innan Háskóla Íslands, sem fæst við blekkingar. Því tíminn er deig.

Myndlistin á sér ofureinföld lögmál. Tíma, hreyfingu, grunnlitina, „komposition“ stilla upp á fleti eða fansa, svo eitthvað sé nefnt – en í gegnum þessar einföldu aðferðir virðist hægt að leita leyndardómsins.

Listamaðurinn veit að það er eitthvað í loftinu og að annað hvort er hann tengdur því eða ekki. Það er eitthvað þarna úti sem hefur að geyma hugmyndir og nýjar upplýsingar. Það er fallegt, mig langar líka að trúa þessu líkt og Forngrikkir trúðu því að hugmyndirnar séu ekki okkar, heldur komi úr sameiginlegum sjóði. Að leita að leiðinni heim. Að komast á staðinn sem við þekkjum ekki. Það er í myndlistinni sem þetta svæði leynist.

 

Samsetning á efni

Listamaðurinn hefur stjórn á því hvernig aðrir sjá hann. Af því að aðrir endurskapa hvernig hann sér sjálfan sig. Og þegar aðrir horfa á verkið er það til, en líti þau undan hverfur það.

Listamaðurinn er ekki fyrir utan að horfa inn, hann er inni og horfir út. Hann er hér inni í sínu húsi. Það er spenna heima hjá honum. Hinir standa fyrir utan að horfa á hann. Hann er dreginn– út úr hans húsi. Hér horfir þú á hann. Hann er kyrr. Líkaminn er hreyfingarlaus. Kjurr, hlaðinn af fjarveru, varnarlaus, óbifanlegur og fastur. Tíminn sem þið gefið ykkur til að horfa á verkið ræður stærð þess sem þú horfir á. Verkið í ákveðinn tíma, á ákveðnum tíma. Sjónarhorn þitt, mynd sem er púslað saman. Raunveruleikinn er „abstrakt“.

En í framtíðinni hverfum við, í framtíðinni hverfur allt. Í framtíðinni er ókomið efni. Og þess vegna væri hægt að henda öllu. Við vitum að þetta er rétt, því við vitum allt. Við erum uppljómuð.

 

Hurð sem verður kannski opnuð

Ég opna hurðina og geng út, hef samskipti við ykkur. Samskiptin krefjast þess að ég bregðist við. Í samskiptum get ég falið mig, þar er allt á hreyfingu. En þegar ég er kyrr er ég sýnileg. Ég hugsaði, og ég stoppaði. Svo leitaði ekkert í efnið. Ég staðnæmdist og hugsaði: „kyrrstaða,“ ef hugsun fær fyrirfram mótaðan farveg fer hún ekkert. Þar er þögn og í þögninni verður ekkert til. Því segi ég: Einfaldar lausnir eru ofbeldi gagnvart tilverunni og möguleikum þess að vaxa.

 

Módelið sem horfir á mig

Tjáning er til, fer og hverfur. Ég fer og verð teikning. Myndin af Guði, dansinn minn. Horfðu á mig, horfið á mig, samkenndin er ekki ókeypis. „Introvert“ og „extrovert“ sem vanga. Stopp í þögn, stoppið þögnina, hér er ekkert. Það er enginn heima, hér er enginn.

 

 Og einsemdin verður…

…fínlegur þráður. Það má enginn sjá hvernig mér líður, enginn. Ég er bara ein. Samkenndin og sú tilfinning að tilheyra, að eiga eitthvað saman með ykkur. Ég teiknaði mynd af þér. Ég teiknaði mynd af þér. Þú varst kyrr og ég sá bara eina hlið. Stjórn á hreyfingu, horfði aftan á þig. Fingrafarið þitt, skuggann þinn. Þú treystir mér, varst kyrr, varnarlaus. Hreyfing datt út – þögn.

 

Greinin er byggð á viðtali við Bryndísi Hrönn Ragnarsdóttur í tenglum við sýninguna Psychotronics í Nýlistasafni Íslands í janúar 2014.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone