Ekki fyrir viðkvæma – Vetrarfrí eftir Hildi Knútsdóttur

Vetrarfri

Senn hefst gormánuður og vetrarfríið er að byrja. Bergljót er búin að bíða þess í ofvæni að fara í tíundabekkjarpartý með bestu vinkonum sínum. Ein þeirra ætlar að stela rauðvínsflösku frá foreldrum sínum og strákurinn sem Bergljót er skotin í verður í partýinu. Röð atburða veldur því þó að Bergljót fer ekki í partýið heldur neyðist hún til þess að hanga í sumarbústað á Snæfellsnesi með pabba sínum og litla bróður. Hún missir af öllu fjörinu, sem betur fer, því mannætuskrímsli hafa tekið yfir Ísland og Reykjavík er blóði drifin. Lífið verður aldrei nokkurn tímann eins.

Vetrarfrí er þriðja skáldsaga Hildar, en hún hefur áður sent frá sér skáldsöguna Slátt og unglingabókina Spádóminn. Vetrarfrí, sem er fyrri hluti tvíleiks, er flokkuð sem barna- og unglingabók en hrollvekju- og vísindaskáldsagnaaðdáendur á öllum aldri ættu að geta haft gaman af bókinni. Bókin er ágætlega skrifuð, og það sem betra er, afar hryllileg.

Alvöru hryllingur fyrir unglinga

Það getur verið vandasamt fyrir fullorðið fólk að skrifa unglingabókmenntir því þeim getur reynst erfitt að setja sig inn í hugarheim unglingsins. Fólk á minningar um hvernig var að vera unglingur en það á ekki alltaf erindi við markhópinn. Hlutirnir breytast hratt, sérstaklega nú til dags, og þá er hætta á að sagan sjálf og persónur verði tilgerðarlegar. Sá sem var unglingur á tíunda áratug síðustu aldar gæti til dæmis átt erfitt með að setja sig í spor samfélagsmiðlavædds unglings ársins 2015. Hildi tekst hins vegar vel upp og aðalsöguhetjurnar Bergljót og litli bróðir hennar Bragi eru vel mótaðar persónur en sagan er sögð til skiptis frá þeirra sjónarhorni.

Lesandinn fær ágæta innsýn í hugarheim þeirra mitt í öllum hryllingnum og ringulreiðinni og fer með þeim í ferðalag þar sem þau takast á við algerlega óhugsandi aðstæður. Það er reyndar ekki farið mjög djúpt í tilfinningalíf systkinanna, eða annarra sögupersóna, og lítil áhersla er lögð á sálrænar afleiðingar árásarinnar. Bókin er samt sem áður þess eðlis að mest áhersla er á innrásina og lífsbaráttuna en það hefði þó mátt gera söguna ennþá hryllilegri með því að beina enn frekar sjónum að þeim andlegu áhrifum sem innrásin hefur.

Hildur er óhrædd við að gera bókina óhugnanlega. Það er nóg af blóði og í viðtali við Fréttatímann sagði höfundurinn að hún hafi sjálf gaman af hryllingi, viðurkennir að bókin sé ef til vill örlítið ógeðsleg og spyr hvort börn og unglingar hafi ekki gaman af því að láta hræða sig? Ég getur tekið undir það og sjálf sóttist ég gífurlega í hrylling á mínum yngri árum, og þekki marga sem hafa sömu sögu að segja, og ég hefði tekið unglingabók á borð við Vetrarfrí fagnandi á sínum tíma.

Heimsendir á Íslandi

Hildur Knútsdóttir

Hildur Knútsdóttir

Bókin er, eins og áður sagði, skemmtileg og ritstíll Hildar og frásagnarmáti er áreynslulaus. Það er ef til vill ekki auðvelt verkefni að skrifa hryllingssögu sem á sér stað í íslenskum samtíma en í þessu tilfelli hefur höfundur fengið góða hugmynd og tekst vel að útfæra hana. Spennan helst í gegnum alla bókina; hver eru þessi skrímsli? Af hverju eru þau að borða alla? Hverjir lifa af? Lesandinn á afar erfitt með að leggja bókina frá sér á meðan á lestri stendur en í sögulok er fjölmörgum spurningum ósvarað og því er nauðsynlegt að lesa seinni hlutann, sem enn er óútgefinn, til að hafa nokkra hugmynd um hvað er í gangi.

Það er ánægjulegt að hafa fengið höfund á borð við Hildi í íslenska barna- og unglingabókmenntaflóru en bókin gæti verið aðeins of blóðug fyrir yngstu börnin.
Í Vetrarfríi efast höfundur ekki um getu markhópsins til að takast á við hryllinginn og þó engu sé lýst í smáatriðum fara reglulega ónot um lesandann. Ég hefði reyndar viljað að meiri áhersla væri lögð á líðan sögupersónanna í þessu eftir-heimsenda (e. post-apocalyptic) ástandi og hversu óttaslegnar þær eru í þessum hræðilegu aðstæðum, í þeim tilgangi að auka enn frekar ónotatilfinninguna hjá lesandanum.

Það er hins vegar gaman að lesa vel skrifaða unglingabók sem ber virðingu fyrir því að hrollvekjuþyrstir unglingar geta vissulega þolað óhugnað og að láta hræða sig aðeins. Vetrarfrí er ekki aðeins fyrir unglingana heldur gætu þeir foreldrar, sem hafa gaman af vísindaskáldskap og hrollvekjum, einnig kunnað að meta bókina. Þeir sem eru að leita að einhvers lags bókmenntalegu tímamótaverki ættu ef til vill að snúa sér annað en sem óhugnanleg vísindaskáldsaga stendur Vetrarfrí vel undir væntingum. Í heildina er hér á ferðinni vel skrifuð hrollvekja og þessi lesandi bíður í spenntur eftir framhaldinu.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone