Er hefndin sæt? Sogið eftir Yrsu Sigurðardóttur

Sogið

Í heitum potti í bakgarði fyrrverandi saksóknara finnast afskornar hendur. Lögreglan leitar í ofboði að eiganda handanna en er engu nær. Á sama tíma hefur barnaníðingur tekið út sína refsingu og er sleppt úr haldi. Grunur leikur á að brot hans gegn átta ára gamalli stúlku rúmum áratug fyrr tengist þessum dularfullu líkamspörtum en fjölmörg spil vantar í púslið. Sogið, nýjasta bók Yrsu Sigurðardóttur, er ekki fyrir þá sem vilja lesa eitthvað hugljúft á meðan þeir gæða sér á jólakonfektinu.

Það þarf vart að kynna Yrsu fyrir lesendum því hún hefur verið afkastamikill höfundur síðustu ár, er iðulega áberandi í jólabókaflóðinu og bækur hennar hafa notið mikilla vinsælda. Í síðustu bókum sínum hefur Yrsa gefið lögfræðingnum Þóru verðskuldað frí og í Soginu eru aðalsöguhetjurnar lögreglumaðurinn Huldar og sálfræðingurinn Freyja. Þessar persónur kynnti hún fyrst til sögunnar í bókinni DNA sem kom út á síðasta ári. Sú bók fékk Blóðdropann, verðlaun hins Íslenska glæpafélags, sem glæpasaga ársins 2014 og verður einnig framlag Íslands til Glerlykilsins, norrænna glæpasagnaverðlauna, árið 2016. Sogið hefst stuttu eftir að DNA lýkur og áhrif málsins sem fjallað var um í þeirri sögu hafa haft töluverð eftirköst á líf Huldars og Freyju, án þess að of mikið sé gefið upp. Yrsa sleppir því að kynna Freyju og Huldar ítarlega og því er vel hægt að mæla með því að DNA sé lesin á undan Soginu, hafi lesendur áhuga á að kynnast aðalsöguhetjunum betur.

Ofbeldi og ást

Yrsu hefur farið mikið fram sem höfundi síðan fyrsta glæpasagan hennar, Þriðja táknið, kom út fyrir áratug síðan. Yrsa er þeim hæfileika gædd að skrifa skemmtilegan og lifandi texta, sem er eflaust mikill hluti ástæðu þess hversu mikilla vinsælda hún nýtur. Helsti gallinn við Sogið er sá að bókin er of löng. Þá á ég við að frásagnargleðin leiðir höfundinn ítrekað í ógöngur í textanum, því hvað eftir annað eru óþarfa upplýsingar settar inn í textann sem hefði betur mátt sleppa. Á einum stað er því hent fram að lögreglumaðurinn Huldar hafi teiknað amöbu í líffræðitíma (bls.51) og í 17.kafla er mikið gert úr því hversu fýld bróðurdóttir Freyju er. Hægt væri að taka fleiri dæmi en atriði á borð við þessi bæta engu við framvindu sögunnar og hafa lítinn tilgang. Tilgangurinn er eflaust sá að fá lesandann til að samsama sig með sögupersónum (ég teiknaði líka amöbu í líffræði) og gera persónurnar aðgengilegri en Yrsa skrifar það læsilegan texta að allt flúr á borð við þetta er óþarft. Þetta verður þreytandi til lengdar, sem er synd því sagan er vel skrifuð, glæpurinn hrollvekjandi og rannsókn málsins spennandi.

Yrsa Sigurðardóttir

Yrsa Sigurðardóttir

Umfjöllunarefni Yrsu í bókinni er viðkvæmt. Það er vandmeðfarið að fjalla um barnaníð og ofbeldi gagnvart börnum en afleiðingar brotsins fyrir börn og aðstandendur er rauði þráðurinn í sögunni. Efnið er átakanlegt aflestrar en Yrsa fer vel með viðfangsefnið og af virðingu. Bókin er samt sem áður full af ofbeldi. Yrsa er svo sannarlega með virkt ímyndunarafl þegar kemur að því að hugsa upp nýstárlegar leiðir til að myrða fólk og klígjugjarnir ættu ef til vill að forðast þessa bók (og áðunefnda DNA en hún gengur enn lengra í hryllingnum). Inn í rannsókn málsins blandast flókið ástarlíf Huldars og samband hans og Freyju er áberandi. Samhliða því að þau reyna að komast að því hver ódæðismaðurinn er þurfa þau að skilgreina samband sitt. Eru þau virkilega hrifin hvort af öðru eða er þetta eingöngu einhvers konar hormónaójafnvægi? Eins og í öðrum bókum Yrsu eru persónurnar virkilega vel skrifaðar og gildir þetta um alla þá sem koma við sögu í bókinni. Að mínu mati er það hæfni Yrsu í persónusköpun sem  gerir hana að góðum höfundi. Fyrir utan áðurnefndar óþarfa málalengingar er Sogið afbragðskrimmi sem hefur allt það til að bera sem aðdáendur glæpasagna sækjast eftir þegar þeir taka sér slíka bók í hönd.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone