Etið og verið glöð, elskið og verið glöð, deyið og verið glöð: Um fjölskylduleikritið Pílu Pínu

Píla 2

Hjartað í mömmu hennar Pílu Pínu fyllist stundum af sorg. Þó svo að það sé fallegur vordagur og sólin skíni er mamma Pílu leið. Uppspretta sorgarinnar er sú að móðirin Gína, húsamús á meðal hagamúsa, veit ekki hver örlög fjölskyldu hennar urðu eftir að Gína neyddist til að flýja heimili sitt eftir árás kattarófétis. Píla einsetur sér að hjálpa móður sinni að líða betur og heldur upp í hættuför til þess að hafa uppi á fjölskyldu móður sinnar. Þetta er í grófum dráttum söguþráðurinn í leikritinu Pílu Pínu, sem var frumsýnt í Hofi á Akureyri þann 7. febrúar. Sagan um Pílu Pínu er eftir Heiðdísi Norðfjörð sem samdi söguna í kringum ljóð Kristjáns frá Djúpalæk. Árið 1980 komu lög við ljóðin út á plötu en þar voru það Heiðdís og Ragnhildur Gísladóttir sem sömdu lögin. Núna er sagan sögð í leikgerð Söru Marti Guðmundsdóttur og Sigrúnar Huldar Skúladóttur, en sú fyrrnefnda leikstýrir jafnframt verkinu.

Píla 4

Til að byrja með verð ég að hrósa leikmyndinni. Hún er einstaklega flott og hrifning áhorfenda var mikil þegar þeir gengu inn í salinn. Tjaldið er ekki dregið fyrir og einhvers lags þrívíður ævintýraskógur blasir við. Á bak við sviðið er risaskjár sem sýnir teiknimyndir eftir því hvar við erum stödd í sögunni. Greinilegt er á allri umgjörð í kringum sýninguna að það er vandað vel til verka, hvort sem um ræðir ljósahönnun, tónlistarflutning eða búninga. Að mínu mati báru búningar vondu gufupönks krummarnir af. Allt var þetta prýðilega vel gert og aðstandendur eiga hrós skilið fyrir vel unnin störf.

Heimurinn er betri en við höldum

Píla Pína er klassískt fjölskylduleikrit og boðskapurinn eftir því. Við eigum ekki að dæma aðra þó þeir séu ólíkir okkur, sumir eru vondir af því þeim líður illa en það gefur manni ekki ástæðu til þess að vera vondur tilbaka og svo framvegis. Hamrað er á músaboðorðunum þremur: Etið og verið glöð, elskið og verið glöð og deyið og verið glöð. Til að byrja með er músastelpunni Pílu kennt að hún eigi ekki að láta sig dreyma en í lok leikritsins veit hún að ef hún trúir á sjálfa eru henni allir vegir færir. Píla er fordómalaus, góðhjörtuð og hugrökk og uppsker samkvæmt því.

pilapina-srgbvefur-19

Það er Thelma Hrönn Sigurdórsdóttir sem fer með hlutverk Pílu pínu og hún steig hvergi feilspor í burðarhlutverkinu. Thelma er hámenntuð söngkona og það var unun af að hlusta á hana syngja. Helst hefðu lögin sem hún söng mátt vera lengri og fleiri. Aðrir leikarar eru Þórunn Lárusdóttir, Benedikt Karl Gröndal, Saga Jónsdóttir, Kjartan Darri Kristjánsson, Eik Haraldsdóttir, Eyþór Daði Eyþórsson, Bjarklind Ásta Brynjólfsdóttir, Freysteinn Sverrisson og Jón Páll Eyjólfsson. Öll standa þau sig með prýði. Saga er alveg frábær í hlutverki hysterísku, drómasjúku kennslukonunnar Veru Fróðu og tæplega fimm ára sessunautur minn hélt mest upp á Markús margfætlu, en Markús þessi er boðberi jákvæðni og vonar í sýningunni. Einnig voru skemmtilegir útúrdúrar í leikritinu, til dæmis þegar við fengum innsýn í veiðiferð borgarbúanna Andra og Erlu, sem Benedikt og Þórunn túlkuðu. Þar var Benedikt senuþjófur og það atriði höfðaði líklega frekar til foreldra en barna, þar sem hann túlkaði símasjúka borgarbarnið Andra sem fann sig illa í íslenskri náttúru og kyrjaði nafn Gísla Marteins til að róa taugarnar á meðan hann reynir í örvæntingu að ná símasambandi.

Það er ekki hægt að segja annað en að sagan um hana Pílu Pínu sé stórskemmtilegt leikrit sem fólk á öllum aldri getur haft gaman af og þeir borgarbúar sem eiga heimangengt ættu ekki að láta sýninguna framhjá sér fara. Það er valinn maður í hverju rúmi og útkoman er vel heppnuð sýning með mikilvægum boðskap. Það eina sem hefði betur mátt fara er að lokasenan. Hún er tilfinningaþrungin, en heldur lágstemmd og löng, og yngstu áhorfendurnir voru farnir að ókyrrast allverulega undir lokin. En á heildina litið er hér á ferð vel heppnuð sýning, sjónrænt sælgæti með boðskap sem jafnmikið erindi núna og fyrir 40 árum síðan. Fyrst og fremst skulum við elska meira, hafa það hugfast að fordómar eru tilgangslausir og munið það kæru börn, við erum öll einstök og það er alltaf auðveldara að vera bara góður.

Píla aðal

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone