Fjarvera nærveru / Absence of a Presence

photocollage-2

Fjarvera nærveru heitir ný myndlistarsýning sem hefst með opnunarhófi  laugardaginn 3. maí kl. 14:00. Meistaranemar í myndlist við LHÍ og í listfræði við HÍ kynna þessa samsýningu á 10 verkum að Safnatröð 5, Seltjarnarnesi.

Staðsetning: Safnatröð 5, 170 Seltjarnarnesi, farið inn um Sefgarða.

Opnunartími: 3. maí – 11. maí, alla daga frá 14-18.

Tilvist í læknaminjasafni

Listnemarnir búa yfir ólíkri sýn en eiga það sameiginlegt að fyrir þessa sýningu vinna þau öll með hugmyndir um ummerki og rými á einn eða annan hátt. Hópurinn gerir tilkall til staðarins með því að afmarka sinn eigin stað í rýminu. Hann skilur eftir sig ummerki, markar sér spor og skilgreinir tilvist sína með því að umbreyta því sem er þegar til staðar eða skapa eitthvað nýtt. Þannig mynda listnemarnir nýjar tengingar í húsnæði sýningarinnar sem stendur óklárað og átti upphaflega að verða að læknaminjasafni. Minning um eitthvað sem aldrei varð og menjar um aðra tíma leikur um loftin. Margir listnemanna taka hversdaglega hluti úr samhengi og setja inn í rýmið, á meðan aðrir vitna í þá starfsemi sem átti að eiga sér sér stað eða á sér stað í byggingunni. Á þann hátt skarast mörkin á milli þess raunsæja og hins ímyndaða. Náttúran sem umlykur er færð inn í rýmið og innsta eðli mannsins er dregið fram á sjónarsviðið eins og það birtist í hinni dýrslegu tilhneigingu hans til þess að helga sér yfirráðasvæði.

Heimspekingurinn Derrida gefur tóninn

Fjarvera nærveru  er hugtak dregið af skrifum Jacques Derrida um ummerki. Að mati Derrida eru ummerki vísbendingar um fjarveru nærveru og því má segja að listnemarnir séu að skilja eftir hin ýmsu tákn eða ummerki um nærveru fyrir áhorfandann. Þemað Fjarvera nærveru var valið með það í huga að í því felst þversögn um að skilja meðvitað eftir ummerki fyrir aðra. Áhorfandinn finnur aðeins ummerki um nærveru listnemanna í þeim verkum sem eru til sýnis. Menjarnar eru því ekki nærvera heldur eftirlíking hennar. Nærveran lifir  í einhvers konar tímaleysi þar sem það sem við gerum hefur bæði áhrif á þá sem eru í kringum okkur ásamt því sem á eftir kemur. Hún hefur þar af leiðandi áhrif á framtíðina og breytir jafnvel skilningi okkar á fortíðinni. Derrida skilgreinir ummerkin þó ekki í strangasta skilningi orðsins eða afmarkar þau við eina túlkun: „Þessi ummerki tengjast ekki síður því sem er kallað framtíðin en því sem er kallað fortíðin og þau mynda það sem kallað er nútíðin með beinni tengingu við það sem þau eru ekki, við það þess sem þau eru svo sannarlega ekki; það er, hvorki við fortíð né framtíð sem talist gæti  umbreytt nútíð“.

Leikur að skynjun í rými

Listnemarnir  leitast við að búa til innsetningar og fremja gjörninga sem kalla fram ákveðna skynjun í rými. Sum verkin krefjast þátttöku áhorfandans og flest þeirra hvetja áhorfendur til að sleppa tökum á rökvísi og gefa ímyndunaraflinu lausan tauminn. Tilgangi listaverks er náð ef það fær fólk til að staldra við, velta því fyrir sér og upplifa það, ef ummerki listaverksins og hugmynd þess tekur sér bólfestu  í huga áhorfenda.

 

Meistaranemar frá LHÍ: Carmel Seymour, Jan Stefan Lebar, Jonathan Boutefeu, Katrín Eyjólfsdóttir, Linn Björklund, Solveig Stjarna Thoroddsen, Thora Gerstner, Tobias Kiel Lauesen, Unnur Óttarsdóttir og Þórdís Jóhannesdóttir.

 

Sýningarstjórar og meistaranemar frá HÍ: Aldís Snorradóttir, Ástríður Magnúsdóttir, Guðrún Erla Geirsdóttir, Helga Arnbjörg Pálsdóttir og Margrét Birna Sveinsdóttir.

Allir velkomnir!

Nánari upplýsingar má finna á: 

http://lhi.is/event/fjarvera-naerveru/

https://www.facebook.com/events/717241581666218

FN mynd

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone