Föst í tímavindu

rhps

Árið 1975 kom út kvikmynd sem kolféll í miðasölu en varð síðan stærsta költmynd allra tíma. Þessi kvikmynd er að sjálfsögðu The Rocky Horror Picture Show. Myndin er enn sýnd reglulega í kvikmyndahúsum um allan heim, þar sem fólk klæðir sig upp og syngur með. Þann 3. júní mun Bíó Paradís halda slíka sýningu, ásamt aukasýningu þann 9. júní. Svo dragið fram korselettin, pússið leðurjakkana og smellið á rauða varalitnum.

Fyrir þá sem ekki þekkja til, er söguþráðurinn á þessa leið: Hið nýtrúlofaða og saklausa par, Brad og Janet, halda á fund kennarans sem kynnti þau en það springur á bílnum á leiðinni. Þau komast þá við illan leik til kastala Frank-n-Furters í von um aðstoð en sogast inn í uggvænlega atburðarás þessa (kyn)óða vísindamanns. Sagan dregur einnig vísindaskáldskap og frægar B-myndir sundur og saman í háði. Upphafslag myndarinnar, Science Fiction, Double Feature, nefnir margar af þessum myndum, persónum og leikurum sem háðið beinist að.

Þessi samsoðna Frankenstein saga er hugarfóstur Richard O’Brien, sem aðdáendur myndarinnar þekkja sem hinn (ó)viðkunnalega bryta Frank-n-Furter, Riff Raff. Aðrar mikilvægar persónur eru þjónustustúlkan Magenta, hin steppdansandi Columbia, mótorhjólatöffarinn Eddie (leikinn af Meatloaf) og að sjálfsögðu hinn stórglæsilegi Rocky sjálfur.

Handritið var upprunalega leikgerð og hefur verið sett upp ótal sinnum um allan heim, meðal annars hér á landi. Bæði hafa Páll Óskar og Helgi Björnsson skellt sér í gervi hins lostafulla vísindamanns en leikritið hefur einnig verið sett upp í gegnum tíðina af nemendum og í smærri uppfærslum.

Líkt og fyrr sagði kolféll myndin í kvikmyndahúsum en ári seinna var hún sýnd á miðnætursýningu, sem voru þá að verða vinsælar. Eftir það var ekki aftur snúið og myndin eignaðist tryggan og sístækkandi áhorfendahóp. Kvikmyndahús í Þýskalandi hefur meira að segja sýnt myndina vikulega síðan árið 1977. Költið sem hefur myndast í kringum þessa mynd er magnað, söngur og búningar eru ekki það eina sem einkennir sýningarnar heldur líka alls konar leikmunir, eins og dagblöð, vasaljós og partýhattar. Ást fólks á kvikmyndinni vex heldur en hitt. Í heimildamynd frá 1981 um aðdáendur myndarinnar, eru tekin viðtöl við fólk sem hefur séð myndina í hundraðatali, langt fyrir tíma DVD-diska og netáhorfs. Önnur heimildamynd, Voyeuristic Intentions (2011), rýnir einnig í fyrirbærið og reynir að komast til botns í ofurást mannanna á fyrirætlunum Transylvaníubúanna.

Þeir sem ætla á búningasýninguna ættu að skoða leikmunalistann og taka a.m.k. með sér eitt par af gulum gúmmíhönskum. Og munið, þetta byrjar allt með einu hoppi til vinstri…

Viltu vita meira?:

Þeir sem vilja sameina ást sína á költ þáttunum Buffy The Vampire Slayer og þessari kvikmynd, geta horft á þetta myndbrot. Þar fer Anthony Stewart Head, eða Giles úr Buffy, á kostum sem Frank-n-Furter.

The Internet Movie Database inniheldur ógrynni af skemmtilegum og lítt þekktum staðreyndum um myndina og gerð hennar.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone