Gucci jól – eftir Einar Leif Nielsen

jolajol01

Einar Leif Nielsen er ritlistarnemi við Háskóla Íslands. Hann sendi Sirkústjaldinu þessa fínu jólasögu sem okkur þótti tilvalið að birta í aðdraganda jólanna.

 

11. desember

Guð minn góður! Ég má sko ekkert vera að þessu jólastússi. Sem betur fer eru gjafirnar komnar í hús ásamt fjórum miðum á Frostrósir en tónleikarnir eru árlegur fjölskylduviðburður. Þrátt fyrir allan þennan undirbúning brá mér samt heldur betur þegar Jóna Guðrún tilkynnti hátíðlega að fyrsti jólasveinninn væri væntanlegur í kvöld. Við sátum þrjú við morgunverðarborðið þegar hún kom þrammandi eins og hershöfðingi með gönguskó af Ragga í annarri og Gucci stígvél frá mér í hinni. „Mamma, hvorn á ég að setja út í glugga?“ Hún var greinilega nýbúin að bursta í sér tennurnar, því að hún var enn með tannkrem út á miðja kinn.

Alltaf þurfa þessir jólasveinar að koma til byggða. Fer alveg í mínar fínustu. En krakkarnir vilja þetta. Auk þess get ég ekki sagt nei við hnátuna mína þegar hún brosir sínu breiðasta, sérstaklega núna þegar báðar framtennurnar vantar. Ég leyfði henni þess vegna að fá gönguskóinn. Auðvitað samþykkti Raggi þetta. Hann veit að dætur mínar eiga einungis það besta skilið, annars hefði ég aldrei gifst honum. Að vísu er hann yngri en ég, sem var mér mjög mikilvægt. Ég varð að sýna Tryggva að ég gæti yngt upp eins og hann.

Hvað um það, ég var alls ekki undirbúin fyrir þetta jólasveinastúss. Það voru framkvæmdastjórafundir niðri í banka í allan dag, svo var vörukynning á nýju Iittala-línunni í Epal og ég bara mátti ekki missa af því. Mögulega hefði verið hægt að senda Ragga en honum er ekki treystandi fyrir svona löguðu. Það er líka svo mikið að gera hjá leikurum svona rétt fyrir jólin, þannig að ég varð bara að finna út úr þessu sjálf.

Við Berglind fórum saman í ræktina í hádeginu. Ég er búin að skrá hana í þetta nýja unglinganámskeið hjá World Class sem Karólína Kristjáns er að kenna. Stúlkan bætir alltaf á sig nokkrum kílóum um jólin og ég taldi réttast að gera fyrirbyggjandi aðgerðir. Hún er auðvitað í yngri kantinum en ég var byrjuð að hugsa um útlitið þegar ég var þrettán ára og hún hlýtur að vera eins. Það er akkúrat á þessum árum sem samfélagsstaða manns er skilgreind og hún Berglind mín skal sko vera efst í flokki, alveg eins og mamma sín.

Eftir vinnu fór ég í Epal til að sjá kynninguna og Iittala-línan var hreint út sagt stórkostleg. Ég varð að kaupa nokkra hluti. Fannst eitthvað svo viðeigandi að fá nýja jólabolla, enda alltaf verið svo mikið jólabarn. Hann Baddi Briem, sem vinnur þarna, sagði að þeir væru handmálaðir og Múmínálfa-þemað hittir auðvitað alltaf beint í mark. Að vísu hef ég aldrei horft á teiknimyndirnar eða lesið bækurnar en heimspeki Tove Jansson heillar mig alveg rosalega.

Stekkjarstaur mætti eins og áætlað var til Jónu Guðrúnar og Berglindar. Mér er frekar illa við að ókunnugir menn séu að gægjast inn um gluggann hjá stelpunum mínum en þær vilja þetta. Berglind fer þó sem betur fer að vaxa upp úr þessu. Mér skilst að miðað sé við fermingu. Jóna Guðrún er alltaf að heimta að ég setji skóinn út í glugga og skilur ekki hvers vegna við fullorðnu fáum aldrei neitt.

 

12. desember

Jóna Guðrún hreinlega ljómaði af gleði þegar hún kom fram með nýja Nintendo 3DS tölvu. „Mamma, ég verð að skrifa Stekkjarstaur bréf til að segja takk!“

Ég sagði að það væri óþarfi en barnið lét sér ekki segjast. Hún um það. Jóna Guðrún mín er stundum aðeins of kurteis, hún hefur það frá honum pabba sínum. Stundum er gott að þakka fyrir sig en oftast á maður bara að una sáttur við sitt, í þögn og friði.

Berglind var líka alveg himinlifandi með gjöfina sína og strax byrjuð að spila Playstation 4 leikinn. Hún er alltaf svo klár, sérstaklega á tölvur. Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar hún tengdi Netflix-ið við heimilissjónvarpið. Það geta ekki allir. Tryggvi röflar sífellt um inniveru hennar og kallar hana „innipúkann“ en þetta kemur honum bara ekkert við. Á þessu heimili ræð ég. Hann hefði betur sleppt því að halda við þennan hippa á Hagamelnum. Ekki að ég myndi nokkurn tíma vilja taka við honum aftur. Ég fyrirgef ekki svona mannorðsmorð. Hætti meira að segja að fara í Neslaugina á meðan skilnaðurinn var að ganga í gegn. Hljómar undarlega núna en allt þetta umtal fór alveg rosalega í taugarnar á mér.

Annars áttum við fjölskyldan góðan dag, nema að Raggi þurfti að fara á æfingu. Hann er í nýárssýningu Borgarleikhússins og fer meira að segja með nokkur hlutverk. Ég er svo stolt af honum en var að vísu dálítið pirruð yfir því hvað hann kom seint heim. Leikarar þurfa víst að fara yfir punkta eftir vinnu og mér skilst að það sé alveg einstaklega gott næði á Ölstofunni.

 

18. desember

Ég missti næstum andlitið í dag þegar Jóna Guðrún kom heim með bréf frá skólastjóranum. Þessi yndislega stúlka sem gerir aldrei neitt af sér. Að vísu var bréfið stílað á mig. Nokkrir foreldrar í hverfinu eru eitthvað reiðir vegna skógjafa jólasveinanna. Þeir vilja meina að sumt fólk sé ekki í neinni „snertingu við raunveruleikann“. Jóna Guðrún var voða sorgmædd en ofboðslega sæt í nýju Cintamani úlpunni sem hún fékk frá Stúf. Stelpugreyið hélt að þetta væri sér að kenna. Ég útskýrði að þetta kæmi henni ekkert við og væri bara öfund. Geta þessir fátæklingar ekki bara haldið sig í einhverjum öðrum bæjarfélögum? Er öllum sama þótt barnið mitt fái nagandi samviskubit út af þessum verkalýð? Jóna Guðrún stakk meira að segja upp á að gefa vinkonu sinni úlpuna. Hugsa sér, henni hlýtur að líða voðalega illa ef hún er tilbúin að láta svona fallega gjöf af hendi. Hvað kemur það mér við þó að einhver bekkjarsystir hennar hafi ekki fengið nýja yfirhöfn í meira en ár? Nákvæmlega ekki neitt.

Eftir þessi leiðindi kíkti ég á Berglindi sem er í jólaprófum. Hún var í tölvupásu enda getur lesturinn tekið alveg rosalega á. Ég hef samt engar áhyggjur af henni. Hún á eftir að rúlla upp þessum prófum enda alveg eins og mamma sín. Meina, barnið hjálpaði mér að búa til Tinder-aðgang eftir að við Tryggvi skildum. Kynntist Ragga akkúrat þar. Jafnaldrar hennar gætu það ábyggilega ekki. Hún verður pottþétt moldríkur forritari í framtíðinni. Mun búa til eigið tölvuleikjafyrirtæki eins og strákarnir í QuizUp. Guð, hvað þeir voru ótrúlega hrokafullir þegar ég hitti þá á Loftinu um daginn. Sögðu að borðið væri því miður fullt, jafnvel þó ég hafi verið með einum þeirra í tímum í HR. Man ekki fyrir mitt litla líf hvað hann heitir en hann veit alveg hver ég er, því skal ég lofa.

Til að reyna að gleyma þessu leiðinda bréfi fór ég upp í Kringlu og keypti mér nýja Louis Vuitton tösku. Þar var óþægilega mikið af fólki. Af hverju getur það ekki bara haldið sig í Smáralindinni? Hvað um það, taskan var æði. Meira að segja Raggi þekkti merkið.

Finnst samt dálítið sorglegt að stelpurnar séu að fara til Tryggva á morgun og þurfi að vera hjá honum alla helgina. En við Raggi hljótum nú að finna okkur eitthvað skemmtilegt að gera.

 

21. desember

Jóna Guðrún hringdi í mig í morgun og var að ærast úr gleði. Gluggagægir hafði gefið henni Lego lögreglubíl. „Akkúrat það sem mig langaði í!“ skríkti hún í símann. Stundum skil ég þetta barn hreinlega ekki. Eins og það skipti engu máli hvað komi í skóinn. Hún er alltaf jafn ánægð. Líklega hefur hún þetta frá pabba sínum.

Talandi um Tryggva þá var hann með einhvern skæting yfir VISA-reikningnum. Vildi meina að þetta væri langt umfram það sem hafði verið umsamið. Ég útskýrði fyrir honum að jólin væru bara einu sinni á ári og hann yrði að sætta sig við það. Hann á hvort eð er nóg af peningum. Skilnaðarsáttmálinn var líka mjög skýr. Ég gaf eftir rétt minn í hlutafénu í skiptum fyrir mánaðarlegar greiðslur. Við getum alltaf samið aftur ef hann er með einhvern skæting. Það er ekki eins og ég geti lifað á því að vera einkaritari upp í Arion, jafnvel þó að ég sé að vinna fyrir Hannes Haralds. Hann er sko framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs og sumir segja að hann verði bankastjóri bráðlega. Ég vona það. Þá fæ ég loksins þessa launahækkun sem hann er búinn að vera lofa mér. Það verður eiginlega að ganga í gegn áður en framfærslan frá Tryggva klárast.

Næst fór Tryggvi að þrasa um bréfið frá skólastjóranum. Þá gat ég þetta ekki lengur. Sagði honum að grjóthalda kjafti og skellti á.

Ég var ofboðslega pirruð eftir símtalið og hreinlega nennti ekki út. Við Raggi eyddum því deginum bara upp í sófa og horfðum nýjustu seríuna af The Vampire Diaries. Ég elska allt svona vampírudót og get horft endalaust á Twilight-myndirnar, þær eru æði. Raggi vildi að vísu frekar horfa á eitthvað BBC drasl en ég hélt nú ekki. Hann reyndi eitthvað að mótmæla en var voðalega þunnur eftir æfingu gærdagsins og gafst fljótt upp. Auk þess hraut hann yfir flestum þáttunum.

 

24. desember

Ég fékk svo æðislegan pakka frá Kertasníki, eða réttara sagt Ragga. Við skiptumst á örlitlum pökkum svona í morgunsárið. Guð, ég dansaði um húsið af gleði. Þetta voru þrír miðar til Zürich í janúar. Loksins skil ég af hverju hann þurfti að fá 250 þúsund krónur lánaðar í síðasta mánuði. Þetta passar alveg fullkomlega, við komumst nefnilega bara þrjú. Berglind þarf að fara í endurtökupróf í dönsku og stærðfræði. Alveg ótrúlegt, ég held að þessi úldni kennari hennar sé eitthvað öfundsjúkur. Ég hringdi sko í hann og lét ljós mitt skína. Þessi lúsablesi hlýtur að geta kennt barninu mínu eins og maður. Líklegast vill hann bara sofa hjá mér og tekur það út á henni. Það er eina sennilega skýringin. Eða hvers vegna ætti Berglind að falla? Þetta námsefni er allt of létt fyrir hana og hún er alltaf að læra. En hvað um það. Hún rúllar þessu upp. Pabbi hennar verður að sjá til þess. Við hin ætlum til Sviss.

Dagurinn hefði verið fullkominn ef Jóna Guðrún hefði ekki verið svona forvitin. Kom að henni inni í geymslu umkringda gjöfunum frá jólasveinunum. Guð, ég ætlaði að henda þeim. Ég þarf greinilega að finna nýja felustaði á heimilinu. Barnið var ekkert nema brosið eitt. Búin að rífa upp allar þessar ódýru og ómerkilegu pakkningar. Henni krossbrá við að sjá mig enda svipurinn á mér væntanlega ekki sá vinalegasti. Af hverju gat hún ekki frekar leikið sér að þessum iPad mini sem ég gaf henni í skóinn?

„Fyrirgefðu mamma, ég ætlaði ekki að stelast í jólagjafirnar,“ sagði hún sorgmædd. „Mig langaði bara svo mikið að leika mér.“

„Þetta er allt í lagi, elskan mín,“ sagði ég og reyndi bara að brosa. Hvað annað gat ég sagt. Hún hélt í alvörunni að ég hefði keypt þetta drasl handa henni. Ég var frekar móðguð en gat ekki sagt henni sannleikann. Hvernig myndi hún taka honum? Barn eins og hún skilur ekki þannig lagað. Á hverju kvöldi læðist ég inn til hennar og skipti út þessum ómerkilegu gjöfum fyrir eitthvað betra. Jólasveinar vita ekkert hvað litlar stelpur vilja. Í eitt skipti var stök mandarína ofan í gönguskónum, er til eitthvað ömurlegra? Ég hefði átt að vera löngu búin að fleygja þessu drasli. Á næsta ári mun ég sko gera það. Dætur mínar leika sér ekki með eitthvert almúgasorp. Þær eiga einungis að fá það allra besta. Að minnsta kosti kann Berglind að meta það en ég veit ekki með Jónu. Hún er stundum svo alþýðleg. Ég íhugaði að skilja hana eftir hjá pabba sínum í janúar en það gengur ekki. Einhver þarf að ala þessa vitleysu úr barninu. Pabbi hennar gerir bara illt verra.

Jóna Guðrún vildi ekki sjá iPad-inn sama hvað ég reyndi að ota honum að henni. Stefanía vinkona Jónu Guðrúnar var væntanleg eftir hádegi en þær stelpurnar skiptast á gjöfum árlega. Ég sver það, sumir krakkar gera hvað sem er til að fá einn pakka í viðbót. Stefanía mátti alls ekki sjá þetta drasl. Mamma hennar, Katrín Kormáksdóttir, er yfir foreldrafélaginu og myndi trompast ef hún heyrði af þessu. Í haust var ákveðið að foreldrar myndu ekki að skipta út gjöfum jólasveinanna. Af hverju þarf ég að fara eftir því? Ekki eins og ég hafi verið á þessum blessaða fundi. Ég hafði bara margt betra að gera. Hvað um það, Kata myndi gera mig útlæga úr foreldrafélaginu ef hún kæmist að þessu og ég má ekki við því.

Um stund arkaði ég fram og til baka um húsið. Hugsaði um að taka leikföngin af barninu en hafði það ekki í mér. Með einhverjum undraverðum hætti tókst mér að sannfæra Tryggva um að sækja stelpuna og taka allt þetta helvítis dót. Það virtist gleðja hann að hafa stelpuna hjá sér yfir daginn og hann lofaði að skila henni fyrir kvöldmat.

Um leið og ég skellti hurðinni á eftir þeim var þungu fargi af mér létt. Ég byrjaði að undirbúa kvöldmatinn og reyndi að gleyma þessari vitleysu. Finnst alveg ótrúlegt að þessir tröllkarlar fái enn að hlaupa um frjálsir, enda eru jólasveinar ekkert annað en tröll. Er ekki eitthvað óeðlilegt við að ófreskjur séu að gefa börnum okkar gjafir? Foreldrarnir ættu miklu frekar að sjá um þetta sjálfir. Ég þekki stelpurnar mínar miklu betur en einhverir hundgamlir vættir. Á hverju ári þurfa þeir svo að vera með sama dónaskapinn við mig og Berglindi. Skilja grænmeti eftir í gluggunum okkar. En ég ætla ekki að láta það trufla mig. Ég er bara þakklát að eiga nóg af kartöflum með jólasteikinni!

 

Einar Leif Nielsen.

Mynd af höfundi

Mynd af höfundi

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone