Háræðar lífsins – Ritdómur um Segulskekkju eftir Soffíu Bjarnadóttur

æðar
Bókakápuna hannaði Ragnar Helgi Ólafsson

Bókakápuna hannaði Ragnar Helgi Ólafsson

Hvar endar móðir og hvar byrjar dóttir?

Sú spurning er miðlæg í skáldsögunni Segulskekkju sem er frumraun Soffíu Bjarnadóttur. Strax á fyrstu blaðsíðum bókarinnar segir aðalpersónan, Hildur, að hún viti ekki hvort að þetta sé sagan sín eða saga móður hennar, Siggýar. Skáldsagan fjallar um fornleifafræðinginn Hildi sem ferðast frá Finnlandi til Flateyjar í Breiðafirði um miðjan vetur til þess að vera viðstödd jarðarför móður sinnar. Samband þeirra var óvenjulegt mæðgnasamband þar sem Siggý átti erfitt með að finna sig í móðurhlutverkinu og Hildur finnur sig þar af leiðandi illa í dótturhlutverkinu sem og sínu eigin móðurhlutverki. Hún hefur ekki séð móður sína í mörg ár þegar hún kemur til Flateyjar og vekur ferðin upp gamlar minningar sem ýfa upp djúp og illa gróin sár.

 

Frá því ég man eftir mér hefur mamma verið að brenna upp. Hún var líkt og Narkissus sem elti uppi sína innri loga. Bál af eigin báli. Í æsku minni bjó hún yfir sígildum Fönixareiginleikum. Flögrandi sagnafugl sem endurnýjast úr eigin eyðingu. Hún reis reglulega upp úr ösku, ný og falleg með sólina í höfðinu. Það er reyndar ekki hægt að halda slíkt fólk út. Sviðin jörð og brunastækja við hvert fótmál. Svo flögrar þetta Fönixarpakk upp eins og sólin sjálf en eftir sitjum við hin öskugrá í framan.

(Brot úr Segulskekkju, bls. 36)

Dregin er upp mynd af óreglumanneskjunni Siggý sem þó sækir ekki í áfengi eða fíkniefni heldur virðist hana skorta beintengingu við raunveruleika sinn sem veldur því að hún veitir börnum sínum ekki umhyggju og stöðugleika. Hildur er aldrei viss um hvað er satt og hvað logið af því sem móðir hennar segir henni og þau óljósu mörk sögu og sannleika virðast einkenna líf Hildar sjálfrar. Óræðni Siggýar seytlar út og smitar út frá sér þannig að Hildur á erfitt með að greina á milli reynslu sinnar og móðurinnar. Þrátt fyrir dauða Siggýar getur Hildur ekki gert upp erfitt samband þeirra og leyft henni að hvíla í friði; þvert á móti er eins og mörkin milli þeirra verði óskýrari eftir jarðarförina.

Það var líkt og Siggý hefði magnað upp seið sem ég fylgdi orðalaust. Mamma í kistunni, mamma í baðinu, mamma í rúminu, mamma í fjörunni, mamma lifandi, mamma dáin, mamma lifandi, mamma dáin. Ratleikur móður minnar var hafinn. Hún var dáin. Konan sem hafði fætt mig í þennan heim. Dáin eins og drifhvítar dúfur á snúru, flugur í gömlu húsi. Dáin eins og ástin í æðunum. Eins og fjallið í huganum. Dáin. Hún var ekki mitt norður né mitt suður, austur, vestur. Og þó.

(Brot af bls. 14)

Fuglagerið í höfðinu á mér hefur samt alltaf fylgt mér. Ég hef reynt að flýja en ég þarf ekki nema líta til himins, þá flýgur fugl eða suðandi fuglahjörð yfir hausamótum mér og þá veit ég að Siggý hverfur aldrei. Jafnvel hér í fuglalausri vetrareyju finn ég að Siggý er allar mínar áttir. Hún fann upp átt skekkjunnar.

(Brot af bls. 35)

Soffía sagði í viðtali við Jórunni Sigurðardóttur í útvarpsþættinum Orð*um bækur á Rás 1, 27. september síðastliðinn, að hún líti á hár sem tákn fyrir lífið vegna þess að það geymir erfðaefni viðkomandi. Hún talaði um „hár á milli kynslóða“ í þessu sambandi og sagði það táknrænt fyrir það sem erfist á milli kynslóða, sem er ekki einungis erfðaefni heldur einnig eitthvað dýpra (og sársaukafyllra í tilfelli persóna Segulskekkju). Þessi hugsun Soffíu er greinanleg í verkinu því þar eru fyrirbæri tengd órjúfanlegum böndum sem alla jafna er litið á sem aðskilin og óháð hvort öðru, eins og ég og þú, eða jafnvel talin vera andstæður, líkt og líf og dauði. Háræðarnar sem tengja Hildi og Siggý eru smáar og illgreinanlegar eins og kóngulóarvefir og þótt önnur þeirra deyi þá lifir hún áfram í erfðaefni og minningum hinnar.

Segulskekkja er nóvella að lengd og er það form sem hentar vel til þess að segja sögu fulla af tilvistarlegum vandamálum, því oft hefur þögn meiri þýðingu en tvöhundruð blaðsíður til viðbótar. Soffía segist vera ljóðskáld í grunninn og það sést á stíl hennar. Setningarnar eru gjarnan stuttar og þar er oft brugðið upp óvæntum myndlíkingum. Í textanum er varpað fram spurningum sem eru þess eðlis að engin endanleg svör er að finna við þeim og því er það við hæfi að textinn segi minna fremur en meira. Þó er eins og á stöku stað hafi höfundurinn skorið full mikið niður við vinnslu textans, einstaka atriði hefðu átt skilið eina til tvær setningar til viðbótar til þess að gefa betri mynd af þeim atburðum sem markað hafa sögupersónurnar. Oft tekst Soffíu þó vel að draga upp hálfkláraða mynd af því sem aðalpersónan vill síður minnast, sem skýrist svo síðar í verkinu þegar Hildur hefur kafað dýpra í tilfinningar sínar. Það er afskaplega freistandi að lesa bókina til enda á einni kvöldstund en það er þó betra að fara sér hægt svo að listilega fagrar setningar fari ekki forgörðum í allri græðginni að vita meira um þessar breysku persónur.

 

 

Viltu vita meira?

Slóð á viðtalið í Orð*um bækur á Rás 1: http://www.ruv.is/bokmenntir/segulskekkja-er-frumraun-soffiu

Viðtal við Soffíu á Starafugli: http://starafugl.is/2014/lyktin-af-blodi-thess-sem-skrifar-vidtal-vid-soffiu-bjarnadottur/

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone