Höfundar Uppskriftabókar: Steinunn Lilja ætlar sér stóra hluti

Mynd eftir Lóu Hjálmtýsdóttur
Mynd eftir Lóu Hjálmtýsdóttur

Steinunn Lilja Emilsdóttir er meistaranemi í ritlist og ein þeirra sem vinna að því um þessar mundir að safna fyrir prentkostnaði skáldverksins Uppskriftabók á Karolina Fund.

Bókin er samstarfsverkefni tíu rithöfunda og sjö ritstjóra sem eru í meistaranámi við Háskóla Íslands í ritlist og hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Á einungis fjórum mánuðum tekst hópurinn á við alla þætti útgáfuferlisins, undir leiðsögn Sigþrúðar Gunnarsdóttur, ritstjóra hjá Forlaginu, allt frá skrifum og ritstjórn textans sjálfs til umbrots, prentunar og fjármögnunar.

Í verkinu, sem er væntanlegt í maí 2015, má finna smásögur, ljóð, myndasögur og ýmislegt fleira sem allt hverfist á einn eða annan hátt um uppskriftir – þó ekki séu þær allar hentugar til manneldis.

Sirkústjaldið tók stutt tal af Steinunni og lagði fyrir hana fimm spurningar:

Hver eru mestu mistök sem þú hefur gert í eldhúsinu?

Ég reyndi einu sinni að búa til hafragraut. Mér tókst ekki aðeins að eyðileggja grautinn heldur pottinn með. Ég veit ekki alveg hvað gerðist en grunar að ég hafi óvart búið til lítið svarthol.

Framtíðarplön hvað varðar útgáfu og skrif?

Ætla að verða merkur og mjög mikið lesinn rithöfundur og gefa út alls konar efni, ljóð, leikrit, smásögur og skáldsögur. Ég geri fastlega ráð fyrir því að ég sé jafngóð á öllum þessum sviðum.

Kilja eða harðspjalda?

Harðspjalda því ég þoli ekki illa farnar bækur og kiljur verða frekar sjúskaðar. Ég sé lítinn sjarma við gamlar, mikið notaðar bækur. Þá get ég ekki hætt að hugsa um alla sem hafa lesið bókina á undan mér og borað í nefið í leiðinni.

Eftirminnilegasta atvik úr skólagöngu þinni?

Ég man vel eftir því þegar ég var í BA námi í guðfræði við háskólann og hnerraði hressilega í tíma. Enginn sagði guð hjálpi þér. Mér finnst þetta það fyndnasta sem hefur komið fyrir mig á ævinni.

Ef þú gætir búið hvar sem er, hvaða staður yrði fyrir valinu?

Ég myndi vilja búa í þrílyftu, steinsteyptu einbýlishúsi út á víðavangi í landsbyggðinni fjarri stórbrotnu landslagi eins og þverhníptum fjöllum og straumhörðum ám sem geta drepið mig. Húsið verður þó að vera nógu nálægt byggð til að internettengingin sé hraðvirk og að hægt sé að skjótast reglulega í sjoppu.

Stutt í kímnina

Textar Steinunnar Lilju í Uppskriftabók – skáldverk eru mjög beittir en þó er sjaldnast langt í húmorinn eða kaldhæðnina hjá henni. Hún á tvo texta í bókinni, annar þeirra eru eins konar drög að sköpun heimsins lögð fram af skipulagsdeild himnaríkis, hinn er frásögn af pari að baka jógúrtkökur fyrir eins árs barnaafmæli og sé hann lesinn gaumgæfilega er mögulegt að elda sömu kökurnar og persónur sögunnar eru að býsnast við.

Hér má líta brot úr síðarnefnda textanum:

„Hvað er fyrst?“
„Hvað stendur í uppskriftinni?“
„Tveir og hálfur bolli hveiti.“
„Þá er það fyrst.“
Hún situr við eldhúsborðið upptekin við að brjóta servéttur þannig að þær líti út eins og trönufuglar. Hann stendur við eldhúsbekkinn og starir á þvældan miða fyrir framan sig. Barnið sefur.
„Hvar er hveitið?“
Hún svarar ekki og leggur servéttuna frá sér. Fyrir framan hana eru leiðbeiningarnar á tölvuskjá. Hún hreyfir bendilinn reglulega svo skjárinn slökkvi ekki á sér.
„Þú ættir að skrifa þessa uppskrift á annað blað. Þetta er að detta í sundur.“ Hann bíður eftir svari en bætir svo við: „Ég gæti sett þetta upp í Excel í tölvunni, búið til uppskriftabók.“
„Það væri gaman,“ segir hún og brosir örlítið.
„Hvar er hveitið?“
Brosið hverfur. Úti geltir hundur. Hún lítur út um gluggann og sér að hann er bundinn við staur.
„Heyrirðu ekki í mér? Hvar er hveitið?“
Hún stendur upp, sækir hveitidunkinn og setur hann í hendurnar á honum án þess að segja orð.
„Bíddu, ertu eitthvað fúl út í mig?“
„Nei, nei, mér finnst bara skrýtið að þú vitir ekki hvar við geymum hveitið. Þetta er ekki bara mitt heimili.“
Hann setur hveitidunkinn á eldhúsbekkinn og opnar hann. Skeiðin hefur næstum því grafið sig niður á botninn. Hann gjóar augunum aftur á uppskriftina og nær svo í kaffibolla úr skápnum. Hann setur tvo og hálfan bolla af hveiti í rauða plastskál og grípur sykurkarið.
„Eigum við meiri sykur en þetta?“
„Já, hann er geymdur við hliðina á hveitinu inni í skáp.“
„Þessum skáp?“
„Já, þessum sem ég var að ná í hveitið úr fyrir nokkrum sekúndum.“
Hann nær í sykur og skilur skápinn eftir opinn. Þegar hann mælir hráefnið í skálina detta nokkur sykurkorn á gólfið. Hann sópar þeim með tánum þannig að smá festist í sokkunum hans, smá fer utan í fægiskófluna undir litla kústinum og restin dreifist til hennar.

Myndin af Steinunni Lilju er eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone