Í steinsteypu karlmennskunnar

Stilla úr Steinsteypunótt
Stilla úr Steinsteypunótt

Rýnt í spegilmyndir finnsku kvikmyndarinnar Steinsteypunótt

Finnska kvikmyndin Steinsteypunótt (Betoniyö) er tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2014 sem veitt verða 29. október næstkomandi. Leikstjóri kvikmyndarinnar er Pirjo Honkasalo, en hún er meðal annars þekkt fyrir að vera fyrsta konan í Finnlandi til að taka upp kvikmynd í fullri lengd árið 1970. Myndin er byggð á samnefndri skáldsögu eftir sambýliskonu Honkasalo, rithöfundinn Pirkko Saisio, og rituðu þær saman handrit kvikmyndarinnar.

Steinsteypunótt er sérstaklega áferðarfögur kvikmynd. Myndin er að mestu svart-hvít, þó að einstaka litur fái að slæðast með til þess að dýpka skynjun áhorfandans. Samspil birtu og skugga svipar til rökkurmyndahefðarinnar (fr. film noir), þar sem svarti liturinn er áberandi djúpur og ljósið að sama skapi þeim mun bjartara, þó myndin sé í raun ekki hefðbundin rökkurmynd heldur er myndmál rökkurmyndarinnar notað til þess að undirstrika örvæntingarfulla innilokun aðalpersónunnar.

Steinsteypunótt fjallar um unglingsstrákinn Simo sem býr með móður sinni og eldri bróður í verkamannablokk í Helsinki. Umhverfið er kalt og fullt af steinsteypu, meira að segja sandkassinn sem ætlaður er börnunum í blokkunum stendur einn og yfirgefinn umkringdur hárri girðingu. Líkt og steinsteypt mannvirkin sem umkringja Simo er hann umkringdur af fastmótuðum og óhagganlegum hugmyndum um karlmennsku, en Simo er sjálfur er áhrifagjarn og enn ekki fullmótaður sem einstaklingur. Eina karlfyrirmyndin í lífi drengsins er eldri bróðir hans, smákrimmi sem bíður þess að hefja afplánun. Yfirvofandi brottför bróðurins skapar pressu á Simo að ákveða hver hann raunverulega er, áður en helsta fyrirmyndin hverfur úr lífi hans.

Mynd: Ville Tanttu

Mynd: Ville Tanttu

Ómótuð sjálfsmynd Simo er undirstrikuð með myndmáli spegilsins því Simo speglar sig stöðugt, gjarnan í baðherbergisspeglinum en einnig í mörgu öðru sem verður á vegi hans. Hann hefur gaman að því að máta sig í karlmennskuhlutverkið og er hann aldrei jafn ánægður með spegilmynd sína og þegar hann klæðist fötum bróður síns. Sú spegilmynd er ein af fáum sem veita honum einhverja ánægju því oftar en ekki horfir hann leitandi og ráðvilltur á spegilmynd sína; til dæmis í speglasal skemmtigarðs þar sem speglarnir brengla ekki mynd hans, eins og speglasalir gera, heldur sér hann sig samtímis í mörgum speglum. Speglarnir bregða upp brotakenndri sjálfsmynd en ekki heilli eins og umhverfi drengsins telur honum trú um að hún eigi að vera.

Myndmál spegilsins kallast á við uppbyggingu kvikmyndarinnar sem segja má að sé rammafrásögn með frásagnarspegli (fr. mise en abyme) í formi draums sem vísar í það sem koma skal. Draumurinn er það fyrsta sem birtist á kvikmyndatjaldinu og í honum er að finna margskonar atriði sem koma fyrir síðar í myndinni. Í draumnum er Simo í lest sem farið hefur út af sporinu, fram af brú og ofan í sjó. Simo reynir að komast úr lestinni en nær ekki að brjóta sér leið út og vaknar í þann mund sem súrefnið klárast í draumnum. Simo reynir að segja bróður sínum frá draumnum sem situr í honum en reynist erfitt að koma draumnum í orð. Svar bróðurins er að hann eigi ekki að reyna útskýra það sem hann getur ekki útskýrt. Þar með hefur eina fyrirmyndin í lífi hans gert honum ljóst að ætli hann sér að verða að manni eigi hann ekki að tjá sig um það sem ekki er hægt að skýra með berum orðum. Karlmennskan krefst þess að hann bæli tilfinningar sínar og haldi undarlegum draumum fyrir sig.

Steinsteypunótt er saga af karlmennsku í krísu. Draumurinn – frásagnarspegillinn sem sagan í heild sinni speglast í – er feigðarboði Simo og feigðarboði öfgafullra karlmennskuímynda. Unglingurinn Simo skemmtir sér við að herma eftir bróður sínum og klæða sig þar með í búning karlmennskunnar sem hann hefur ekki ennþá vaxið upp í. Simo er ekki tilbúinn að hætta leiknum og ganga inn í hlutverkið sem honum er ætlað. Þar sem hann nálgast hlutverkið sem leik en ekki alvöru þá endar leikurinn að sjálfsögðu með ósköpum. Leikurinn gengur of langt og afleiðingarnar eru grafalvarlegar og óafturkræfar. Eina leiðin fyrir unglinginn til þess að losna úr steinsteypunni sem þrengt hefur að honum er að sækja í flæðandi vatnið og uppfylla þar með fyrirboðann sem fólst í spegli draumsins.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone