„Ísland, gamla Ísland“ – um Old Bessastaðir í Tjarnarbíó

OldBessastaðir2

Sokkabandið frumsýndi í Tjarnarbíói síðastliðið fimmtudagskvöld nýtt íslenskt leikverk, Old Bessastaðir, eftir leikskáldið Sölku Guðmundsdóttur. Með hlutverkin í sýningunni fara þær Arndís Hrönn Egilsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir og María Heba Þorkelsdóttir. Tjarnarbíó hefur getið sér gott orð að undanförnu fyrir fersk og spennandi verk af ýmsum toga og er ánægjulegt að sjá þá miklu grósku sem á sér stað í leikhúsinu við Tjörnina.

Spægipylsa?

Leikverkið Old Bessastaðir segir frá þremur ólíkum konum sem eru saman komnar til að grípa til aðgerða gegn komu útlendinga til landsins og sýnist manni á öllu að þær ætli að slá hinni dragúldnu og klisjukenndu skjaldborg um landið. En þversagnirnar í málflutningi kvennanna gefa strax til kynna stór göt í hugmyndafræði þeirra enda eru þær æði augljósar og kristallast í fyrstu senu verksins. Persóna Elmu Lísu er öryrki og stundum nefnd minnsta systirin. Hún er ný í hópnum og kemur með brauð með spægipylsu á fund og kaffi á brúsa. Persóna Maríu Hebu segist hafa komið með boost og finnst brauðið hallærislegt, þá sérstaklega spægipylsan, sem ALLIR eru auðvitað löngu hættir að borða, enda engan veginn í tísku að borða unnar kjötvörur. Þó fer það svo að persóna Maríu Hebu borðar brauðið en persóna Elmu Lísu fær ekki neitt. Og boostið, það var nú bara sýndarmennska. Á meðan hún japlar á brauðinu hamrar hún á mikilvægi þess að allir standi saman og manni finnst það „spot on“ að hún mauli brauðið úr nestisboxi minnstu systurinnar á meðan hún lætur frá sér þessi orð. Það er ljóst að það verður ekki neitt mark á henni takandi. Hin hugmyndafræðilegu gildi hópsins, sem er svo mikilvægt að fara eftir, eru aldrei þau sömu enda engin sammála um þau og því lífsins ómögulegt að nokkur maður geti lifað eftir þeim, jafnvel þótt hann fórni kettinum sínum á altari gildanna. Það virkar óneitanlega falskt að ætla að verja gildi sem engin veit hver eru.obkastari

Í auglýsingu fyrir leikverkið segir að þær séu ekki vont fólk. Kannski er vont fólk ekki til, bara ógeðslega vondar hugmyndir.

Brenni þið vitar

Það er þessi hugmynd um að missa sameiningartáknin okkar, sérkennin sem gera okkur að þjóð, við flutning fólks af öðru þjóðerni hingað til lands sem er svo fráleit. Hræðsla kvennanna við hið óþekkta um leið og þær vilja ekki sjá þetta íslenska, spægipylsuna, gerir allan málflutning þeirra hjákátlegan. Því auðvitað er þetta rugl. Hættum við að vera Íslendingar þótt hingað flytji útlendingar sem auðga munu menningu okkar með sinni menningu? Eins og öll eintök af Laxdælu muni bara fuðra upp við það eitt að búrkuklædd kona versli í Melabúðinni? Og hvað er íslenskt? Er það bara allt sem er gamalt?

Kannski er vont fólk ekki til, bara ógeðslega vondar hugmyndir.

Stöllurnar eru sem smækkuð mynd af íslensku þjóðinni, í örlítið öfgafullum og afbökuðum búningi en að sama skapi svo sláandi líkar frummyndinni að ljósinu sem varpað er á hana gegnumlýsir íslensku þjóðarsálina og sýnir okkur hversu einfaldir hlutirnir eru í raun.
Orðfærið gæti verið sprottið upp úr kommentakerfum vefmiðlanna en klisjugusurnar sem dælast upp úr þeim og skrúðmælgin sem einkennir málflutninginn er augljóslega ekkert nema orðin tóm. Svo einfalt að sitja bara og pikka á lyklaborðið en hægara sagt en gert að fara eftir því. Leikurinn var frábær eins og við var að búast af leikhópnum og var einræða Maríu Hebu sérstaklega eftirminnileg. Tónlistin átti vel við verkið og var á köflum hrollvekjandi.

Samfélagsádeilan í Old Bessastaðir hittir beint í mark. Hér er talað beint inn í samtíma okkar og eitt augnablik á meðan á sýningunni stóð greip mig hræðsla. Það er í alvöru til svona fólk. Þessi sundurlausa hugmyndafræði á sér fylgjendur og þegar hugmyndafræði fer að kalla á aðgerðir þá megum við þakka fyrir að virkir í athugasemdum eru virkari þar en í hinni víðu veröld.Við verðum að gæta þess að láta ekki ótta annarra stjórna siðferðisvitund okkar.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone