Kólumkilli var hér

aIMG_2057

Um sviðsetningu Þorleifs Arnar Arnarssonar á Sjálfstæðu fólki 
í Þjóðleikhúsinu 2014.

Greinin er byggð á fyrirlestri sem haldinn var í Leikhúskaffi í Gerðubergi 25.febrúar 2015 þar sem spjallað var um leiksýninguna.

Þegar fjalla á um leiksýninguna Sjálfstætt fólk sem frumsýnd var á jólum 2014 í Þjóðleikhúsinu, verður að hafa í huga að hún er sjálfstætt listaverk sem byggð er á þremur meginstoðum. Í fyrsta lagi byggir verkið á samnefndri skáldsögu Halldórs Laxness, í öðru lagi á leikgerð sem þrír höfundar eru skrifaðir fyrir, þeir Atli Rafn Sigurðarson, Ólafur Egill Egilsson og Símon Birgisson og í þriðja lagi á sviðsetningu og leikstjórn leikstjórans. Að búa til leiksýningu upp úr jafn margradda og marglaga bók sem þar að auki hefur orðið langa viðtökuhefð í menningu okkar, hlýtur að vera flókið ferli ekki síst þegar haft er í huga að höfundarnir kjósa að spanna allar fjórar bækur sögu Halldórs á einu sýningarkvöldi. Höfundar leikgerðarinnar velja ákveðið sjónarhorn á stórvirki Halldórs, hvaða sögu á að draga saman til sýningar á leiksviðinu, stytta textann og raða honum upp á nýtt og mynda þannig leikhæft sýningarhandrit. Í stuttu máli leggja þeir áherslu á fjölskylduharmleik Bjarts og átakanleg samskipti hans við sína nánustu, heimilisharðstjórann og kúgarann Bjart. Þegar leikgerðin er lesin er alls ekki hægt að sjá fyrir sér sýninguna sem síðan varð til á leiksviðinu, enda eru engar leiðbeiningar hvorki til leikstjóra né annarra höfunda og leikara uppfærslunnar, engar útskýringar um útfærslu á leiksviðinu, aðeins texti Halldórs. Í honum felst að sjálfsögðu aðalinneignin fyrir sviðshöfundana ef ekki fjársjóður og innihald hans þarf ekki að tíunda hér, flestir ættu að þekkja hann. Inneign sviðshöfundanna varðar fyrst og fremst leiktextann sjálfan og hugmyndir að leikgjörningum og útfærslu á leiksviðinu eins og síðar verður vikið að. Meðferð og túlkun á efni og persónum Halldórs er hinsvegar alfarið á hendi sviðshöfundanna og leikaranna. Það er þeirra að skapa lifandi listaverk upp úr textanum á leiksviðinu. Sviðsetningin sjálf verður því allt annar vefur en bæði textavefur leikgerðarinnar og bókarinnar. Hér er orðið vefur notað sem annað heiti yfir þann texta sem leiksýningin er en hann er jafnframt þýðing á leiktexta yfir í sviðstexta.

Fyrir áhugafólk um leikhús er afar freistandi að rýna í þennan vef með augum sýningargreiningar, þ.e. að skoða fagurfræði, hugsun og stefnu sviðsetningarinnar á hennar eigin forsendum og sem sjálfstætt listaverk. Til þess þarf að horfa oft á viðkomandi sýningu, leyfa sér að greina sviðslausnir með aðferðum sviðslistafræða, gera tilraun til að túlka það sem fyrir augu ber, því leikhúsið sem listform er þrátt fyrir allt lifandi sjónrænn miðill eins og fram kemur í upprunalega gríska orðinu „þeatró“, sem er dregið af sögninni að sjá (1). Þetta vill oft gleymast í umfjöllun gagnrýnenda sem sitja fastir í greiningu á skrifaða leiktextanum en eiga erfiðara með að sjá og greina gildi sjónarspilsins sem leikstjórinn og hans listræna teymi eru ábyrg fyrir. Þetta á hvergi betur við en þegar leikgerðir eru samdar upp úr jafn þekktum og umdeildum skáldsögum og Sjálfstæðu fólki; því allir vildu Bjart kveðið hafa. Hann er ekki aðeins tragísk hetja sem allir hafa sína skoðun á og þykjast þekkja út í gegn, þjóðareign sem vitnað er til við ýmis tækifæri jafnt í listum sem pólitík, heldur er hann nánast helgimynd.

Þannig má segja að bæði bókin Sjálfstætt fólk, aðalpersóna hennar Bjartur í Sumarhúsum svo og höfundurinn Halldór Laxness hafi fengið á sig helgimyndarstimpil og vissan rétttrúnað meðal almennings

Með orðinu helgimynd sem er þýðing á gríska orðinu „íkon“, er átt við yfirfærða merkingu hugtaksins á okkar dögum en það er notað um ýmis menningarleg fyrirbæri og einstaklinga sem verða áberandi í þjóðfélagi og fjölmiðlum. Þannig má segja að bæði bókin Sjálfstætt fólk, aðalpersóna hennar Bjartur í Sumarhúsum svo og höfundurinn Halldór Laxness hafi fengið á sig helgimyndarstimpil og vissan rétttrúnað meðal almennings. Í helgimyndinni felast fastmótaðar hugmyndir og viðteknar skoðanir um viðkomandi listamann eða listaverk, jafnvel tilbeiðsla. Sá sem fer gegn þeim skoðunum er því kallaður helgimyndabrjótur af því hann rís upp gegn viðteknum viðhorfum og rétttrúnaði á tilteknum menningarlegum fyrirbærum.

 aIMG_9539

 

Miskunnarleysi við viðfangsefnið

Höfundarnir að leiksýningu Þjóðleikhússins á Sjálfstæðu fólki höfðu möguleika á að kynna sér fyrri leikgerðir og uppsetningar byggðar á bók Halldórs, margvíslegar túlkanir og hugmyndir um söguna, ekki síst aðalsöguhetjuna Bjart en kusu að nálgast efniviðinn með öðrum hætti þar sem fjölskyldusaga Bjarts, samskipti hans við sína nánustu eru höfð í brennidepli. Þeir gerðust helgimyndabrjótar, risu ekki aðeins upp gegn viðteknum skoðunum á Bjarti og sögu hans, heldur einnig gegn viðteknum skoðunum um leikhúsið og leikara þess, sem eru líka helgimyndir í augum almennings í merkingunni hér að ofan. Um þetta segir leikstjórinn Þorleifur m.a. í leikskrá:

Í þessari sýningu á Sjálfstæðu fólki er mín kynslóð að rísa gegn ákveðnum hugmyndum og hefð og það er kjarninn í þessari sýningu. Sú túlkun okkar á Sjálfstæðu fólki sem mun blasa við á leiksviðinu er sprottin upp úr okkar samtíma, og hefði að öllum líkindum ekki komið fram fyrr. Gott leikhús er miskunnarlaust við viðfangsefni sitt, samfélagið og tímann.

Sú spurning sem óneitanlega vaknar hér, er hvort Þorleifi Erni Arnarsyni hafi tekist að búa til gott leikhús með miskunnarleysi sínu gagnvart viðfangsefninu? Og þá hvaða merkingu ber að leggja í „gott leikhús“? Er gott leikhús fólgið í því miskunnarleysi sem þarf til að brjóta niður helgimyndir þess?

Fyrsta helgimyndabrot leikstjórans í þessu tilviki er valið á aðalleikaranum sem þarf að bera sýninguna uppi, þ.e. hlutverk Bjarts, sem allir hafa fastmótaðar skoðanir á. Atli Rafn Sigurðarson er ekki það tröll að burðum sem fólk tengir gjarnan við bóndann í Sumarhúsum og fyllir ekki við fyrstu sýn upp í þá mynd sem fólk hefur um þann leikara sem leika á þessa helgimynd jafnvel þótt ekki sé mikið um lýsingar á líkamlegu atgervi hans af hálfu Halldórs. Reyndar er engar beinar lýsingar að finna á útliti Bjarts, á einum stað er hann þó sagður breiðaxla og með tröllslegar hendur og skegg í andliti. Og kannski fyllir Atli Rafn ekki heldur upp í myndina af þeim stórleikurum sem hafa leikið Bjart á undan honum eins og Róbert Arnfinnsson, Arnar Jónsson og Ingvar Sigurðsson. Atli Rafn er engu að síður einn af helstu „stórleikurum“ sinnar kynslóðar og hefur áður leikið aðalhlutverk í uppfærslu Þorleifs Arnar á Englum alheimsins sem hlaut mikið lof gagnrýnenda og miklar vinsældir áhorfenda (2).

Annað helgimyndabrot leikstjórans og leikmyndahöfundar, Vytautas Narbutis, felst í umgjörð leiksýningarinnar, múrnum sem umlykur kotbýli Bjarts þar sem fegurð íslenskrar náttúru eins og Halldór lýsir henni er fjarverandi, ljótleikinn allsráðandi og áhorfendur snuðaðir um allt það sem einkennir íslenska öræfafegurð, víðáttu og fjarlægðina sem gerir fjöllin blá og mennina mikla. Þriðja helgimyndabrotið felst síðan í að leyfa sér að tengja efnahagsástandið á Íslandi á undanförnum árum við veltiárin sem Halldór Laxness lýsir í fjórðu bókinni af Sjálfstæðu fólki með ýmis konar uppátækjum, vísunum í samtímann og spuna. Þegar betur er rýnt í höfundarverk leikstjórans og þær aðferðir sem hann hefur beitt til þess að hrófla við rétttrúnaði og helgimyndum kemur í ljós að miskunnarleysi hans við viðfangsefnið á fyrst og síðast rætur að rekja til þess miskunnarleysis sem Halldór Laxness sjálfur sýndi eigin viðfangsefni. Hér er það einungis gert sýnilegra en nokkru sinni fyrr. Sjálfstætt fólk á leiksviðinu verður fyrst og fremst að hryllingssögu í Sumarhúsum sem Halldór var fyrstur til að skapa.

Segja má að sonurinn fremji því táknrænt föðurmorð með því að hæðast að stórleikaranum sem er farinn að spila golf á gamals aldri og auglýsir tempúrdýnur fyrir bakveika góðborgara.

Eins og áður sagði er varla að finna eitt orð eða ábendingu til leikstjórans í leikgerðinni um hvernig beri að sviðsetja textann og aðeins á einum stað er bætt inn texta í hina skrifuðu leikgerð sem ekki er eftir Halldór sjálfan. Um er að ræða texta í fyrsta hluta verksins (Landnámsmaður Íslands) þar sem Bjartur er látinn segja: „Væri ég ekki skáld, væri ég geðsjúklingur“ og bændurnir Einar í Undirhlíð (Eggert Þorleifsson) og Ólafur í Ystadal (Pálmi Gestsson) spyrja leikarann Atla Rafn hvort hann sé ekki að leika í vitlausu leikriti og uppskera hlátur áhorfenda sem allir eru með á nótunum eftir að Atli Rafn sló í gegn sem Páll í Englum alheimsins en þar var sami leikstjóri á ferð og sömu leikgerðarhöfundar, að Ólafi Agli Egilssyni undanskildum. Að vísu bresta leikarar síðar út í spunaleik og leyfa sér þá að gantast með nokkrar helgimyndir úr leikhúsinu eins og Arnar Jónsson (Hreppstjórinn á Útirauðsmýri) sem er ekki aðeins þjóðleikari heldur þjóðrödd sem auglýsingaiðnaðurinn íslenski hefur virkjað af alefli í sína þágu. Leikstjórinn Þorleifur Örn, er sonur Arnars Jónssonar og í leikskrá sýningarinnar gerir hann m.a. grein fyrir því að með uppsetningunni á Sjálfstæðu fólki vilji hann brjóta niður þá leikhúshefð sem faðir hans hefur verið hluti af undanfarna áratugi sem fastráðinn leikari við Þjóðleikhúsið og vísar þá líklegast til þess að Arnar Jónsson lék Bjart í tveggja hluta leikgerð eftir sögunni 1997 (3). Segja má að sonurinn fremji því táknrænt föðurmorð með því að hæðast að stórleikaranum sem er farinn að spila golf á gamals aldri og auglýsir tempúrdýnur fyrir bakveika góðborgara. Kaldhæðni sonarins verður enn skýrari þegar haft er í huga að Arnar tilheyrði á yngri árum einum helsta kjarna róttækra sviðslistamanna ásamt eiginkonu sinni Þórhildi Þorleifsdóttur leikstjóra. Saman stofnuðu þau m.a. Alþýðuleikhúsið en það var hugsað sem framsækið pólitískt leikhús og andsvar við úreltum og gamaldags hefðum í íslensku samfélagi og leikhúsi.

IMG_1115

 

Leikhús sem vísar í sjálft sig

Með þessu uppátæki Þorleifs skín í metaleikhúsið svokallaða, erfingjar leikhússins (sem eru reyndar fleiri en Þorleifur Örn eins og vikið verður að síðar) gera athugasemdir við framlag foreldranna sem eru ekki lengur jafn byltingarsinnaðir í listinni og þeir voru. Með metaleikhúsi er átt við leikhús sem storkar og ögrar hefðbundnum hugmyndum okkar um hið dramatíska leikhús þar sem leikpersónur og athafnir þeirra virka sem spegill á gjörðir, tilfinningar og þjáningar áhorfenda. Metaleikhúsið er hugtak sem kom fram snemma á sjöunda áratug síðustu aldar, smíðað af bandaríska leikhúsmanninum Lionel Abel en hann var bæði leikskáld og gagnrýnandi. Metaleikhúsið vísar í sjálft sig, brýtur oft niður ósýnilegan vegginn (oft nefndur fjórði veggurinn) milli leiksviðs og áhorfenda, ávarpar þá og blandar þeim gjarnan inn í leikinn á sviðinu. Metaleikhúsið er því ákveðin aðferð við sköpun leiksýningar (4).

Leikhúsið er fyrirbæri/listform sem lýtur eigin lögmálum, vettvangur þar sem hægt er að sýna okkur í smækkaðri mynd sýnishorn af sögu, samfélagi, sjálfsmynd og heimsmynd mannkyns með ýmiss konar aðferðum. Listamenn leikhússins hafa valið leikhúsið sem vettvang til að tjá sig um heiminn og upplifun sína af honum (reynslu/tilfinningar) og vita undirniðri að leikhúsið er takmörkunum háð af því að það er blekking, tilbúinn gerviveruleiki sem getur aldrei endurspeglað þann stóra veruleika sem ríkir utan þess, ekkert frekar en veruleika heillar skáldsögu á borð við Sjálfstætt fólk.

Höfundar Sjálfstæðs fólks eru sér fyllilega meðvitaðir um þessa staðreynd og nota hana sem aðferð til tjáningar á söguefni sínu. Þeir hafa sýnt það áður eins og í Englum alheimsins þar sem áhorfendum var hvað eftir annað gerð grein fyrir að þeir væru staddir í Þjóðleikhúsinu sem aðalpersónan, geðsjúklingurinn Páll, hafði leigt til að segja sögu sína – Afhverju ætti geðsjúklingur ekki að geta leigt Þjóðleikhúsið til að fagna sjálfum sér eins og bankastjórinn fyrrverandi sem hélt upp á afmæli sitt þar og fékk til liðs við sig ótal listamenn. Hugmyndin um að leigja Þjóðleikhúsið undir sína eigin ævisögu er kannski fengin þaðan? Sömuleiðis mátti finna ríka meðvitund sama leikstjóra um blekkingareðli leikhússins í sviðsetningu hans á Pétri Gaut á Listahátíð 2012, sýningu sem kom hingað frá Sviss. Mörgum kann að þykja þetta helst til sjálfhverft og fullmikil endurtekning hjá leikstjóranum, jafnvel klisja og það má til sanns vegar færa. Leikstjórinn vill minna sjálfan sig á að hann er fyrst og fremst leikhúsmaður sem á rætur að rekja til leikhússins, hann verður að taka uppruna sinn í sátt og gera sig gildandi sem sjálfstæðan leikhúsmann óháð arfleifð og helgimynd foreldranna. Faðirinn hefur leikið Pétur Gaut og móðirin sett það á svið í sama leikhúsi. Á vissan hátt má skynja þessa tilhneigingu til að skilja sig frá foreldrum sínum og fjölskyldu bæði í leikgerð og uppsetningu. Og í því sambandi eru allir þeir sem á undan honum hafa gengið í leikhúsinu og hann þarf að sigrast á, ekki aðeins foreldrar og leikhúsfjölkyldan sem hann tilheyrir heldur ekki hvað síst Halldór Laxness sjálfur.

Þegar vinsælt dægurlag „Þú komst við hjartað í mér“ (5) eftir eina af þekktustu helgimyndum afþreyingarmenningu samtímans, Páls Óskars Hjálmtýssonar, hljómar úr hátölurum leikhússins er það til að minna okkur á að við erum stödd í leikhúsi þrátt fyrir allt, við erum ekki að horfa á framsetningu veruleikans og ekki einu sinni eftirlíkingu af honum. Við erum að horfa á sjálfstætt listaverk sem aðeins tjáir eina sýn af skálduðum veruleika sem heitir Sjálfstætt fólk. Í leikhúsinu er allt leyfilegt, ekki síst á þessum stað í leiknum þegar langt er liðið á sýninguna og Bjartur er að gera út af við okkur með hranaskap og tilfinningakulda gagnvart sínum nánustu. Það er skömmu eftir að Bjartur hefur með hörku rekið barnunga og barnshafandi dóttur sína Ástu Sóllilju (Elma Stefanía Ágústdóttur) að heiman. Lagið sem Páll Óskar flytur er hið fullkomna stuðlag en inniheldur jafnframt tilfinningaþrunginn texta:

Og þegar þú komst inn í líf mitt breyttist ég.

Þú komst, þú komst við hjartað í mér.

Ég þori að mæta hverju sem er.

Þú komst þú komst við hjartað í mér.

Lagið fær tvöfalda merkingu þegar það er notað í sýningunni; annarsvegar þjónar það þeim tilgangi að vera tenging milli þriðju og fjórðu bókar (Erfiðir tímar og Veltiár) en um leið að fagna uppgangstímum í samfélaginu, líkt og bankamenn hrunsins gerðu þegar þeir keyptu til sín heimsfræg poppgoð til að skemmta sér í gróðærinu mikla sem leitti til bankahrunsins 2008. Hins vegar virkar texti lagsins eins og kaldhæðnisgusa eftir að Bjartur hefur rekið Ástu Sóllilju að heiman, því hún kom jú við hjartað í honum þrátt fyrir allt. Bjartur er tilfinningavera, ekki bara kaldur og miskunnarlaus þrjóskuhaus, hann er mannlegur og breyskur. Þarna birtist okkur aftur miskunnarleysi leikstjórans við viðfangsefni sitt, hann leyfir sér að gantast með tilfinningar Bjarts og Ástu Sóllilju sem í raun elska hvort annað sem faðir og dóttir en geta ekki tjáð það af einlægni hjartans.

Hér er metaleikhúsið notað sem „comic relief“ eða gamansamur léttir til að hjálpa áhorfandandum að meðtaka harminn og hryllinginn sem á eftir að koma, nokkuð sem við þekkjum frá Shakespeare t.d. í dyravarðarsenunni í Macbeth. Bertolt Brecht kom svo með sína versjón eins og frægt er, Verfremdungseffektinn eða fjarlægingaráhrif/framandgervingu sem átti að koma í veg fyrir að áhorfendur lifðu sig of náið inn í tilfinningar leikpersónanna á kostnað hugsunar og ígrundunar. Með því að rjúfa framvinduna í frásögninni sem áhorfendur hafa þegar lifað sig inn í og setja inn leikatriði, söng eða annað sem í fyrstu virðist alls óviðkomandi leiksýningunni en er þó í eðli sínu ákveðið „komment“ á sömu frásögn, fær áhorfandinn tækifæri til að sjá og skynja hana úr vissri fjarlægð. Fjölskylduharmleikurinn í Sumarhúsum sem birtist okkur á leiksviðinu einkum í sambandi Bjarts og Ástu Sóllilju er af sömu stærðargráðu og harmleikur Lés og Cordelíu eða Kreons og Antígónu ef út í þá sálma er farið og hann myndar annan ásinn í framvindu sögunnar.

Andstæðan við Sumarhúsafólkið, fjölskyldan á Útirauðsmýri sem er tengd Bjarti og fjölskyldu hans órjúfanlegum böndum er hinn ásinn. Um þessa tvo fjölskyldupóla og stöðu þeirra í samfélaginu hverfist sá heimur sem birtist okkur á leiksviðinu. Helstu átökin í þessum fjölskyldum fara fram milli Bjarts og Rauðsmýrarmaddömunnar (Tinna Gunnlaugsdóttir), hina alltumlykjandi þjóðmóður sem þykist kunna að ráða undirsátum sínum heilt. Tinna er tvímælalaust ein af helgimyndum leikhússins rétt eins og Arnar, fyrst sem leikkona og síðar sem leikhússtjóri og því var það rakin og afar frumleg hugmynd þrátt fyrir ramakvein í fjölmiðlum að láta hana leika hlutverk Rauðsmýrarmaddömunnar og ekki hvað síst opna sýninguna á Sjálfstæðu fólki í sjálfri forsetastúku leikhússins sem er einmitt sá staður í áhorfendasalnum sem staðfestir innbyggða stéttaskiptinguna í leikhússtofnuninni sem er smækkuð mynd af heimi og samfélagi.
 Þegar sýningin fer svo úr böndunum við upphaf Veltiárakaflans leikur leikstjórinn sér aftur að helgimyndum leikhússins, Rauðsmýrarmaddaman í upphlut og krínólín breytist í þjóðleikhússtjórann Tinnu (þáverandi og fyrrverandi) sem strunsar um með svartan plastpoka og hreinsar upp draslið eftir fylleríið á sviðinu þar sem ekki er lengur verið að fara með texta eftir Halldór Laxness heldur vanvirða stofnunina með „ómerkilegu“ dægurlagi og fíflalátum. Og það eru einmitt þau tvö, Tinna og Arnar alias hreppstjórahjónin/leikhúshjónin/leikhúsforeldrarnir sem hneykslast hvað mest á uppátæki „erfingjanna“ en sonur Tinnu, Ólafur Egill Egilsson er einn af höfundum leikgerðarinnar og leikur hlutverk kennarans – Og fyrst verið er að ræða um erfingja leikhússins og fjölskyldutengslin, Símon Birgisson einn af höfundum leikgerðarinnar og núverandi dramatúrgur Þjóðleikhússins er bróðursonur Ólafs Hauks Símonarsonar sem um árabil var mest leikni leikritahöfundur leikhússins. En þetta er Ísland, litla Ísland, litla tjörnin með stóru fiskunum og svo hundaþúfan. Svokölluð hámenning og lágmenning takast á í miskunnarleysi gagnvart texta Halldórs, helgimyndabrotið heldur áfram, ný kynslóð hefur rutt sér til rúms og notast við aðferðir sem ekki falla endilega í kramið en um leið eignar hún sér réttinn til að túlka menningararfinn með eigin hætti.

 

Fagurfræði ljótleikans

En helgimyndabrotið nær lengra og dýpra, það er ekki einungis yfirborðskenndar tiktúrur eða stælar í ungri leikhúskynslóð sem vill slá áhorfandann utanundir. Bakvið hverja hugmynd og gjörð í sviðsetningunni leynist texti Halldórs Laxness, andrúm þess tíðaranda, þjóðfélagsástands og mannlífs sem honum tókst að lýsa með ósviknum skáldskap og kaldhæðni í sögunni stóru um sambýli Bjarts við heiði, sauðkind og samfélag. Og það sambýli er síður en svo fagurt eins og lögð er áhersla á í allri sviðsmynd og umgjörð sýningarinnar á sviði Þjóðleikhússins. Á meðan Halldór Laxness stillir fegurð náttúru í textanum upp á móti ljótleika mannslífsins velur leikstjórinn að sýna okkur það síðarnefnda í öllu sínu veldi og hafna um leið andstæðunni og fyrir þá sök hlaut sýningin gagnrýni, það vantaði fegurðina í hana. En „fegurð“ sýningarinnar felst þó einkum í fagurfræði sem kenna má við ljótleika, grimmd og úrgang sem er tvímælalaust höfundareinkenni leikstjórans bæði hér og í fyrri sýningum hans. Með henni rís hann upp með gróteskum hætti gegn natúralistískum leik og raunsæislegri framsetningu á efninu í öllu tilliti og sver sig í ætt við byltingarmenn í leikhúsi eins og Antonin Artaud.

Með fagurfræði ljótleikans er átt við ákveðna aðferð í listsköpun sem storkar hefðbundnum og viðteknum hugmyndum um fegurð og fegurðarsmekk. Skynjun flestra á fegurð ræðst af þeirri ánægjutilfinningu og gleði sem fegurðin ein og sér veitir og byggir á vissum formreglum, innra samræmi og skipulögðu kerfi á meðan ljótleikinn veldur truflun í skynjuninni, óreiðu og upplausn kerfa og tilfinningalegum ónotum og óánægju. Fagurfræði ljótleikans sem aðferð getur þó engu að síður fyllt okkur vissri vitsmunalegri ánægju sem felst þá aðallega í að verða vitni að þeirri fegurð sem býr í framsetningu viðkomandi listamanns, framsetningu sem eltist ekki við fyrirfram ákveðinn og samþykktan fegurðarsmekk viðtakandans (6).

aIMG_9434Það er ekki beinlínis heiðríkja íslenskrar náttúru og víðernis sem blasir við augum þegar tjaldið er dregið frá eftir upphafsatriðið þar sem brúðjónin Bjartur og Rósa (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) standa framan við tjaldið undir innblásinni heillaóskaræðu Rauðsmýrarmaddömunnar um dásemdir sveitasælunnar. Gríðarlega hár veggur sem byggður er í hálfhring á sviðinu, steypugrár að lit, táknar umhverfi Bjarts (fjallamúrar heiðinnar) og fjölskyldu hans. Þau húka og hokra undir ókleifum virkismúr helsisins sem Bjartur misskilur sem sjálfstæði. Sumarhús eru á botni þessa virkis, fjölskylda hans á samfélagsbotninum, það þýðir ekki að reyna að klifra upp eins og sýndi sig margoft í leiksýningunni.

Á múrnum eru aðeins tvennar dyr, önnur leiðir inn í fortíðina, torfbæinn aldagamlan, hin inn í framtíðina og frelsið, en þær dyr er því miður aðeins hægt að opna að utanverðu og af ósýnilegu valdi. Milli þessara tveggja tíma fortíðar og framtíðar fer nútíminn fram þ.e. allt líf Bjarts og fjölskyldu hans á leiksviðinu.

Múrinn getur einnig táknað það innra fangelsi sem Bjartur hefur skapað með þrjósku sinni, hann getur einnig verið samfélagsfangelsið sem er hnepptur í sem fátæklingur og það er fyllilega gefið í skyn með eftirlitssvölum sem liggja hátt uppi meðfram öllum veggnum og aðeins fólk af hærri stétt, fangaverðir fátæklinganna, (eftirlitssamfélagið) geta gengið á eins og fjölskyldan á Útirauðsmýri.

En veggurinn getur líka verið legveggur, móðurlífið sjálft, sú jörð sem allt mannlíf sækir upphaf sitt til. Á þeim vegg speglast bæði fortíðar- og framtíðardraugar, martraðarkennt líf sem eitt sinn var lifað í heiðinni og hefur skilið eftir sig galdra og draugagang. Þetta er sýnt með videólist Rimas Sakalauskas, sem varpað er á vegginn og minnir stundum á tví- og þrívíddar sónarmyndir af fóstrum í móðurkviði sem taka á sig furðuskýra mannsmynd. Fortíðardraugarnir eru auðvitað þau Kólumkilli og Gunnvör sem eiga ekki svo lítinn þátt í hugsun og tilfinningalífi Sumarhúsafólksins, framtíðardraugarnir eru öll ófæddu börnin í Sumarhúsum sem mörg hver deyja drottni sínum strax við fæðingu.

Þegar líða tekur á sýninguna getur steyptur veggurinn í vissri lýsingu táknað húsbyggingaráráttu og húsnæðissögu Íslendinga alla tuttugustu öldina og þannig kallast sýningin á við samtíma okkar, vistarbönd húsnæðisskuldanna sem meirihluti þjóðarinnar hefur komið sér upp með aðstoð bankanna. Áhorfendur lokast inni í leikhúsinu með Bjarti og fjölskyldu hans undir yfirþyrmandi múrnum sem skapar tilfinningu af óþægilegri innilokunarkennd eftir því sem líður á sýninguna. Sumarhúsafjölskyldan lokast inni undir bæjarfjallinu í heiðinni, lokast inni á Íslandi.

aIMG_1495-2„Maður kemst ekki burt. Það er lífið“ eins og Ásta Sóllilja segir sjálf (7). Og enginn kemst burt frá Bjarti, það deyr allt á undan honum.
 Undir múrnum fer svo hryllingslífið fram þar sem fjölskyldan rennur saman við jörð og náttúru, blóð og skepnur, veruleika og martröð. Þetta sjáum við hvað eftir annað í sýningunni og oft af miklu miskunnarleysi og grimmd enda gerir Bjartur sáralítinn mun á mönnum og skepnum í sögu Halldórs, sauðkindin er jafnvel æðri manneskjunni. Allt og allir verða viðföng Bjarts, allt sem gerist í Sumarhúsum er þrjósku hans og misskilinni sjálfstæðisbaráttu um að kenna. Barnungir synir hans (Þórir Sæmundsson, Snorri Engilbertsson, Arnmundur Ernst Bachmann), renna saman við kotbýlið, kúra á torfþaki, hnipra sig saman eins og hungraðir rakkar undir bæjarvegg. Amman Hallbera (Guðrún S. Gísladóttir) er gersamlega samgróin við bæinn og færir sig varla af bæjarhellunni alla sýninguna, segir fátt, hugsar því meir og fylgist með öllu sem fyrir augu ber rétt eins og höfundurinn sjálfur Halldór Laxness, enda er hún að lesa Laxness alla leiksýninguna út í gegn. Hún er aðeins gestur í Sumarhúsum, taóísk persóna sem yljar sér við minninguna um sólarlögin í Urðarseli þar sem hún bjó um áratuga skeið.

Við fáum ekki að sjá leikhúslegar útgáfur af íslensum kotbæ í þjóðháttastíl, enga baðstofu, ekkert kaffi sem drukkið er úr venjulegum bollum og kleinurnar eru maulaðar beint upp úr plastpokanum úr Bónus. Leikmunadeildin fær önnur verkefni, kaffið stendur í stórum málmbrúsum upp við múrinn eins og finna má í fyrirtækjum og stofnunum, kaffið er drukkið úr plastmálum og auðvitað er jólamaturinn hjá Bjarti 1944 réttirnir, matur fyrir Sjálfstæða Íslendinga sem er jafn kaldhæðnislegt og titillinn á skáldsögunni.

aIMG_9919Í veltiárakaflanum er drukkinn bjór úr áldósum og það gerir kennarinn líka þegar hann birtist berklaveikur og alkohólíseraður á leiksviðinu. Allt eru þetta þó smáatriði (sem sumir létu þó fara í taugarnar á sér) í samanburði við leikgjörningana sem margir hverjir eru grafnir upp úr lýsingum Halldórs en er alls ekki að finna í leikgerðinni því eins og áður sagði er ekki neinar leiðbeiningar til leikstjóra þar. Í leikgjörningunum gengur leikstjórinn alla leið í miskunnarleysinu við viðfangsefni sitt enda er það fyrst og fremst hlutverk hans að umbreyta leikgerðinni í þrívíðan sviðsskáldskap.

 

 

Sviðsmyndlist og gjörningar

Sem dæmi um þá leikgjörninga sem verða til á leiksviðinu og styðjast við hugmyndir sem sóttar eru í texta Halldórs má nefna atriði í fyrsta hluta sýningarinnar þegar hin barnshafandi og vannærða Rósa (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) fyrri kona Bjarts, slátrar uppáhaldgimbrinni hans, Gullbrá, og atar sig blóði hennar af áfergju. Um leið opnast framtíðardyrnar í hálfa gátt og í sterkri, hvítri hliðarlýsingu birtist sjálf Rauðsmýrarmaddaman og starir inn í skerandi ljósið. Blundandi og bæld reiði Rósu í garð frúarinnar er sviðsett með vísan og stuðningi í texta Halldórs:

„…hana hafði verið að dreyma frúna á Útirauðsmýri, hún fann að hún hafði eitthvað að baki sér sem varðaði allan hreppinn, henni þótti hún hafa skorið frúna á Útirauðsmýri á háls“(8)

Rósa drekkur í sig blóð Rauðsmýrarmaddömunnar með fórninni á Gullbrá.
 Þegar Bjartur kemur heim úr eftirleit á fjöllum og Rósa færir honum skanka af gimbrinni sem hún hefur slátrað sem hann stýfir alsæll úr hnefa, liggur Rósa á fjórum fótum og þrífur upp blóðið eftir slátrunina. Bjartur þarf að éta oní sig sínar eigin bábiljur um sjálfstæði án þess að hafa hugmynd um það.
 Þegar Bjartur skilur Rósu eina eftir í kotinu og ríður á hreindýrstarfinum yfir Jökulsá á Fjöllum, fæðir Rósa stúlkubarnið Ástu Sóllilju með viðeigandi alvöruópum, standandi upp við bæjarlækinn sem rennur niður eftir miðjum múrnum. Bjartur er ekki fyrr farinn af bæ en inn læðist barnsfaðir Rósu, Ingólfur Arnarson Jónsson (Stefán Hallur Stefánsson) án þess að áhorfendur verði hans varir. Hann borar sér í gegnum lítið op/gat hátt uppi vinstramegin á múrnum og stillir sér upp á eftirlitssvölunum beint fyrir ofan Rósu. Þegar fæðingarhríðirnar ná hámarki sleppir hann (sæðisgjafinn) taki af nöktu og blóðugu kornabarni (mjög sannfærandi brúðulíki) sem lendir í fangi Rósu. Með þessu fullkomnast verknaður hans, hann hefur lætt í hana sæði sem nú er orðið fullburða og á eftir að skipta sköpum fyrir áframhald sögunnar. Á sama hátt er snilldarleg innkoma kennarans (Ólafur Egill Egilsson) útfærð seinna í verkinu án þess að við verðum þess vör. Hann skríður inn um sama op/gat á múrnum eins og skrímsli eða skordýr inn um veggjarglufu skömmu eftir að Bjartur yfirgefur börnin til að afla tekna í þorpinu. Hjá Halldóri er þetta gat á múrnum hola í snjóskafli sem liggur inn í Sumarhúsabæinn:

„Eru ekki dyr á bænum? spurði gesturinn.
 Nei, sögðu þau, en það er hola niðrí skaflinn.
 Viljið þið leiðbeina mér sem fyrst inní holuna, sagði gesturinn“ (9)

Aftur læðist hið „illa“ sæði inn á leiksviðið, sæði sem á eftir að valda stærstu dramatísku straumhvörfunum í framvindu sögunnar.
 Þegar kennarinn misnotar/nauðgar Ástu Sólilju fyrir opnum tjöldum þá flettir leikarinn af henni hárinu svo undir skín í ljóst barnshárið enda er Ásta Sóllija enn barn að aldri þegar þessi atburður á sér stað. Þessa gjörð má einnig skilja sem höfuðleðri barnsins hafi verið flett af enda líkir Halldór verknaði kennarans við slátrun:

„Henni fanst sér hefði verið slátrað. Líkami hennar var eins og blóðrunnið sundurhlutað kjöt“ (10)

aIMG_9834Ef til vill má segja að ljótleiki mannlífsins í þessari uppfærslu nái hámarki sínu í túlkun Ólafs Egils á berklaveika, drykkfellda kennaranum. Sú mynd sem hann dregur upp af mannræksninu er öll úthugsuð og þaulunnin með nákvæmri líkams- og raddbeitingu sem fær hárin til að rísa á áhorfendum. Um leið er varla hægt að verjast hlátri, vandræðalegum hlátri sem aðeins verður til þegar maður verður vitni að yfirgengilegri skringihegðun sem í þessu tilviki leiðir til grófrar misnotkunar og sálarmorðs. 
Annað dæmi sem sýnir hvernig leikstjóri sýningarinnar vinnur með hugmyndina um samruna manns og skepnu er þegar Finna (Lilja Nótt Þórarinsdóttir) fæðir honum enn eitt andvana barnið. Á leiksviðinu sjáum við leikkonuna standa upp við múrinn og snúa baki í okkur á meðan Bjartur fer uppundir pils hennar til að ná í barnið rétt eins og hann væri að embætta ær í sauðburði. Og þegar hann hefur grafið barnið í moldinni á leiksviðinu þar sem þrír krossar vitna um fyrri barnadauða á bænum, þá kafar hann aftur undir pils konu sinnar til að draga úr henni blóðuga fylgjuna sem hann grefur líka með berum höndum sínum.
 Finna seinni kona Bjarts rennur hreinlega saman við kúna Búkollu sem fjölskyldunni er gefin af hreppstjóranum á Útirauðsmýri í óþökk Bjarts. Á afar skýran og táknrænan hátt er Finna færð í skrokkshúðina af Búkollu af sjálfum hreppsstjórasyninum. Of langt gengið gæti sumum fundist en allt er þetta vandlega undirbyggt með texta Halldórs sem lætur Bjart horfa öfundaraugum á samband Finnu og Búkollu með eftirfarandi hætti sem eiga með sér samband sem hann hefur engan aðgang að:

„Og annan morgun, þegar Bjartur kom út, fann hann konu sína hjá kúnni, hún var búin að embætta hana og stóð við hliðina á henni á básnum, klóraði henni og talaði við hana“ (11)

Bjartur sjálfur gerir lítinn greinarmun á konu og kýr og hann finnur ekki heldur guð í kúnni sem Finna gerir líkt og Hindúar. Hans guð er í sauðkindinni sem er æðri en allar kýr heimsins samanlagðar. Kýrin er óþörf, fyrirferðarmikil og étur þar að auki frá rollunum hans. Það þarf að losna við slíkar skepnur úr Sumarhúsum.

Þegar Bjartur manar son sinn Helga (Þórir Sæmundsson) til að slátra kúnni Búkollu, fremur Helgi móðurmorð í táknrænni merkingu. Hann stingur júgrin á kúnni á hol en þau hanga um háls leikkonunnar eins og viðbót við hennar eigin brjóst og um leið og fyrsta hnífsstungan hæfir þau, vætlar blóð út um munnvik Finnu.

Dauði Helga elsta sonar Bjarts og útfærsla hans á leiksviðinu er í fullu samræmi við það sem leikstjórinn hefur lagt upp með, hann túlkar endalok persónunnar afar djarflega. Samkvæmt Halldóri verður Helgi úti eftir dularfullu ærdrápin í Sumarhúsum en í uppfærslu Þorleifs Arnar fer ekki milli mála að Helgi fremur sjálfsmorð. Hann steypir yfir sig fötu fullri af blóði og situr eftir það sem hræ alblóðugur upp við múrinn en á honum hefur verið skrifað stórum „graffiti“ blóðstöfum: Kólumkilli var hér. Enginn þarf að efast um endalok Helga, hann er barnið í hópnum sem fer fyrstur í hundana, barnið sem ekki þolir meira af harðýðgi, þrælkun og einangrun Bjarts.

 

 

Kólumkilli var hér

Á sama hátt og Kólumkilli ríður röftum í sögunni um Bjart í Sumarhúsum má segja að hann geri það líka í sviðsetningu Þorleifs Arnar. Hún er dimm og draugaleg að því leyti að hún magnar upp texta Halldórs og býr til úr honum miskunnarlausan leikhúsgjörning sem oft er býsna hrollvekjandi og veldur ónotum hjá áhorfandanum. Hún gefur fyrirheit um að nýtt leikhús sé í fæðingu, leikhús sem ber ekki óttablandna virðingu fyrir þekktum helgimyndum í menningu okkar. Hún leyfir sér að ganga á skjön við eldri túlkanir, leita að nýjum aðferðum til að tjá og endurskapa bókmenntaarfinn á leiksviði.

Með því að fara óvæntar leiðir er saga Halldórs opnuð með nýjum lykli. Sá lykill veitir aðgang að fleiri hólfum sögunnar og þýðir hana yfir á leiksviðið án þess að „milda“ hinn upprunalega texta. Inni í hólfunum sem nýir lyklar opna, má skoða orðin í texta Halldórs upp á nýtt og láta þau fæða af sér lifandi myndlistar- og leikgjörninga í sviðsetningunni. Miskunnarleysi leikstjórans gagnvart viðfangsefninu skilar sér í óvæntu helgimyndarbroti á leiksviðinu sem er niðurnjörvað með ákveðinni fagurfræði eins og hér hefur verið sýnt fram á. Aðferðin og stefnan er skýr, hér er enginn rétttrúnaður á ferðinni (nema við sjálfan sig) heldur áframhaldandi leit að merkingu með áherslu á fjölskyldusögu Bjarts.

Það má vel vera að þetta hafi ekki verið Bjartur allra eða þau Sumarhús sem fólk hafði í huga, hvað þá „réttur“ skilningur á sögu Halldórs. Hinsvegar kemst maður ekki burt frá Bjarti eða hans Sumarhúsum ekkert frekar en Ásta Sóllilja. Hann fylgir manni lengi eftir að leiksýningunni lýkur. Kólumkilli leikhússins var örugglega hér. Mikið hefði þó verið gaman ef sólarlagið hennar Hallberu í Urðarseli hefði fengið að brjótast í gegnum glufu á steinsteypumúrnum svona í blálokin þegar ljóst er, að allt sem Bjartur hefur trúað á og talið líf sitt snúast um, er farið veg allrar veraldar.

Var þetta gott leikhús? Hvað er gott leikhús? Er það að fá margar Grímutilnefningar eða bara eina, eins og í þessu tilviki? Eitt er víst, leiksýningin Sjálfstætt fólk var óvægin við viðfangsefni sitt, það fór fram ákveðið helgimyndabrot, hún þorði að sýna okkur ljótleikann í sögu Halldórs og umfram allt – hún vakti upp sígildu spurningu sem aldrei verður hægt að svara til fullnustu. Hvað er gott leikhús?

aIMG_1971

 

 

Eftirmál
(1) Sýningargreining mín er byggð á þremur sýningum sem ég sá af Sjálfstæðu fólki í janúar, febrúar og mars 2015.
(2) Englar alheimsins, leiksýning á stóra sviði Þjóðleikhússins 2013 gerð eftir samnefndri skáldsögu Einars Más Guðmundssonar.
(3) Sú leikgerð var eftir Kjartan Ragnarsson sem einnig var leikstjóri. Leikgerðin var í tveimur hlutum og Ingvar E. Sigurðarson lék Bjart yngri á meðan Arnar Jónsson lék Bjart eldri.
(4) Forskeytið ,,meta” er grískt að uppruna og þýðir ,,eftir” eða ,,utan við” og í samhengi leikhússins er átt við efni sem er bætt við og stendur utan við aðalfefni eða eiginleika þess verks sem tekið er til sýningar.
(5) Lagið var fyrst flutt af hljómsveitinni Hjaltalín og er eftir Togga en textinn er eftir Pál Óskar.
(6) 
Sjá nánar Mojca Kuplen: The Aesthetics og Ugliness – A Kantian Perspective. Proceedings of the European Society for Aesthetics vol. 5 2013. Sótt á veraldarvefinn www.eurosa.org í maí 2015.
(7) Halldór Laxness. Sjálfstætt fólk. Reykjavík 2007. Vaka Helgafell. Bls. 375.
(8) Ibid. Bls. 84. Undirstrikun mín.
(9) Ibid. Bls. 342. Undirstrikun mín.
(10) Ibid. Bls. 373. Undirstrikun mín.
(11) Ibid. Bls. 199. Undirstrikun mín.

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone