Konur úr Vesturbænum – Við sem erum blind og nafnlaus eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur

Vid_Sem_Erum_Nafnlaus

Að eiga í sambandi við ljóð er eins og að eiga í sambandi við manneskju. Stundum myndast tengsl af því að ljóðið var lesið á réttum tíma, í réttu hugarástandi, á réttum stað. Þessi tengsl hefðu kannski ekki myndast undir neinum öðrum kringumstæðum en skipta máli og eru merkingarþrungin einmitt á því augnabliki. Það eru tengslin sem skipta mestu máli, meira máli en fullkominn skilningur á því sem ljóðið á að miðla. Það er einhver tilfinning sem vaknar og situr eftir. Tilfinningarnar skilja sumt sem rökhugsunin mun aldrei ná utan um svo vel sé.

Strax á fyrstu blaðsíðu ljóðabókar Öldu Bjarkar Valdimarsdóttur, Við sem erum blind og nafnlaus, mynduðust slík tengsl milli mín og ljóðanna. Þau eru fremur stutt en full af augnablikum sem eru í senn hversdagsleg og stórfengleg. Ljóð Öldu Bjarkar eru rík af myndum og táknum sem ganga upp á sama hátt og draumar ganga upp, ekki alveg en þó alveg fullkomlega. Bókin er fyrsta ljóðabók Öldu en áður hefur hún birt ljóð í Tímariti máls og menningar og Stínu auk þess sem hún var valin Háskólaskáldið 2013 í ljóðasamkeppni Stúdentablaðsins.

Þögnin skiptir máli

Stíllinn er áhrifaríkur í einfaldleika sínum. Í ljóðunum eru dregnar upp myndir sem lesandinn þekkir vel, gamalkunnar myndir af heimilislífi og samskiptum við samferðafólk. Í þessum myndum búa svo ýmsir snúningar þar sem tilverunni er fimlega hvolft og allt verður eins og örlítið valt og undarlegt. Þar er rými til túlkunar og skilnings á því sem er almennt svo óeftirtektavert. Þögn og tungumál er eitt aðal efni ljóðanna og miðlar formið sjálft ákveðinni þögn, einskonar augnabliks pásu milli ljóða þar sem öll merkingin hvílir. Þetta stílbragð minnir þannig að einhverju leyti á myndasöguformið þar sem sagan verður til í auða rýminu milli ramma. Merking ljóðanna felst því ekki síður í því sem ekki er sagt.

Ástarljóð Öldu Bjarkar komu mér sennilega mest á óvart þar sem ég átti hvað erfiðast með að tengjast þeim, í það minnsta í fyrstu. Þegar ljóðin eru lesin eru ástin og óskin um frelsi eða dauða svo samofin að stundum er erftitt að greina þar á milli. Í endurlestri þeirra ljóða hvarflaði að mér að ástin sé kannski dálítið þannig, hún er í það allra minnsta ekki einföld og flöt rómantík heldur eru alltaf átök í ástinni. Dauði hefur fleiri hugmyndafræðilegar merkingar innan bókmennta þar sem hin eilífa hringrás lífs og dauða er vel þekkt minni. Dauðinn er líka tengdur hinni mestu líkamlegu sælu, fullnægingunni eða „le petit mort“ eins og Frakkar segja og eiga þá við það þegar meðvitundin leysist upp í alsælu augnabliksins. Hér eru ástin, erótíkin og dauðinn á sama diski.

Mæður og dætur allra alda

Áhrifamestu ljóðin voru þau sem fjalla um tengsl ljóðmælanda við móður sína og dóttur – þessi sérstaki heimur kvenna sem engin sem ekki hefur kynvitund konu getur skilið. Þetta endurlit á sér stað í rými þar sem tíminn hefur hreinlega fallið saman og samband þriggja ættliða kvenna endurspeglar tengsl allra kvenna, nú sem áður. Heimur bókmennta (og kvikmynda og menningarinnar allrar) virðist oftar en ekki vera ansi upptekinn af uppgjöri barns við föður annars vegar og hins vegar uppgjör sonar við móður eða föður. Í ljóðum Öldu Bjarkar er ekki þetta uppgjör, bara upplifun ljóðmælanda sem sjálf er orðin móðir en er samt enn dóttir.

Ljóðin um mæður og dætur hefðu alveg átt skilið sína eigin bók. Það er þó kannski heiðarlegra að segja að mig sjálfa langaði að lesa fleiri ljóð um þessi sambönd kvenna því Við sem erum blind og nafnlaus myndar góða heild í sjálfri sér. Alda skrifar fallega og vel og af svo miklum skilning á reynsluheimi kvenna. Textinn er laus við tilgerð eða upphafningu á þeim tímum sem liðnir eru en einnig án sérstakrar eftirsjár. Ljóðmælandinn miðlar næmni fyrir því hvernig það er að vera kona og móðir á sama tíma og hann, eða öllu heldur hún, stendur í ákveðinni fjarlægð frá umfjöllunarefni sínu – það virkar mótsagnakennt, ekki satt? Svona eru ljóð, góð ljóð í það minnsta.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone