Kvikmyndagagnrýni um Lulu, femme nue í einum þætti fyrir þrjá leikendur og þvottavél

klisja_Lulu femme

Dramatis personae

Gréta Sigga – greinarhöfundur

Nanna – systir hennar

Étienne – meðleigjandi Nönnu frá Sviss (utan sviðs)

1.      þáttur

(Tjaldið er dregið frá og við sjáum inn í eldhúsið í kjallaraíbúð í miðbænum. Innan úr stofunni heyrist í Étienne leika á gítar. Gréta situr á gólfinu með blað og blýant fyrir framan sig. Allt umhverfis hana liggja verkfæri og sundurlimuð þvottavél. Nanna stendur hálfbogin yfir tromlunni úr vélinni og er að bisa við að laga skrúfgang sem hefur aflagast.)

Gréta: Nei, þetta er ekki alveg beint svona.

Nanna: En núna?

Gréta: Já, betra. (Einbeitir sér að blaðinu fyrir framan sig) En hvað fannst þér þá um myndina?

Nanna: Hún var bara mjög fín. Veit samt ekki alveg hversu trúverðug hún var. Í byrjun var Lulu algjör gólfmotta sem lét allt yfir sig ganga, en tveimur atriðum seinna var hún farin að synda nakin í sjónum með manni sem hún var að kynnast.

Gréta: Já, það er rétt, breytingarnar voru rosa miklar og áhorfandinn fær heldur ekki að sjá neinn hvata að þessum breytingum. Allt í einu bara missir hún af lest heim til sín og ákveður að verða ný manneskja.

Nanna: já, þessi byrjun var kannski bara ekki alveg málið. Hún er eiginlega í rosa litlu sambandi við restina af myndinni. Svo var eitt smáatriði sem fór alveg rosalega í taugarnar á mér, okkur er sagt að hún sé ekki með neina peninga á sér og þess vegna verði hún að sofa á götunni, en svo var hún alltaf með eitthvað klink á sér, sem hún gat keypt sér kaffibolla fyrir.

Gréta: Já, einmitt! Kannski er reyndar algengara í Frakklandi að fólk sé með einhvern pening á sér, en reiði sig ekki eingöngu á að vera með kort. Mér fannst skrýtnara hvernig bláókunnugt fólk var tilbúið að leyfa henni að gista hjá sér, bæði maðurinn og gamla konan.

Nanna: já, reyndar. Samt kannski alveg rökrétt, hún var einmana og hann greinilega svolítið öðruvísi.

Gréta: Rétt. En hún er fyndin, eins og í atriðinu þegar hún reynir að ræna veskinu, eða öllum atriðunum með bræðrunum. Þessir bræður voru reyndar kapítuli út af fyrir sig. Þeir voru ótrúlega skemmtilegir, en þeir gerðu mér erfitt fyrir að átta mig á myndinni. Í byrjun er allt gráleitt, ótrúlega raunsætt, þarna er kona komin af léttasta skeiði sem á erfitt í lífinu, henni er hafnað um vinnu og maður hugsar ósjálfrátt „já, þetta er svona raunsæismynd“. Hún lítur út eins og algjör andstæða Hollywoodmyndar. En svo birtast þessir bræður sem eru svona litríkir og skrýtnir og síðan verður restin af myndinni einhvers konar skrýtin blanda af alvarlegri indie-mynd þar sem á að sýna veruleikann en ekki glansmynd og rómantískri gamanmynd.

Nanna: Já, einmitt, hún er alltaf í einhverjum ótrúlega „shabby“ bæjum. Ef þetta væri bandarísk mynd hefði hún likast til miklu frekar verið í einhverjum ótrúlega fallegum strandbæ þar sem gullfallegur maður heillaði hana upp úr skónum.

Gréta: Já, þessi karlhetja var ekki beint neinn George Clooney. Annars vekur þetta mann til umhugsunar um hverskyns myndir það eru sem eru valdar á svona hátíðir. Við sjáum svo sjaldan franskar myndir í bíó en þegar þær koma þá eru það yfirleitt myndir sem eru gerólíkar Hollywood-myndunum sem maður er vanur. Fólkið er fjölbreyttara og sögurnar líka. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé eðlilegur þverskurður af þeim myndum sem gerðar eru í Frakklandi? Eða hvort það séu frekar grasrótarmyndir frá sjálfstæðum kvikmyndagerðarmönnum sem verða fyrir valinu.

Nanna: Já, fyrir marga Íslendinga er frönsk kvikmyndagerð náttúrulega bara þessar tíu myndir á ári sem koma á hátíðina. Eða jafnvel kannski bara ein eða tvær myndir sem verða vinsælar og eru sýndar áfram eftir hátíðina, eins og The Intouchables.

Gréta: Já, einmitt, við fáum kannski frekar skakka mynd af þessu.

Nanna: Svo er eitt, ég tengdi engan veginn við aðalpersónuna.

Gréta: Nei, er það ekki? Mér fannst að minnsta kosti áhugavert hvað hún var raunveruleg eitthvað. Bara fullorðin kona með hrukkur sem klæddi sig eins og öll fötin hennar væru keypt i Hagkaup. Mér fannst alveg eins og hún gæti verið mamma einhvers sem var með manni í grunnskóla eða eitthvað.

Nanna: Já, reyndar. Hún var bara svo geðveikt ömurleg þarna í byrjun, ég fann enga samúð með henni. (Hækkar róminn) Þetta virkar bara ekki, hvernig getur þetta bara ekki virkað?! Já, aftur að myndinni. Það gerðist kannski ekki mikið í henni, en hún var samt algjörlega „heartwarming“. Gamla konan var frábær. En sorgleg.

Gréta: Allar persónurnar í myndinni voru svolítið sorglegar.

Nanna: Já, þetta var fullt af sorglegu fólki að bjarga hvort öðru.

Gréta: Já.

(Þögn)

Gréta: Myndir þú mæla með myndinni?

Nanna: Það fer eftir því við hvern ég væri að tala. Ég myndi ekki mæla með henni við strákana í vinnunni, en ég myndi mæla með henni við mömmu.

Gréta: Já, einmitt. Heldurðu að það gæti verið af því að myndin fjalli aðallega um konur og kvennavandamál?

Nanna: Já, kannski, að þeir myndu ekki tengja við umfjöllunarefnið. En ég meina, ég tengdi alls ekki við þessa konu til dæmis. Hún var svo ótrúlega veikburða eitthvað. En það eru kannski bara margar konur svona, þær sem eru í ofbeldisfullu sambandi.

Gréta: Já. Jæja, það er kannski ekki mikið meira að segja um þessa mynd. Mér fannst reyndar svolítið gaman hvað það voru margar mismunandi kvenpersónur. Sérstaklega leiðinlegi yfirmaðurinn á kaffihúsinu, það er hlutverk sem að ég held væri frekar leikið af karlmanni í flestum hefðbundnari bandarískum myndum.

Nanna: Já, einmitt, þær voru af öllum toga.

Gréta: En þetta var samt frekar einföld saga. Það gerðist aldrei neitt sem ég bjóst ekki við að myndi gerast, ef þú veist hvað ég á við. Flókin vandamál eins og ofbeldisfullt hjónaband og einmanaleiki í ellinni voru leyst á rosa einfeldningslegan hátt einhvern veginn. Allt gekk upp á alltof einfaldan hátt  þannig að á endanum var þetta algjör feel-good mynd, en skildi ekki beint mikið eftir sig.

Nanna: Er þetta beint?

Gréta: Já, núna er þetta beint. Hvað segirðu, er þetta kannski frekar mynd sem maður horfir á með mömmu sinni á sunnudagskvöldi en eitthvað til að sjá í bíó?

Nanna: Jú, ætli það ekki. Sko það að það sé auðveldara að snúa þessu núna, þýðir allavega að ég sé líkast til að hitta á réttan skrúfgang.

Gréta: Ég ætla að setja í gagnrýnina mína að þú hafir verið að gera við þvottavél allan tímann sem við ræddum þetta.

Nanna: (kallar) Étienne, I‘ve fixed it! I‘ve discovered this amazing tool!

Étienne: Is it a giant hammer?

Nanna: (hlær) Já, ég veit ekki. Ég hugsa að mig myndi til dæmis ekki langa að sjá hana aftur.

Gréta: Nei, það er rétt. En sumar myndir þarf maður heldur ekkert að sjá aftur. Það þurfa ekkert allar myndir að vera svo epískar að maður horfi á þær hver einustu jól.

Nanna: Já, þetta var alveg fín mynd. Hún var góð myndi ég segja, og fyrri parturinn var skemmtilegur, sko fyndinn.

Gréta: Já, hún flattist kannski aðeins út undir lokin. Eitt með þessa mynd, af því hún var ekkert rosa alvarleg, og eiginlega bara svona feelgood mynd, þá hefði ég eiginlega bara frekar vilja sjá þau fara alla leið í því. Hafa aðeins snyrtilegra umhverfi og aðeins fallegra fólk og aðeins meira af fyndnum atriðum.

Nanna: Já, kannski. Eins og ég tengdi ekki við hana og fannst maðurinn ekkert myndarlegur.

Gréta: Ókei, er þetta ekki bara komið. Lokaorðin? Í einni setningu.

Nanna: Ehh… Ágætis skemmtun?

Gréta: Já, er það ekki bara?

(Tjaldið fellur)


Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone