Léttöl í bjórlíki

rsz_1photo_4

Í hjarta Reykjavíkur stendur matvörubúð. Þar eru hlutir seldir dýru verði og þangað fara Íslendingar aðeins ef þá sárlega vantar eitthvað og það er lokað í ódýru búðinni. Nú eða þegar dómgreindin þrýtur í kjölfar næturlangrar vöku í miðbænum. Þangað sækja þó fjölmargir erlendir ferðamenn, sem flestir dvelja í miðbænum og vita einfaldlega ekki af öðrum búðum, og út á það er svo sem ekkert hægt að setja. Þegar gengið er inn í búð þessa þá blasir við manni stór kælir, kyrfilega merktur og sneisafullur af einhverju sem við fyrstu og aðra sýn virðist vera bjór. Í þennan kæli sækja ferðamenn eins og mý á mykjuskán og trilla heim á leið fullir tilhlökkunar um yndislega kvöldstund í góðra vina hópi með Bakkus gamla á kantinum. CIMG3020

Svekkelsi í nánd

Það er vel hægt að ímynda sér að margir verði svekktir þegar það kemur svo í ljós síðar um kvöldið að þeir keyptu léttöl í bjórlíki. Það má reyndar færa rök fyrir því að þetta sé þeim einum að kenna sem keyptu vöruna. Það er jú á þeirra ábyrgð að lesa utan á pakkningarnar, og því sökin að hluta til þeirra. Það er hins vegar svo að Ísland stendur nánast sér á báti í að leyfa ekki bjórsölu í matvöruverslunum og því býst hinn almenni ferðamaður ekki við því að þetta sé neitt annað en það sem það lítur út fyrir að vera. Fyrir þeim er jafn sjálfsagt mál að kaupa léttáfenga drykki úti í búð eins og fyrir okkur að kaupa mjólk eða brauð. Þetta vita verslunareigendur og er því greinilegt að verið er að plata fólk til að kaupa aðra vöru en það upphaflega ætlaði sér. Ég leyfi mér að fullyrða að eftirspurn eftir léttöli er ansi langt frá því að vera það mikil að ástæða sé til að halda úti troðfullum kæli á mest áberandi staðnum í búðinni.

Svindlið afhjúpað

Til að staðfesta grun minn á ráðabrugginu gerði ég það að gamni mínu um daginn að rölta um búðina og spjalla við ferðamenn, sem án undantekninga höfðu allir nokkrar slíkar dósir í körfunni sinni. Kom þá í ljós að allir töldu þeir sig vera að kaupa bjór og fóru því umsvifalaust og skiluðu vörunum aftur í kælinn. Það væri ósanngjarnt að kalla þetta vörusvik en þetta eru í það minnsta viðskipti á afar lágu plani og bara illa gert gagnvart ferðamönnum sem koma alla leið til Íslands til að dást að fegurð lands vors og þjóðar. Ef þetta eru þær aðferðir sem við notum til að plokka peninga af túristum þá erum við svo sannarlega á vafasömum stað í okkar þróun. Leið okkar á hærra stig siðmenntunar gæti byrjað á kurteisi gagnvart löngu bjórvæddum þjóðum.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone