Ljóð vikunnar: Valgerður Þóroddsdóttir

Ljóð í leiðinni -bakkápa

 

Borgarbrim

flökurt af hungri

réttum við úr okkur í ræsinu

og snertumst

eins og unglingar

 

fugl í þakrennunni

ofan okkur

roðnar

bráðnar

og fellur til jarðar

 

innst inni inní mér

eru stræti

afmörkuð vatni,

glansandi bleytu

 

þar geymi ég saltið

og rennilásana

 

COVER

 

 

 

Ljóðið „Borgarbrim“ eftir Valgerði Þóroddsdóttur var frumbirt í bókinni „Ljóð í leiðinni: Skáld um Reykjavík“, sem kom út hjá Meðgönguljóðum í tilefni af Lestrarhátíð 2013.
Fyrsta ljóðabók Valgerðar, „Þungir forsetar“, kom út í röð Meðgönguljóða vorið 2012.
Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone