Ljóðasamkeppni Hinsegin daga

Rainbow_flag_and_blue_skies

Þann 11. ágúst síðastliðinn voru gerð ljós úrslit í ljóðasamkeppni Hinsegin daga og Sirkústjaldsins. Því er ekki seinna vænna en að birta vinningsljóðin.

Þátttakan í keppninni var góð og voru ljóðin margvísleg og skemmtilega fjölbreytt. Drepið var niður á mörgum sviðum mannlífsins og ýmsum hliðum tilverunnar velt upp. Vinningsljóðin þrjú voru tillkynnt á húslestrarkvöldi Hinsegin daga, sem fram fór á Stúdentakjallaranum.  Eymundsson á Austurstræti gaf verðlaunabækurnar og við kunnum þeim þakkir fyrir.

Einnig þökkum við góða þátttöku og hlökkum til að endurtaka leikinn að ári.

Vinningsljóðin voru tvö tölusett ljóð, „VIII“ og „X“. Dómnefndin varð örlítið vonsvikin yfir því að ekki mátti upplýsa um raunverulegt nafn höfundar en hér með verður bætt úr því.

Þórhalla G. Beck sendi okkur þennan texta til kynningar á höfundi ljóðsins, honum BFB, og höfundi höfundar ljóðsins, Þórhöllu sjálfri: Í risíbúð á Leifsgötu býr samkynhneigt skúffuskáld að nafni Benjamin Franklin Baar, af Delawerskum ættum. Hann fæddist á sviði, bókstaflega, en hann er lítið fyrir að sviðsljós því spáð hefur verið að hann muni deyja á sviði. BFB er fæddur 1976, en þegar faðir hans lést úr krabbameini 2004 fór hann í ferðalag á vit föðurforfeðranna til Noregs. Þaðan elti hann ástina til Reykjavíkur 2006, og hefur búið þar síðan. Ljóðin hans finnast hér og þar, yfirleitt í felum, en hann myndi fyrr byrja að tala um prjónaskap en ljóðagerð. BFB er líka hugarburður. Annars skúffuskálds sem býr í Árbæ og skilgreinir sig sem tvíkynhneigt hversdags, en sapiosexual til hátíðarbrigða. BFB er aðalsögupersóna bókar sem ber heiti aðalsögupersónunnar og dvelur einnig í skúffu um þessar mundir. Hið raunverulega skúffuskáld gegnir ýmsum nöfnum, meðal annars Þórhalla G. Beck, Tex og mamma.

Í öðru sæti lenti Ásta Kristín Benediktsdóttir með ljóðið „Hvíslaðu“. Ásta er íslenskufræðingur og doktorsnemi í íslenskum bókmenntum.

Þriðja sæti náði Anton Helgi Jónsson með ljóð sitt „Leikrit um stelpu og strák“. Anton fæddist árið 1955 í Hafnarfirði. Anton lagði stund á heimspeki og bókmenntafræði en auk þess að fást við ritstörf hefur hann m.a. starfað við auglýsingagerð og almannatengsl. Hann hefur sent frá sér átta ljóðabækur og einna mesta athygli vakti bálkurinn Ljóð af ættarmóti. Á seinni árum hefur Anton einkum birt ljóð á samfélagsmiðlum, auk þess sem hann heldur úti eigin vefsíðu með ljóðum, www.anton.is.

VIII

we are the whores                     við erum hórurnar
shameless                                   skammlausar

the honestest boys                   heiðarlegustu drengirnir
virgin born                                 eingetnir

we are pŷthōn                           við erum fíton
and mímir                                  og mímir
samson and odin                     samson og óðinn
all together                                allir saman

would stab your eyes out     myndum stinga úr þér augun
for one word                           fyrir eitt orð

sell all our possessions         selja af okkur aleiguna
for the mead                            fyrir mjöðinn

X

one by one                                                 ein og ein
ideas                                                           hugmynd
wreathe up                                                þyrlast upp
hurtle in circles                                        þeytist í hringi
and waft to eath                                       og svífur til jarðar

one by one                                                 ein og ein
sentences                                                   setning
try to convince me                                   reynir að sannfæra mig
of the value of life                                    um gildi lífsins
and the mind                                            og hugarins

one by one                                                 eitt og eitt
words                                                          orð
die deyr
in a fathers womb                                    í föðurkviði
unmarked                                                  ómerkt

after all this time                                      eftir allan þennan tíma
that the earth has swallowed                 sem jörðin hefur gleypt
i am still sodden                                       er ég enn gljúpur


HVÍSLAÐU

Hvíslaðu

hleyptu orðunum út
í mistrinu
þar sem votar varir
snerta eyrnasnepil.

Segðu þeim að
líta ekki um öxl
fylgja vörðunum
og víkja aldrei af slóðinni

Brýndu fyrir þeim
að láta ekki glepjast
af girnilegum bláberjaþúfum
ilm af fjalldrapa
mjúkum lautum
eða sæluhúsum.

Þau verða að halda áfram
mega ekki villast!

Vísaðu þeim veginn
alla leið
inn í kvikuhólfið
við rætur hjartans

þar er allt til reiðu
fyrir hamfarir.


Leikrit um stelpu og strák

Það var leikrit um stelpu og strák.
Stelpan fór að leika strák
en strákurinn að leika stelpu.

Síðan fóru þau að leika saman
strákurinn sem stelpan lék
og stelpan sem var leikin af strák.

Þannig leið fyrsti þáttur og þau vissu ekki neitt.
Hún vissi ekki að hann, sem lék stelpu, var strákur.
Hann vissi ekki að hún, sem lék strák, var stelpa.

Í næsta þætti vildi stelpan, sem lék strák, breyta til.
Hún ákvað að leika strák, sem væri að leika stelpu.

Óvænt vildi strákurinn, sem lék stelpu, líka breyta til.
Hann ákvað að leika stelpu, sem væri að leika strák.

Þannig var allt leikritið og engan grunaði neitt.
Það var stelpa sem lék strák sem lék stelpu.
Svo var strákur sem lék stelpu sem lék strák.

Svo var líka önnur stelpa og hún lék strák sem þóttist vera strákur.
Svo var þarna strákur og hann lék stelpu sem þóttist vera stelpa.
Svo var önnur stelpa og hún lék stelpu sem þóttist vera stelpa.
Svo var annar strákur og hann lék strák sem þóttist vera strákur.

Þetta var leikrit um stelpu og strák.
Stelpan fór að leika strák
sem þóttist vera stelpa
og strákurinn að leika stelpu sem þóttist vera strákur.

Þannig var leikritið og engan grunaði neitt.
Þannig var lífið og enginn vissi neitt.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone