Magnaður Mávur

Mávurinn
Mávurinn

Leikritið Mávurinn eftir Anton Tsjékhov í leikstjórn Yana Ross er sýnt í Borgarleikhúsinu um þessar mundir. Leikritið er eitt af þekktustu verkum leikskáldsins en það var frumflutt í Moskvu árið 1896. Með burðarhlutverkin að þessu sinni fara Björn Stefánsson, Björn Thors, Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Snær Guðnason, Jóhann Sigurðarson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.

Ég hef haft það fyrir sið þegar ég fer að sjá bíó eða leikhús að vilja sem minnst vita fyrirfram, ég er ein af þeim sem get ekki hugsað mér að horfa á stiklu úr bíómynd áður en ég horfi á myndina. Ég vil láta koma mér á óvart. En með klassísk verk eins og Mávinn er það auðvitað ekki hægt.
Eða það hélt ég.

Bolur inn við bein

Ég hélt að ég vissi nokkurn veginn hvað ég var að fara út í þegar ég skundaði í leikhús á fallegu fimmtudagskvöldi og hlakkaði mikið til þótt ég ætti ekki von á óvæntum uppákomum, því ég vissi sem var að leikritið er stórkostlega skrifað. Þegar leikhúsgestir gengu inn í salinn sat Björn Stefánsson á sviðinu og beið eftir okkur. Þegar kyrrð komst á hóf hann einræðu sem hann tók upp á myndband og var því varpað upp á skjá að baki honum. Strax varð mér ljóst að búið væri að nútímavæða verkið og ég varð spennt því það gaf mér fyrirheit um að ýmislegt óvænt gæti gerst. Ég sökk pínulítið niður í sætið þegar hinir leikararnir ruddust á sviðið með látum og hófu að Íslandsvæða verkið. Salurinn skellihló því við sáum okkur í þessum íslensku aðstæðum þar sem plebbisminn, eða bolur eins og þykir víst smart að kalla plebbann í dag, reið húsum. Það þekkja allir týpurnar; hinn dæmigerða íslenska aula sem vegna skorts á sjálfsöryggi reynir að gera öllum til hæfis og mistekst því engin virðir þann sem virðir ekki sjálfan sig, óhamingjusömu stúlkuna sem virðist nærast á því að taka rangar ákvarðanir, unga þjáða listamanninn sem þráir viðurkenningu og mömmuna sem hefur nákvæmlega engan tíma fyrir annað en sjálfa sig.

Hversdagurinn mótar okkur

Lífið birtist leikhúsgestinum svo kristaltært í Mávinum. Það er eins og að fá að skyggnast inn í framtíðina og sjá hvaða afleiðingar það hefur að feta brautina sem við veljum okkur. Að átta sig á því að lífið er ekkert nema það sem við veljum og það sem við veljum að gera úr okkar aðstæðum. Það eru ekki stóru ákvarðanirnar sem endilega móta líf okkar, heldur er það sem við gerum í hversdeginum það sem skiptir mestu máli. Á þennan hátt skrifar Tsjékhov verk sín enda eru þessi stef gegnumgangandi í flestum af hans verkum. Eric Bentley, bandarískur leikritahöfundur og leikhúsrýnir, segir Tsjékhov raða saman atburðum að því er virðist í náttúrulegri röð en á meðan þeir eigi sér stað á sviðinu, varpar hann smám saman ljósi á umfjöllunarefnið og aðstæður persóna sinna.

Maður, líttu þér nær

Í verkum Tsjékhov sjáum við lífið, eins og persónuna Pétur sem lítur yfir farinn veg og finnst hann ekki hafa áorkað neinu á sinni ævi. Þannig sjáum við áhorfendur svo ljóslifandi hans eigin ákvarðanir og hvernig þær hafa leitt hann á þennan stað; að þessari niðurstöðu hans um eigið líf. Hann hefur ekki áorkað neinu því hann aðhefst ekkert. Hann getur ekki einu sinni yfirgefið brúðkaupsveislu nema í fylgd með öðrum, því þannig manneskja er hann, ófær um að taka ákvarðanir, ófær um að láta til skarar skríða. Hann beinir sjónum sínum að lífi annarra sem hann telur eiga mun betra líf en hann sjálfur. Þetta stef fylgir flestum persónunum, þær vilja líf hverrar annarrar eða í það minnsta ekki það líf sem þær eiga. Táknin eru einnig mýmörg í leikritinu. Leikrit unga listamannsins, leikritið innan leikritsins, er tákn fyrir líf hans sjálfs. Hann reynir að hafa áhrif á fólkið í lífi sínu og gengur svo langt að mæla bókstaflega áhrifin með rafseglum og ýmsum tækjum. En líkt og líf hans sjálfs er það truflað af manneskjunni sem hefur ekki tíma fyrir hann né aðra, móður hans.

Lífið er klisja

Það væri auðvelt að keyra Mávinn á klisjunum einum, þær eru enda allt um kring. Hvað er lífið nema ein stór klisja? Að halda að maður finni upp hjólið í mannlegum samskiptum er blekking. En það er einmitt þessi tímalausi spegill mannlegrar hegðunar sem gerir Mávinn að ódauðlegu verki. Það eru hins vegar leikararnir sem forða honum frá því að verða klisjunum að bráð. Það var ekki veikan blett að finna í leikarahópnum og ætli það sé ekki klisja að segja að þeir hafi allir sýnt stórleik jafnt reyndir sem upprennandi leikarar. Að öðrum ólöstuðum fannst mér Björn Stefánsson bera af. Þvílíkir hæfileikar og að flétta trommusettið hans inn í verkið var listilega vel gert.
Meistaraverk. Það má plebbavæða þau og uppfæra en kjarninn er alltaf sá sami. Manneskjan er alltaf eins. Ástin er lífið. Án hennar er ekkert nema dauðinn.
Hann er magnaður þessi Mávur.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone