Minnið handan minninga

mynd 2

Sýning Beate Körner í SÍM salnum, 8.-26. apríl 2016

Minni og persónulegur minningaheimur voru kjarni sýningarinnar „Missing Memories“ sem þýska listakonan Beate Körner opnaði í SÍM salnum í Hafnarstræti þann 8. apríl. Þetta var afleiðing samstarfs við sýningarstjórann Haneen Hannouch, en saman unnu þær að því að átta sig á, raða og gefa ýmsu, sem hafði verið að safnast í hug Körner, form. Fleiri lögðu sitt af mörkum í verkefninu, sem kom fram sem margmiðlunarinnsetning með mikið af táknrænum skírskotunum. Hér var á ferð ákveðið uppgjör við minningar sem höfðu að vissu leyti mótað líf listakonunnar um skeið. Kannað var hvernig maður túlkar sína reynslu, hvernig hugmyndir um hana umbreytast og tengjast efnislegum hlutum – sem maður geymir eða ákveður að losna við. Áhugaverður punktur í sýningunni fannst mér að verkefni sem átti sínar rætur í einkaheimi minninga listakonunnar þróaðist í gegnum þátttöku margra annarra – með spennu sem felst í því og er e.t.v. á mörkum mótsagnar; slíkt opnar dyrnar fyrir sammannlegan þátt  sem gerist lykilatriði í endann.

mynd 1

Einkagjörningar fyrir opnun

Meðal sérkennilegra atriða sem komu við sögu í sýningunni var gjörningur og venslalistaverk sem haldið var „í leynd“ í sýningarrýminu fáum dögum fyrir opnunina. Fyrst var um að ræða gjörning sem Körner flutti einungis í viðveru spænsku listakonunnar Laura Andrés Esteban sem  tók hann upp. Þar var Körner með sæng á sér sem faldi efri hluta líkamans og hausinn, og gekk hægt afturábak að trésúlu sem er miðpunktur salarins. Hún fylgdi ósýnilegri leið í formi spírals en hreyfingin myndaði leiðarstef í sýningunni og gjörningurinn táknaði athöfnina sem fólst í ferðinni í gegnum lög af minningum. Síðan bauð Körner nokkrum kunningjum að taka þátt í venslalistaatriði. Hún hafði búið til nokkrar litlar trommur og á hverri stóð orð, orðin voru öll skýr og skilgreind en höfðu engu að síður  opna merkingu. Þátttakendur áttu að velja sér trommu út frá orðinu á henni og reyna síðan að endurkalla minningu tengda því; í lokin voru þeir beðnir að spila á trommurnar, sem þeir gerðu á margvíslegan hátt.

Atriðin tvö minna á gjörninga sem oft er haldið á opnunum og allir gestir geta sótt en hér voru þeir ekki aðgengilegir fyrir alla. Ef slíkt er í samræmi við eðli einkaheims minninganna þá aftur á móti  flæddu atriðin inn í sýninguna. Ýmis ummerki gjörninganna voru eftir á staðnum og mynduðu lifandi hluta sýningarinnar: Þau fylltu rýmið og gáfu tóninn. Trommurnar lágu hver og ein fyrir framan kodda í hálfhring og báru merki af spiluninni. Tvær hljóðinnsetningar voru unnar í samstarfi við ítölsku tónlistarkonuna Lisu Mazzocchi; í annarri heyrðist aftur í trommunum úr venslalistaatriðinu, hin var staðsett við borð í miðju salarins og sköruðust þar trommurnar og rödd Körner hvíslandi á móðurmálinu: „inn, afturábak, að miðjunni, byrjuninni, í gegnum lög minnisins, í gegnum sögur“. Myndbandsupptökur úr báðum gjörningunum voru líka fléttaðar saman í myndskeið, en með þessari athöfn var aftur verið að endurgera, setja upp og deila því sem gerðist – samhliða deilingu af minningum, sem í sínu eðli eru faldar.

Myndbandið var staðsett undir borðinu í miðju salarins:  Ef horft var á vörpunina sem myndaðist á dúknum utan frá, var myndin óskerpt (eins og óskýr minning eða framköllun á henni); ætlaða sýnin var þó sú sem gafst með því að lyfta dúknum og kíkja beint undir, líkt og barn myndi gera. Vissulega þurfti gesturinn að „þora“ að koma við listhlutinn, færa sig yfir mörk áhorfandans, en áskorunin fannst mér endurspegla aftur þann kjark og þor sem krafist er af uppgjörinu á eigin minningum sem sýningin spratt út úr.

mynd 2

Ímyndun, afmyndun, ummyndun?

Ef rýmið undir borðinu táknaði minnið – sem þyrfti að afhjúpa – þá voru þeir ólíku munir sem lagðir voru þar ofan á, efnislegar birtingar af minninu. Þetta voru hlutir sem Körner átti eða fann, og tengdi hún hvern og einn stuttri sögu. Sögurnar lýstu með  misskýrum hætti, atburðum og ástöndum – persónulegum minningum – og mátti lesa  þær á standi fyrir aftan borðið. Listakonan tók fram að sumar þessara sagna væru í raun skáldaðar – en ástæðurnar þar að baki voru mikilvægar. Í fyrsta lagi virðist umbreytingarferli gerast eðlilega í minninu, og snertir jafnvel þær minningar sem í fyrstu sýnast okkur skýrar og öruggar. Þannig verða sumar minningar hjúpaðar efa sem ættu að vera „alvöru“.Auk þess voru aðrar sögur sem Körner gat ekki vel greint hvort sannar væru eða ímyndaðar, eða hvar mörkin lágu þar á milli. Báðar gerðir af minningum hafa þó áhrif á mótun eigin sjálfsmyndar og hugmynda sem maður býr til um sína ævi og reynslu. Munurinn milli alvöru og uppgerðra minninga verður þannig fremur ómerkilegur.

mynd 3

Sameiginlegt einstaklingsgildi

Það má segja að með því að blanda viðkvæmum brotum úr einkalífinu saman við  opinskátt skálduðu efni er snilldarlega verið að sporna við ákveðinni „gægjuhneigð“ (svokölluðum „voyeurisma“) sem grípur oft gestinn í þessum tilfellum, hvöt til að forvitnast í einkalífi annarrar manneskju í gagnslausri leit að alvöru sögunni. En tilteknar staðreyndir úr ævi listamannsins sem einstaklings voru ekki sá kjarni sýningarinnar sem höfðaði og talaði til almenna áhorfandans. Kraftur og merkilegt gildi í sýningunni fannst mér í raun að hún byggðist á tvöföldum þætti: Annars vegar voru sérstakar minningar og framsetning þeirra, sem bentu til virkni minnisins og til sambands manns við sinn minningaheim. Listakonan vonaðist til þess að í þessum brotum úr sínu lífi (eða uppspuna) gætu gestirnir mætt einhverju sem framkallaði eigin minningar og hugsanir. Svipað og í hópgjörningnum þar sem orðin voru skilgreind en samt opin, og áttu ólík erindi við mismunandi fólk. Þá myndi hin tiltekna tilvist listakonunnar, sem eignar sér rými á opinberum vettvangi, kunna að kveikja álíka minnisreynslu hjá öðrum manneskjum og ná snertingu milli aðskildra tilvista. Hins vegar veitti hugmyndalistform sýningarinnar henni síðan kraft til að varpa inntakinu úr einstaklingsbundnum dæmum út í víðari skilning og sameiginlega vídd: Minnið sem almannamáttur og -arfur, sammannlegur innri heimur sem birtist hér í ósýnilegri umgjörð á minningum listakonunnar, birtist í sjálfri víddinni sem ferðin afturábak fór í gegn.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone