Morðingi verður til – Um þjáningu annarra, táknrænt réttlæti og ónæmi fyrir glæpasögum

making-a-murderer-netflix_tjgpqb

My parents were decent people, and I was raised, like my friend, to believe that Police were our friends and protectors – the Badge was a symbol of extremely high authority, perhaps the highest of all. Nobody ever asked why. It was one of those unnatural questions that are better left alone. If you had to ask that, you were sure as hell Guilty of something and probably should have been put behind bars a long time ago. It was a no-win situation.

– Hunter S. Thompson, Kingdom of Fear

 

Heimildarþættirnir Making a Murderer skarta ekki stjörnum á borð við Cumberbach, þeim er ekki leikstýrt af Spielberg og þeir eru ekki framleiddir af HBO, heldur fjalla þeir um eitt glæpamál þar sem raunverulegir lögmenn, lögregluþjónar og sakborningar koma fram. Þrátt fyrir þetta hafa þættirnir náð mikilli útbreiðslu og orðið eitt vinsælasta sjónvarpsefnið í dag. Þeir hafa einnig skapað háværa umræðu í kjölfarið um réttarkerfi Bandaríkjanna og hvernig fjallað er um sakamál. Í þáttunum er afhjúpuð hlið á einu morðmáli í Manitowoc-sýslu í Wisconsin fylki en snertir þó við bandarísku samfélagi í heild. Spurningin sem brennur á vörum fólks er sú hvort um sé að ræða stórfellda misnotkun kerfisins af hálfu yfirvalda á kostnað saklausra borgara. Er sjónvarpsefni farið að sinna starfi réttargæslu eða er glæpasagan mögulega að þróast?

Samúð með fórnarlömbum eða glæpamönnum?

Almennt á litið hafa glæpir loðað sterkt við sagnaheim okkar á vesturlöndum öldum saman. Engan þarf að undra þetta og dæmin finnast víða í bókmenntasögunni, allt frá Ilíonskviðu til Sherlock Holmes. Sögur af glæpum eru ekki bara afþreying, þær reyna á siðferðisvitund okkar, réttlætiskennd, og hugmyndir um sannleika og sekt. Þær drífa áfram forvitni okkar með óvissu sem gerir endalokin þeim mun meira fullnægjandi þegar réttlætið fær sínu framgegnt.

Í bókinni Um sársauka annarra veltir Susan Sontag því fyrir sér hvort vanlíðan og harmur fólks verði skilað óbjagað í gegnum miðla á borð við ljósmyndun. Sontag nefnir ljósmyndir úr stríði sem dæmi og heldur því fram að í þeim felist ákveðið vandamál. Slíkar myndir skapa í eðli sínu ímynd sem hægt er að túlka og misnota í þágu ákveðinna hagsmuna. Hún dregur í efa þá hugmynd að meðaumkvun manna og samkennd sé einlæg við þær aðstæður og að merking myndarinnar sé háð samhengi og reynslu þess sem horfir á hana. Tilfinningum áhorfanda, sem hefur engin önnur tengsl við þjáninguna en myndir, geti jafnvel verið lýst sem þórðargleði (þýs. shadenfreude); þeirri duldu sælutilfinningu sem fæst með því að fylgjast með þjáningu annarra úr fjarlægð, án ábyrgðar og afleiðinga.

Í hinni klassísku formgerð glæpasagna liggur samkenndin hjá fórnarlambinu. Sögufléttan er síðan púsluspil sem smám saman gefur mynd af hinum illa geranda sem á endanum fær makleg málagjöld. Sögufléttan leiðir til hentugrar lausnar á málinu, táknrænu réttlæti fæst fullnægt og lesandinn getur lagst rólegur til svefns. Glæpasagan hólfar hinar margvíslegu tilfinningar manna í þægilega flokka góðs og ills þar sem mörkin þar á milli eru afdráttarlaus. Sontag telur þetta vera megingallann í miðlun hörmunga (myndir úr stríði); hún veldur samslætti milli raunveruleika atburðarins og skáldskapar. Túlka má þessi rök með því móti að hlutlæg fréttaljósmynd hafi þannig sömu virkni út á við og Hollywood-kvikmynd um sama atburð.

Þvert á hina klassísku formgerð glæpasagna hefur vinsælt sjónvarpsefni síðustu 10 ára eða svo gjarnan dregið upp mun flóknara samband góðs og ills. Klassíska skilgreiningin dugar skammt í hinum póstmóderníska heimi þar sem túlka má alla sem glæpamenn að einhverju leyti og að sama skapi finna hið góða í öllum glæpamönnum. Dæmi um þetta eru þáttaraðirnar Breaking Bad, Fargo og Dexter. Í þeim segir frá aðalpersónu (í öllum tilfellum karlmaður), sem stendur frammi fyrir tilvistarlegum efasemdum um mörkin á milli illverka og góðverka.

Í Breaking Bad og Fargo er að finna svipaða undirtóna. Þar segir frá mönnum sem hafa um langt skeið verið þjakaðir af meðvirkni og undirgefni gagnvart vinnuveitanda og fjölskyldu. En þegar líf þeirra tekur alvarlegri beygju eftir óafturkræfan atburð verður ekki aftur snúið og báðir stefna þeir hraðbyr út á braut illverka og lyga. Ákvarðanir þeirra taka að einkennast af meiri ákveðni og skeytingaleysi gagnvart yfirvaldi í krafti þess að þeir komast upp með það. Þeir fá loks svo mikla stjórn á eigin lífi að þeir fyllast ofmetnaði (sem er mjög gjarnan kveikjan að falli hetjanna í grísku harmleikjunum). Í Dexter er ímynd hins góða og illa beinlínis blandað saman en þættirnir fjalla um mann sem vinnur hjá rannsóknardeild lögreglunnar en lifir einskonar hliðarlífi þar sem hann fullnægir eigin morðhvöt með því að myrða glæpamenn sem „eiga það skilið“.

Meðaumkvun áhorfanda í þessum þáttum liggur hjá glæpamönnum. Það er einmitt við þær aðstæður sem inntakið í klassískum glæpasögum um lögguna á hælum bófans brotnar í sundur og áhorfendur eru skildir eftir frammi fyrir mun flóknari og siðfræðilegri vangaveltum; er réttlæti, í víðasta skilningi þess orðs, alltaf eins svart á hvítu eins og lög gera ráð fyrir? Þegar hinn undirsetti og kúgaði beitir valdi til þess að fá réttlátari meðferð eða uppreisn æru sinnar er auðveldara að náða glæpinn. Það er auðveldara að halda með þeim sem brýtur af sér ef svindlað var á þeim.

Blekking lögregluvaldsins

Hin klassíska glæpasaga felur einnig í sér vissa blekkingu. Í raunveruleika samtímans er fjöldi sakamála enn óleystur og í þeim málum sem búið er að leysa var ekki endilega knúinn fram dómur sem fullnægði öllum. Samfélagið er einfaldlega flóknara en svo. Eitt frægasta óleysta glæpamál í samtíma okkar, hið svokallaða Geirfinnsmál, sýnir hvernig óleystir glæpir taka á sig goðsagnakennda mynd. Ef vafi er á því hvernig glæpurinn fór fram eða hverjir eru viðriðnir málið tekur skáldskapurinn við. Fólk þráir svo heitt að vita hverjar málalyktir voru, og sjá hinn seka leiddan í járnum inn í klefa, að til verða sögur um það.

Blekkingin hefur tvennt í för með sér: Í fyrsta lagi trúir fólk frekar á þá hugmynd að lögreglan sé óumdeilanlega góð í eðli sínu og leysi alla glæpi með almannahagsmuni að leiðarljósi. Í öðru lagi að lögreglan sé fullfær um að leysa öll mál með óyggjandi hætti. Í stuttu máli hefur glæpasagan mótandi áhrif á ímynd lögreglunnar. Lögreglan verður að ósnertanlegu fyrirbæri sem stingur aðeins vondu fólki í steininn og gerir aldrei mistök (eins og ofurhetjur).

Hér ætla ég að taka skref aftur á bak í fullyrðingum mínum og viðurkenna að undanfarin ár hefur borið á því að sögur um rannsóknarlögreglumenn (þetta á einnig við um sumar ofurhetjur) kafi dýpra ofan í saumana á aðalpersónunni. Oft er dregin upp mynd af breyskum einstaklingi sem hefur flækjur í einkalífinu og jafnvel vott af glæpahneigð. Þetta stílbragð þjónar þó aðeins sögufléttunni og gerir lesandann betur í stakk búinn til þess að samsama sig með aðalpersónunni og halda með henni. Hún verður að hafa vott af mennsku ef fólk á að geta treyst henni fyrir því að leysa alvarlegan glæp.

Afbygging valdaímyndar í Bandaríkjunum

Making a Murderer gerast innan dómskerfis sem Íslendingar þekkja ekki mjög vel (nema kannski úr kvikmyndum). Í Bandaríkjunum um þessar mundir eru mörg hitamál í umræðunni varðandi dómsvaldið; valdbeiting lögreglunnar, lausnatryggingar dóma, einkavæðing fangelsa, fjöldi fangelsaðra o.s.frv. Ef litið er á tölfræðina sitja gríðarlega margir í fangelsi fyrir léttvæga glæpi og það virðist í fljótu bragði sem afleiðing þess að lítil áhersla sé lögð á betrunaraðferðir og meiri áhersla á að losa samfélagið við einstaklinga sem fremja glæpi í sem lengstan tíma í því skyni að skapa öryggistilfinningu meðal borgaranna. Það sefar samfélagsóttann en getur valdið því að fólk verður fúsara til þess að sakfella fólk á forsendum lítils gruns eða jafnvel fordóma.

Einkavæðing fangelsa og stirt réttarkerfi hefur skapað afar eitrað lagaumhverfi í Bandaríkjunum. Í þessu taugaveiklaða umhverfi virðist það stundum vera kappsmál yfirvalda að ná að sakfella fremur en að leysa mál; að einhver verði blóraböggull eða andlit glæpsins svo hægt sé að halda flottan blaðamannafund og segja að „allt sé í lagi“.

Það er augljóst að Making a Murderer styðja vörnina í málinu sem fjallað er um. Þó eru engar ályktanir dregnar um sakleysi sakborningsins heldur einfaldlega bent á að of margar spurningar standi opnar svo hægt sé að dæma mann til æviloka. Þættirnir sýna breyskleika mannsins þvert á stéttir og stöður og afhjúpa hugsanlega misnotkun yfirvalda á því trausti sem það fær frá samfélaginu.

Vinsældir Making a Murderer sýna ákveðið stef í neyslumynstri glæpasagna. Samsláttur raunveruleika og skáldskapar hefur gert fólk ónæmt fyrir sakamálum og þess vegna dugir ekkert minna en blákaldur raunveruleikinn. Andhetjurnar í Breaking Bad, Fargo og Dexter eru aðeins dæmi sem sýna langvinna þróun raunsæis í frásögn glæpasagna. Áhorfendur trúa ekki lengur á fullkomna hólfaskiptingu góðs og ills einfaldlega vegna þess að hún á sér ekki stoð í raunveruleikanum. Þeir vilja illmenni með mjúkar sálir inn við beinið og þeir vilja hetjur með vafasamar kenndir og ljót leyndarmál.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone