Nafnlaus dóttir móðurinnar – eftir Ásdísi Ingólfsdóttur

Blekfjelagið logo

Blekfjelagið, nemendafélag ritlistarnema við Háskóla Íslands tók þátt í Lestrarhátíð á vegum bókmenntaborgarinnar Reykjavíkur í október síðastliðnum. Ritlistarnemar og aðrir Blekfjelagar skrifuðust á við rithöfundinn Svövu Jakobsdóttur en smásaga hennar, Saga handa börnum, varð innblástur og kveikja að áhugaverðu efni sem mun birtast á Sirkústjaldinu á næstu dögum.

Þriðji blekfjelaginn til að stíga á stokk er Ásdís Ingólfsdóttir.

 

Nafnlaus dóttir móðurinnar

Þar sem hún stendur við dyrnar að æskuheimili sínu man hún eftir því þegar hún sá móður sína síðast. Man hvað henni bauð við blóðugu líffærinu sem gamla konan rétti fram. Hún hafði skellt á hana og ekki séð hana síðan. Hún hringir dyrabjöllunni hvað eftir annað og heyrir skerandi hljóðið í bjöllunni fyrir innan en enginn svarar.

Hún gengur niður tröppurnar og svipast um. Henni sýnast gardínurnar fyrir gluggunum vera þær sömu og þegar hún flutti að heiman. Ekkert virðist hafa breyst, sömu brúnleitu litirnir og sömu hnífjöfnu bilin á milli gardína. Hún gengur hringinn í kringum húsið og furðar sig á að allt virðist eins og það var. Hvernig má það vera að ekkert hafi breyst? Kantarnir á grasflötinni eru vel snyrtir og brúnirnar skarpar og hreinar eins og þær hafi verið skornar í gær. Blómabeðin eru jafn vel hirt og þegar hún var að alast upp í þessu húsi sem lítur út eins og það sé úr auglýsingu frá sjötta áratugnum. Þeirri hugsun lýstur niður í huga hennar að móðirin hafi dáið og húsið sé komið í eigu ókunnugra. Hefði hún ekki verið látin vita ef móðir hennar hefði látist? hugsar hún bitur. Varla getur móðir hennar haldið þessu svona, orðin háöldruð?

Hún snarast niður kjallaratröppurnar og reynir að opna dyrnar að þvottahúsinu. Þær haggast ekki. Hún grípur hvassan stein úr blómabeði og brýtur rúðuna í hurðinni. Glerbrotin í karminum stinga hana þegar hún teygir sig inn um gluggann og opnar hurðina. Hún fer varlega þegar hún teygir hendina inn um brotinn gluggann og opnar. Glerbrotin sem hafa þeyst eins og skæðadrífa um grálakkað þvottahúsgólfið eru í stingandi ósamræmi við fullkomið þvottahúsið sem blasir við. Allt er skínandi hreint, enginn þvottur á snúrum og þvottavélin er eins og ný, það stirnir á hana. Á hillu fyrir ofan þvottavélina er krukka með vökva og það grillir í hjarta móður hennar sem er orðið gráleitt eftir margra ára geymslu. Hún kippist ósjálfrátt við af viðbjóði þegar hún sér krukkuna.

Hún hraðar sér út úr þvottahúsinu og kallar „halló halló“ um leið og hún gengur upp stigann. Enginn svarar. Þegar hún kemur upp hellast yfir hana ónot og fær hún verk í hjartað þegar hún svipast um. Allt er nákvæmlega eins og þegar hún var barn að alast upp í þessu húsi, nema þögnin sem er þrúgandi. Hún rífur upp stofuhurðina með látum sem koma henni sjálfri á óvart og gengur inn. Stofan er mannlaus en blómin í gluggunum eru enn á sínum stað og virðast vel hirt rétt eins og var hjá móður hennar. Krukkan með heilanum er enn á stofuhillunni. Hún hlýtur að vera hér einhvers staðar, hugsar hún með sér og gengur fram ganginn inn í eldhúsið. Þar situr gamla konan á stól í horninu við gluggann. Henni finnst hún hafa skroppið saman, minnist þess ekki að móðir hennar hafi verið lágvaxin eða smágerð en mannveran sem situr við gluggann er afar smágerð, á ekki stærri en fimm ára barn, gamalt og hrukkótt fimm ára barn.

Gamla konan lítur á hana. „Hver ert þú;“ spyr móðirin, röddin skelfur örlítið.

„Þekkir þú mig ekki, ég er dóttir þín“ svarar hún pirruð og finnur að gömul viðbrögð taka völdin eitt augnablik.

„Er það,“ segir gamla konan undrandi, „hvað get ég gert fyrir þig?“ spyr hún svo.

„Ekkert, þú þarft ekkert að gera fyrir mig. Mig langar til að gera eitthvað fyrir þig. Hvað get ég gert?“ Hún er óðamála þegar hún svarar hún móður sinni.

„Af hverju langar þig að gera eitthvað fyrir mig?“ Gamla konan getur ekki leynt undrun sinni.

Hún hugsar um það hvort hún eigi að segja gömlu konunni frá aðgerðinni og því hvernig steríl lyktin á sjúkrahúsinu og stingandi sársaukinn eftir skurðaðgerðina hafi minnt hana á það þegar hún var barn og þau systkinin skáru heilann úr móður sinni. Hún hættir við að gera það og svarar engu.

Gamla konan lítur á hana mildum augum og segir: „Ég veit ekki hvort þú getur gert nokkuð fyrir mig. Það eina sem mig langar er að deyja, en það virðist ekki eiga fyrir mér að liggja. Læknirinn segir að það sé vegna þess að það er búið að taka heilann og hjartað. Ég verð að bíða meðan efnahvörfin í líkamanum leysa upp efnin hægt og rólega. Ég hef gert alls konar tilraunir, hækkað hitann til að flýta fyrir, hætt að borða og drekka. En það tefur mig við verkin. Ég get auðvitað ekki hætt að gera verkin. Það verður að þrífa og elda og hugsa um blómin og garðinn,“ segir gamla konan þreytulega. „Ég er bara að bíða eftir því að geta dáið og þú getur ekkert hjálpað mér við það.

Hún horfir döpur á móður sína. „Þú ert búin að setja hjartað niður í þvottahús,“ segir hún.

„Já, ég saknaði þess stundum að vera ekki með hjarta en svo átti það til að fara að titra og skjálfa, sem tók svo á mig. Þannig að ég setti það niður í þvottahús. Fékk ekki af mér að losa mig við það,“ segir gamla konan afsakandi.

„Af hverju baðstu ekki lækninn að setja hjartað í þig aftur?“ spyr hún. Móðirin lítur á hana döprum augum, „mér datt það nú ekki í hug,“ segir hún afsakandi, „það er orðið svo langt síðan mér datt nokkuð í hug. Það var jú þetta með heilann.“ Það blika tár á hvörmum móðurinnar. Svo lítur hún á dóttur sína. „Ekki myndir þú vera svo væn að setja það í mig aftur?“

Hún kippist við þegar móðir hennar spyr. Minnist þess hversu viðbjóðslegt henni fannst að horfa á hana standa með hjartað í krukkunni við útidyrnar heima hjá henni. Finnur enn fyrir samviskubitinu yfir að hafa skellt á hana. Hún lítur hikandi á móður sína:

„Heldur þú að það hafi eitthvað að segja?“ spyr hún.

„Hver veit,“ segir móðirin, „það má alveg reyna og sjá hvort það hjálpar.“

Hún finnur sterka þörf til að gera þetta fyrir móður sína, kannski bætir þetta fyrir allt sem áður hefur gerst? Hún hjálpar móður sinni upp á eldhúsborðið og eitt augnablik sér hún fyrir sér þegar Stjáni og þau krakkarnir ruddust inn til að taka heilann úr móður sinni á sínum tíma. Móðir hennar var að elda man hún og finnur þyngsli í brjóstinu. Gamla konan liggur á bakinu á eldhúsborðinu og hneppir frá sér. Svo lyftir hún nærbolnum og þá blasir við örið á brjóstinu.

„Þú hlýtur að geta skorið ofan í gamla örið“ segir gamla konan mildum rómi, „ég bíð bara hér róleg meðan þú sækir hjartað.“ Móðirin horfir mildum augum á dóttur sína og brosir.

Hún finnur velstraujað viskustykki í skúffu og fer niður til að sækja hjartað í krukkunni. Hún fleygir viskustykkinu yfir krukkuna svo hún þurfi ekki að horfa á hjartavöðvann á meðan hún ber krukkuna varlega upp stigann og inn í eldhúsið. Það kemur henni á óvart hversu fumlaust hún framkvæmir skurðinn og hversu lítið blæðir þegar hún ber beittan hnífinn að brjósti móður sinnar og ristir í gegnum húðina sem er örþunn og gagnsæ eins og fiðrildavængir. Svo setur hún báðar hendur í sárið á bringu móður sinnar og rífur upp brjóstholið. Hún heyrir feyskin rifbeinin brotna og gamla konan kveinkar sér. Í brjóstholinu þar sem hjartað á að vera liggur gollurshúsið skrælnað. Hún tekur gráleitt hjartað úr krukkunni og leggur það á sinn stað ofaná gollurshúsið og reynir að finna æðar til að tengja. Það tekur hana óratíma að ganga frá hjartanu. En skyndilega finnur hún að það tekur kipp og hún hendist til. Móðir hennar grípur andann á lofti. Sjálf horfir hún bergnumin á vöðvann titra og svo byrjar hjartað að slá veikt. Það færist yfir það skínandi roði. Hún lítur á gömlu konuna sem brosir til hennar.

„Þú komst, dóttir mín“ segir hún og andvarpar. Í sömu andrá heyrist soghljóð úr brjóstholi gömlu konunnar og hjartað stöðvast. Hún skynjar hvernig líf móður hennar fjarar út.

Hún grætur meðan hún lokar skurðinum og gengur frá í eldhúsinu. Gætir þess að allt sé á sínum stað. Svo tekur hún móðurina í fangið, hún er fislétt eins og fugl. Hún ber hana upp í svefnherbergið og leggur hana á rúmið og hagræðir henni. Steríla lyktin stingur í nefið og skær birtan sker í augun þegar hún gengur fram í hol og hringir í lækninn.

Ásdís Ingólfsdóttir.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone