Pink Flamingos

pink-flamingos-cover

Sýnd í Bíó Paradís 16. september klukkan 20.00.


pfposterKvikmyndin Pink Flamingos, í leikstjórn John Waters, kom út árið 1972. Er hún alræmd fyrir að fara vel út fyrir velsæmismörk hvað varðar hugmyndir samfélagsins varðandi líkamann. Myndin er talin vera undanfari svokallaðrar „abject“ listastefnu, en það er stefna sem vinnur með líkamann á ögrandi og framúrstefnulegan hátt. Einnig er myndin talin vera fyrirrennari pönksins, ásamt því að skipa heiðurssess í LGBT samfélaginu.

Fjallar myndin um dragdrottninguna Divine, sem hefur verið titluð „soralegasta manneskjan á lífi“. Býr hún í hjólhýsi ásamt móður sinni, syni og lagsmanni sínum og nýtur þess að vera alræmd. Þegar Marbles hjónin ætla síðan að stela titlinum af henni hefst keppni í viðbjóði og sora, og Divine sýnir hvers vegna hún er vel að titlinum komin.

Er myndin þekkt fyrir ýmis stílbrögð, enda John Waters með mjög einkennandi leikstjórnarstíl. Hefur kvikmyndin mikið „kitsch“ yfirbragð og einkennist af skærum litum og ýktum andlitsfarða. Frægasta atriði kvikmyndarinnar er án efa þegar Divine innbyrðir hundaskít undir lok myndarinnar, en samkvæmt Waters var um raunverulegan úrgang að ræða.

Það reynir því verulega á þolmörk áhorfenda og gáfu sum kvikmyndahús, á sínum tíma, gestum ælupoka til að hafa með sér á sýninguna.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone