Rannsóknarskáldskapur – Sakminjasafnið í Ekkisens

TRL - KANN AÐ RIFJAST UPP+

Síðastliðinn föstudag opnaði Sakminjasafnið fyrstu sýningu sína í rými Ekkisens á Bergstaðastræti 25b. Snorri Páll (Jónsson Úlfhildarson) stendur fyrir sýningunni og titlar sig sýningasóknara (e. prosecurator) Sakminjasafnsins.

Sýningin stendur yfir 26. mars og er opin alla daga frá 17 – 19. Í dag kl 17 verður boðið upp á leiðsögn og á morgun verður lokahóf og ljóðalestur. Nánari upplýsingar er að finna hér.

Á Sakminjasafninu er boðið upp á breytilegar myndir af ásýnd svokallaðra Guðmundar og Geirfinnsmála. Í einu herberginu eru til dæmis nokkrar teikningar úr yfirheyrslum þar sem sakborningum í Guðmundar og Geirfinnsmálunum hafði verið gert að teikna upp atburðarásir sem þeir mundu ekki eftir að hafa tekið þátt í. Frekari rannsóknir hafa bent til þess að óvíst er að þessir atburðir hafi nokkurn tíma átt sér stað.

Sakminjasafnið 1

Þó meginviðfang sýningarinnar sé sett upp í niðurgröfnum kjallara Ekkisens á Bergstaðastræti, dreifir Sakminjasafnið úr sér, „óvænt inn í dagskrá“ listaflórunnar hér í Reykjavík. Ásamt því að vera virkur að setja inn efni á Facebook, tók sýningasóknari einnig þátt í ljóðakvöldi á Gauknum síðastliðinn laugardag. Anton Helgi Jónsson birti skoðun sína um lestur hans á Facebook:

„[…] Þegar leið á lesturinn rann það upp fyrir mér að textinn sem Snorri Páll [sýningasóknari] var að lesa fellur undir það sem er kallað found poetry eða fundinn skáldskapur; það sem hann las voru ekki eigin fantasíur heldur orðréttir textabútar úr dómskjölum sem voru sett saman í Geirfinnsmálinu. Það var nöturlegt að uppgötva þetta. Játning sem þóttist vera heilagur sannleikur á sínum tíma virtist vera fáránlegur uppspuni þegar hún hljómaði úr munni skáldsins í gærkvöldi.”

Myndlyklar sýningasóknara

Ég mæli eindregið með því að heimsækja Ekkisens og þá helst sækjast eftir samtali við sýningasóknarann, en með verklegri tilvísun í myndlyklana sem hanga á veggjunum myndar hann áhugaverða frásögn sem vekur sterk hugrenningatengsl hjá þeim sem hlusta.

Undir þýðum tónum dægurlaga sem öll tengjast sakamálunum, bendir Snorri á myndir, bækur og textabrot úr ýmsum áttum meðan hann myndar sýn á atburðarás sem virðist vera með öllu ómögulegt að finna réttan flöt á. Frásagnir hans af samanfléttuðu frásagnanetinu gefa mjög grafíska mynd af margvíslegum afleiðingum þessara sakamála.

Sakminjasafnið 1

Hluti úr mósaíkmynd Sýningasóknara á Sakminjasafninu

Raunveruleiki eða skáldskapur?

Það vekur óhuggulegar tilfinningar að ímynda sér hvað raunveruleikinn hefur orðið fyrir miklu aðkasti frá höndum skáldskaparins. Það er þó ef til vill algeng aðferð sem er notuð við lausn sakamála. Rannsóknarlögreglan þarf að ímynda sér atburðarás út frá þeim gögnum sem þau hafa, og sjá fyrir sér aðstæður sem byggjast á fyrirliggjandi gögnum. (Kannski eru glæpasögur svona vinsælar út af því?) Saksóknari þarf að sýna fram á tilheyrandi málsgögn, sannanir og játningar til að færa rök fyrir því að sú saga sem honum hefur dottið í hug sé rétt. Það sem gerir umræddar glæpasögur á Sakminjasafninu óhuggulegar eru ítrekaðar játningar hjá fólki sem reyndust síðan vera falskar. Eftir einangrunarvistir og skuggalegar yfirheyrsluaðferðir voru sakborningarnir farnir að ímynda sér að sakirnar sem þeim voru bornar hafi í raun verið sannar, þó svo að enginn hafi munað neitt.

Snorri sagði mér dæmi af höfuðvitni sem var sóttur alla leið til Spánar til þess eins að sitja í varðhaldi á hótelherbergi þar til hann samþykkti að skrifa undir einhvers konar játningu um vitnisburð af atburði sem hann tengdist ekki neitt. Af atburði sem átti sér líklega ekki einu sinni stað.

Það má ætla að fáum þyki gaman að heyra um skáldaferil rannsóknarlögreglunnar, þar sem  þeirra vinna hljóti að vera unnin með vísindalegum rannsóknum. Fólk sem aðhyllist vísindin er þó breyskt eins og annað, og ráðamenn í nafni ríkisvaldsins taka sér skáldaleyfi til að beygja sannleikann til þess eins að koma vandræðalegu máli undan. Hvað gerist ef játningar eru þvingaðar fram? Kerfisbáknið tekur játningunum fagnandi og kemur þeim þvinguðu fyrir í tilheyrandi afplánun.

Á hinn bóginn er svotil ekkert nýtt að taka til sín raunveruleikann og vinna með í skáldskapnum. Til eru skáld sem vinna aðallega á þeim mörkum. Munurinn á stöðu skáldsins og saksóknarans er sá að skáldið þarf ekki að þvinga fram játningar hjá saklausum einstaklingum til að bera fram sína uppdiktuðu frásögn. Skáldið þarf heldur ekki að þvinga fram játningar hjá höfuðvitnum til þess að staðfesta játningar sakborninganna.

Fáránlegt samband

Já, sambandið milli skáldskapar og veruleika getur vissulega verið fáránlegt. Fáránleiki sem vísar í báðar áttir. Umboðsmenn ríkisvaldsins nýttu sér skáldskapinn til að knýja fram einhvers konar úrskurð dómstóla sem rispaði djúp sár í líf saklausra einstaklinga.

Höfundur Íslands stígur hins vegar fram á baki skáldskapargyðjunnar og nýtir sér raunveruleikann til að knýja fram skáldskapinn. Lesendur hella í sig heillaðir skrumskældri raunasögu hins þögla vitnis og velta fyrir sér hvort sagan hafi kannski í alvörunni verið eins og skáldið skrifar?

Lengi lifi skáldskapurinn. Ekki síst þegar hann er notaður til að beygja raunveruleikann inn á þær brautir sem hentar framabraut rannsóknarskáldsins. Skítt með afleiðingarnar, svo lengi sem niðurstaðan skili einhverri niðurstöðu, úrskurði eða vel sóttu útgáfuhófi.  Allt til að skila inn arðbærum vinnudegi.

Ólag á pennanum

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone