Síðasta mál á dagskrá – Um Dimmu eftir Ragnar Jónasson

dimma_kapa

Hulda Hermannsdóttir er við það að fara á eftirlaun, hálfu ári á undan áætlun og ekki af eigin hvötum. Hún fær leyfi til þess að skoða eitt mál að eigin vali áður en hún hættir og kýs að rannsaka dauðsfall ungrar konu, rússnesks hælisleitanda, sem fannst látin í vík á Vatnsleysuströnd ári fyrr. Dauðsfallið var á sínum tíma afgreitt sem sjálfsmorð en Huldu grunar að svo sé ekki. Í kjölfarið hefst atburðarás sem hana gat ekki órað fyrir.

Ragnar Jónasson hefur getið sér gott orð fyrir glæpasögur sínar síðustu ár. Hann er lögfræðingur að mennt en áður en hann fór að skrifa sjálfur þýddi hann fjölmargar bækur eftir Agöthu Christie. Hann er því öllum hnútum kunnugur í heimi glæpasagnanna og það er því synd að segja að Dimma missir marks. Bókin er óraunsæ og klisjukennd frásögn af síðustu dögum lögreglukonunnar Huldu í starfi. Flest öll samtöl sem eiga sér stað í bókinni eru formúlukennd. Þar má sem dæmi nefna samskipti Huldu við Magnús, yfirmann hennar, þegar hann þvingar hana til þess að fara á eftirlaun (þetta gildir reyndar um nánast öll samskipti Huldu og Magnúsar). Önnur samtöl, t.d. samtöl á milli lögreglukvennanna Karenar og Huldu eru hálf kjánaleg. Karen kallar Huldu elskuna sína í tíma og ótíma og samtalið verður afkáralegt. Eins eru samtöl Dóru, sem sér um áfangaheimili hælisleitenda, og Huldu óraunsæ. Dóra talar niður til Huldu og það virðist gilda um flesta sem verða á vegi hennar í starfi, þeir tala niður til hennar og af óvirðingu. Það er óljóst hvað höfundur er að reyna að sýna fram á með þessu. Er verið að leggja áherslu á óöryggi Huldu eða hefur henni farið aftur sem rannsakanda nú þegar hún er komin á efri ár? Hvað sem það er, þá missir það marks.

ragnar_jonasson

Ragnar Jónasson rithöfundur

Í bókinni eru fordómar og staðalímyndir áberandi, t.d. rússneska vændiskonan (því auðvitað leiðist rússneski hælisleitandinn strax út í vændi), feiti stereótýpíski lögreglumaðurinn og svo er lögreglustéttin sjálf karlrembustía þar sem reynd lögreglukona er neydd til að láta af starfi svo yngri karlmaður geti tekið við starfi hennar og hún mótmælir því varla. Í sögunni eru einnig ósannfærandi atvik. Sagan hefst á að Hulda lætur tilfinningarnar hlaupa með sig í gönur og hylmir yfir glæp en slíkt myndi lögreglumaður með sómatilfinningu seint gera. Eftir að Hulda fær „uppsögnina“ fer hún að grufla ein í þessu óleysta máli og fer til dæmis askvaðandi heim til manns sem er bendlaður við mansal án þess að láta nokkurn vita af ferðum sínum og spyr hann beint út hvort hann standi í glæpastarfsemi. Atriði á borð við þetta er alveg út í hött að mínu mati. Þrátt fyrir að lögreglumaður sé illa liðinn á vinnustað eða neyddur snemma á eftirlaun þá hlýtur hann að þurfa að fylgja einhverjum verkferlum við rannsókn á lögreglumálum.

Vill einhver elska ellilífeyrisþega?

Sagan segir ekki aðeins frá rannsókn málsins heldur fléttast uppgjör Huldu við fortíðina inn í söguna og pælingar hennar um lífið og tilveruna, starfið, móður sína og uppvöxtinn eru áberandi. Hulda er einfari (staðalímyndin um bælda, tilinningahefta lögreglumanninn) og tilfinningadoði hennar er útskýrður með endurlitum í æsku hennar en inn í þá frásögn blandast möguleikinn á ástarsambandi með Pétri, ekkli í kringum sjötugt. Þar er enn ein klisjan á ferðinni, hugleiðingar Huldu um Pétur og sambandið allt virka tilgerðarlegar. Hugsanir á borð við það hvort hún ætti að taka sambandið á næsta stig, hún nýtur félagsskaparins en hún býst ekki við að geta elskað Pétur og svo framvegis og framvegis.

Þessi stanslausa ofgreining lætur Huldu virka óörugga í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur og það gerir hana ósannfærandi, sérstaklega sem rannsakanda, því það er ólíklegt að Hulda hafi getað enst í meira en 30 ár í starfi ef hún er ófær um að standa með sjálfri sér. Hulda ofhugsar allt, það verður leiðinlegt aflestrar til lengdar og hún virkar ósannfærandi sem rannsóknarlögreglumaður. Ég sá Jessicu Fletcher, sem Angela Lansbury gerði fræga í Morðgátuþáttunum (e. A murder she wrote) á 9. áratug síðustu aldar, fyrir mér við lesturinn. Gamla konu í pastellitaðri gollu, með bleikar neglur og permanent sem dúllar sér við að leysa glæpi í hjáverkum en lítur meira á það sem afþreyingu heldur en alvöru og klúðar hlutunum í takt við það. Þetta álit mitt er samt á engan hátt litað af kyni Huldu. Ef söguþráðurinn héldi sér, en Huldu væri skipt út fyrir lögreglumanninn Huldar, væri ég á þessari sömu skoðun um að þar  væri vanhæfur lögreglumaður á ferð sem ætti að íhuga alvarlega að fara í kröftuga sjálfsvinnu.

Óvænt endalok

Það sem bætir bókina eru hins vegar sögulokin. Þau eru óvænt og miðað við hvað bókin var mikil klisja frá upphafi og nánast fram að enda bjóst ég við því að endirinn yrði í takt við það sem á undan hafði gengið. En svo var hins vegar ekki og endirinn er að mínu mati það besta við bókina. Ragnar hefur sýnt fram á það með fyrri sögum sínum að hann getur skrifað góðar og spennandi glæpasögur en í þessu tilviki gengur sagan ekki alveg upp og ég hallast að því að þar séu bæði persónusköpunin og söguþráðurinn vandamálið. Það er erfitt að tengja við sögupersónurnar, Hulda og aðrar persónur eru óaðgengilegar, og ef til vill hefði sagan verið betri ef meiri vinna hefði verið lögð í persónusköpunina. En að mínu mati líður skáldsagan fyrst og fremst fyrir ósannfærandi atburðarás, en þar sem Ragnar er löglærður þá er það að mínu mati sanngjart að lesandinn geri þá kröfu að  sagan sé í einhverjum takti við raunveruleikann.

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone