Sjá þig, stelpa!

Jenny Saville, Fulcrum (1999)
http://www.saatchigallery.com/aipe/jenny_saville.htm
Jenny Saville, Fulcrum (1999) http://www.saatchigallery.com/aipe/jenny_saville.htm

Mynd fyrir umheiminn

Á tímum þar sem fólk keppist við að endurskapa ímynd sína í sýndarveruleikanum, með því að ritskoða birtingarmynd veruleikans, er ekki úr vegi að líta til þess hvernig menn hafa skapað sjálfsmyndir sínar í listheiminum. Því list segir aldrei alla söguna, ekki frekar en Facebook. Hún sýnir ákveðið sjónarhorn. Og sjónarhornið er það sem skiptir máli.

 

Augnaráð karlmannsins

Ritarar listasögunnar voru konum ekki sérlega hliðhollir. Nafn kvenna ber þar sjaldan á góma, en þeim mun oftar eru þær myndgerðar. Málverk sögunnar eru uppfull af fáklæddum konum, sérstaklega á endurreisnartímabilinu. Konan birtist þannig sem viðfang, en ekki gerandi. Þær eru gyðjur og músur, undirgefnar karlmönnunum. Þeir eru listamennirnir.

Þetta á sér beina hliðstæðu í samtíma okkar þar sem konur eru hlutgerðar í auglýsingum. Líkami konunnar er söluvara. Það hlýtur að hafa áhrif á hvernig konur líta á sig sjálfar, enda hafa femínistar barist harðlega gegn auglýsingum þar sem vegið er að sæmd kvenna.

Oft er talað um „augnaráð karlmannsins“ í þessu samhengi. Karlmenn horfa á konur, en konur horfa á sig sjálfar sem áhorfsefni. Þær eru ávallt meðvitaðar um augnaráð karlmannsins. Jafnvel mætti ganga svo langt að segja að með því meti þær eigin verðleika. Augnaráð karlmannsins er þannig grisja sem áhorfandinn horfir í gegnum, óháð kyni. Sem áhorfendur tökum við okkur stöðu við hlið karlmannsins og horfum frá hans sjónarhorni.

Bandaríski ljósmyndarinn og kvikmyndaleikstjórinn  Cindy Sherman vann með staðalímyndir kvenna í bíómyndum í myndaröð sinni Film Stills. Hugsanlega má deila um hvort þar sé um sjálfsmyndir að ræða, þó Sherman noti eigin líkama á ljósmyndum. Eftir sem áður vinnur hún með hluta af sjálfi sínu, því hún er kona og hlýtur því að skilgreina sjálfa sig út frá því að einhverju leyti.  Augnaráð karlmannsins er rauður þráður í gegnum myndirnar.

 

Andlitið

Sjálfsmyndir eru ekki einskorðaðar við andlitsmyndir en einhvern veginn virðist andlitið vera aðaltengingin við sjálfið. Andlitið segir svo margt. Það er það fyrsta sem fólk horfir á en við getum ekki séð okkar eigið andlit nema í spegli eða á ljósmynd. Tilfinningar sem við reynum að fela eða bæla niður koma auðveldlega í ljós í svipbrigðum andlitsins og við leggjum mikið í túlkun svipa, enda erum við í stöðugri þjálfun. Strax í frumbernsku fara börn að herma eftir svipmótum foreldra sinna og tengja þau við hegðun og tilfinningar. Andlitið á það jafnvel til að ljóstra upp hugsunum sem fólk vill leyna.

 

Sálfræðirannsókn eða handhæg tækniæfing

Sjálfsmyndir eru að vissu leyti hentug lausn fyrir listmálara og ljósmyndara því fyrirmyndin er örugglega til staðar. Þær hafa enda verið hluti af listasögunni frá örófi alda, þó þáttur þeirra hafi aukist talsvert við upphaf endurreisnarinnar. Þá varð hugmyndin um höfundinn skýrari, en fram að því höfðu málverk jafnan verið ómerkt. Á þeim tíma voru sjálfsmyndir tæknilegar og endurspegluðu fyrst og fremst útlit listamannsins.

Sjálfsmyndin tók aftur á móti nýja stefnu í upphafi tuttugustu aldar þegar hugmyndir austurríska sálkönnuðarins Sigmund Freuds um undirmeðvitundina urðu mönnum kunnar.  Myndlestur varð veigameiri og fór smám saman að líkjast sálfræðirannsókn fremur en fagurfræðimati.

Sjálfsmyndir voru nú taldar varpa ljósi á innri sannleika sem annars var hulinn.

 

Staða konunnar

Grundvöllur sjálfsmynda er einhvers konar sjálfstúlkun. Einstaklingar sem tilheyra minnihlutahóp skilgreina sig jafnan út frá honum, einfaldlega vegna þess að samfélagið gerir það.

Eftir því sem konur urðu meðvitaðri um tilvist sína sem listamenn og þátttakendur í samfélaginu urðu sjálfsmyndir þeirra gagnrýnni á stöðu konunnar. Til dæmis hafa margar konur dregið upp mynd af sér í karlmannsklæðnaði. Karl og kona renna þá saman í eitt og vekja áhorfandann til umhugsunar.

Áður hefur verið minnst á augnaráð karlmannsins, en það er stór þáttur í sjálfsmynd kvenna og ákveðin ánauð fólgin í því. Myndlistakonur tuttugustu aldara hafa gagngert unnið að því að brjótast út úr viðjum þessa augnaráðs, sem og stöðlum samfélagsins. Sjálfsmyndir hafa þar leikið stórt hlutverk, enda einlægni sjálfsins hugsanlega eitt sterkasta vopnið.

Konur draga upp á strigann sjálfsgagnrýni sína, sem endurspeglast af viðmiðum samfélagsins. Þær spyrja spurninga um kynferði sitt, skilgreiningu á sjálfum sér. Er ég ekki kona ef ég get ekki eignast börn? Ef ég er ekki með brjóst? Ef ég stenst ekki útlitskröfur samfélagins?

Jenny Saville er bresk myndlistakona, fædd árið 1970. Hún hefur unnið  með sjálfsmyndina og ímynd konunnar í stórum olíumálverkum. Líkami hennar er digur og afmyndaður á málverkunum, en hún fær gjarnan offeitar konur til að sitja fyrir. Svo málar hún eigið höfuð á líkamann. Þannig berst hún við hugmyndir samfélagsins um hinn fullkomna líkama og horfir beint í augu áhorfandans. Beint í augnaráð karlmannsins.

 

Öll munum við deyja

Sjálfsmyndir marka stöðu listamannsins, bæði gagnvart samfélaginu og tíðarandanum en einnig hvar hann stendur í eigin þroskaferli, sem listamaður og einstaklingur.

Til dæmis er áhugavert er að bera saman sjálfsmyndir listamanna með viðhorf þeirra til öldrunar og dauðans í huga. Finnska myndlistakonan Helene Schjerfbeck, sem var uppi frá 1862-1946, málaði sjálfa sig þegar hún fann endalokin nálgast, rúmlega áttræð. Andlitseinkenni hverfa nær algjörlega í tjáningu hennar á feigðinni, jafnframt því sem höfuðkúpan kemur í ljós. Hún notar þunnt lag af málningu eins og til að fletta skinninu af málverkinu líkt og sjálfri sér. Hún stendur varnarlaus frammi fyrir dauðanum.

Um miðbik tuttugustu aldarinnar túlkuðu nokkrar myndlistarkonur sjálfa sig á svipaðan hátt, með mynd af höfuðkúpu. Þetta er stórt skref frá því hvernig konur voru túlkaðar af karlmönnum í málverkum fyrri tíma, þar sem tilvist þeirra var lengi vel einkum viðurkennd í formi kynvera eða hlutlausra fyrirsæta.

Höfuðkúpurnar minna okkur á dauðann og dauðinn er öllum mönnum sameiginlegur, sama hvaða kyni eða kynþætti þeir tilheyra.

 

Sjónarhorn kvenna

Skilgreining konunnar er í höndum samfélagsins og sjálfsmynd hennar að sama skapi. Á síðustu árum hafa konur tekið markviss skref í átt að því að fá að skilgreina sig sjálfar. Sjónarhornið skiptir öllu máli.

 

Höfundur er kona.

 

Heimildir:

Gunnar B. Kvaran, „Sjálfsmyndir“, Sjálfsmyndir : Kjarvalsstaðir jan. – feb. 1988, (Reykjavík, Kjarvalsstaðir, 1988).
Frances Borzello, Seeing ourselves: Women’s Self-Portraits, (London, Thames and Hudson, Ltd., 1998).
M. Facos, „Helene Schjerfbeck’s Self Portraits: Revelation and Dissimulation“, Woman’s Art Journal, 16. tbl. vor/sumar 1995.
Hannes Lárusson, „Hávaði og þögn“, Kristín Halldórsdóttir Eyfells : 13. janúar – 26. febrúar 2006, (Reykjavík, Listasafn Reykjavíkur, 2006).

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone