Skáld í Flæðarmáli: Helga Ágústsdóttir

helga croppuð

Skáldið og teiknarinn Helga Ágústsdóttir er áttunda, og jafnframt sú síðasta, í röð þeirra átta Flæðarmálskvenna sem kynntar hafa verið fyrir ykkur síðustu vikur. Hér birtum við tvo kafla úr Alí-sögum Helgu, restina má finna í Flæðarmáli.

 

Eyðimerkurfrí

Þau settust öll í skuggann nema frúin á heimilinu.

„Ég hlýt bara að hafa verið Túareg í fyrra lífi,“ sagði hún og brosti eins breitt og hægt er að brosa í norður-afrískum síðsumarhita. „Þessi hlýindi eru mér eitthvað svo … eðlileg.“

Þau störðu á hana og veltu því fyrir sér hvort hún hefði fengið sólsting í þessari stuttu gönguferð. Vonuðu að þetta væri bara sólstingur. Hún hafði verið eitthvað svo eirðarlaus og uppátækjasöm síðustu mánuði. Börnin voru nánast vaxin úr grasi og orðin sjálfbjarga með flest annað en peninga. Hún kenndi verkefnaleysi um óróleikann.

Börnin fóru ekki varhluta af ójafnvægi móður sinnar. Þau voru viss um að hún þyrfti á hvíld frá heimilisverkunum að halda. Af þeirri ástæðu vöskuðu þau gjarnan upp eftir matinn og ráku þá móður sína út úr eldhúsinu svo að hún gæti slakað á og hvílt sig.

„Hvílt mig á hverju, krakkar?“ spurði hún þá, þó að þau gætu vart kallast börn lengur, bæði hávaxnari en hún.

Í aðgerðaleysinu hafði hún meira að segja tekið upp á því að reykja sígarettur.

Eiginmaðurinn kenndi hormónabreytingum um hegðun konu sinnar. Hann hafði lesið sér til um breytingaskeiðið og þóttist viss um að það eina sem þau gætu gert til þess að hjálpa henni væri að umbera skapsveiflur og gera sitt besta til þess að styðja hana. Hluti af hinum andlega stuðningi fólst í því að bregðast ekki illa við þegar frúin bað um að farið yrði til Afríku í sumarfrí.

„Ég dey ef ég fæ ekkert að drekka bráðum,“ sagði unglingsstúlkan.

Heimilisfaðirinn veifaði máttleysislega og skimaði í kring um sig eftir einhverju sem líktist þjónustu. Hann sá ekki mikið. Nokkrir ferðamenn sátu í skugganum eins og hrúgöld á víð og dreif um borðin. Fyrir aftan mannlausan barinn glampaði á stórt skilti með áletrun um að gefa ekki þjórfé. Hann strauk svitadropana af enninu og reyndi að átta sig á því hvar eða hvort þjón væri yfir höfuð að finna á þessum veitingastað.

Frúin dró sígarettupakka með arabísku letri úr fórum sínum. Hún bisaði við að ná sígarettu úr pakkanum og eftir að hafa brotið eina náði hún loksins einni heilli og setti hana í munnvikið eins og hún hefði aldrei gert annað á ævinni.

„Síðan hvenær reykir þú?“ spurði unglingsstrákurinn vansæll á svip.

„Ég reyki stundum,“ sagði frúin, „þegar þið eruð ekki heima og svona.“

„Ég er að skrælna,“ sagði unglingsstúlkan.

„Hvernig biður maður aftur um …“ byrjaði heimilisfaðirinn en komst ekki lengra þar sem strákurinn greip fram í fyrir honum.

„Bíddu, finnst þér bara allt í lagi að mamma reyki? Og hvað! Má ég þá bara reykja líka?“

„Kemur ekki til greina,“ svaraði faðir hans. „Sýndu smá stuðning og leyfðu mömmu þinni að reykja í friði.“

„Vatn,“ bað stelpan.

Frúin rétti úr bakinu og veifaði þjóninum.

„Eld, takk.“

 

Ekki gefa þjónunum

Við henni blöstu þau allra stærstu og sorgmæddustu, brúnu augu sem frúin á heimilinu hafði nokkurn tímann litið. Og hún hafði séð þau mörg, brúnu augun.

Strax fyrsta daginn komst hún ekki hjá því að lauma að honum matarbita. Litla greyið, hugsaði hún. Ég ætla að kalla þig Alí. Degi síðar rétti hún Alí samloku. Hún talaði við hann á frönsku og hunsaði allar viðvaranir um að gefa ekki þjórfé. Drengurinn talaði svo fallega Túnis-frönsku að hann hlaut að vera vel gefinn. Hann var bara vannærður.

Þetta var óvenjulegt frí. Börnunum var of heitt til þess að gera mikið annað en að kvarta og kæla sig í sjónum. Frúin fékkst hins vegar varla til þess að yfirgefa veitingastaðinn. Eiginmanninum þóttu þessar tiktúrur frúarinnar ekki skemmtilegar, en þar sem hún hafði verið svo eirðarlaus og vansæl undanfarið tók hann þessu sem batamerki. Nú brosti hún þó og þegar fríinu lyki yrði Alí eftir í Túnis og þau færu aftur heim.

 

IMG_6965Rannveig Garðarsdóttir er ritstjóri Helgu.

Hægt er að kaupa bók á síðu hópsins á Karolina Fund fram til 10. maí og fylgjast með gangi mála á Facebook-síðu þeirra.

(Ljósmyndir: Halla Þórlaug Óskarsdóttir)

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone