Skítur í marmarahöll

Náttúran beisluð.
Náttúran beisluð.
Speglasalurinn í Versölum.

Speglasalurinn í Versölum.

Château de Versailles, eða höllin í Versölum, var þekkt fyrir íburðamikið skraut, fagra völundargarða og gulli þakta veggi. Lúðvík XVI lifði þar ásamt drottningu sinni Maríu Antoinette í vellystingum á meðan almúginn svalt í sveitum og borgum átjándu aldar Frakklands. Hjónakornin voru veruleikafirrt og ótengd náttúrunni. Þau vildu viðhalda ímynd um glæsileika og ríkidóms og jafnvel hreinleika með því að beisla náttúruna og mannlífið í kringum höllina. Náttúran var í þeirra augum einungis hvimleið óreiða sem þurfti að beisla, klippa og gróðursetja í snyrtilegar raðir. Þessir draumar um ægivald yfir náttúru og mönnum hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda og lifa enn góðu lífi meðal okkar í nútímasamfélagi.

Byltingin gegn hreina ríkisvaldinu

Hræðilegir faraldrar geisuðu í París á meðan María Antoinette tók á móti gestum í speglasalnum og Lúðvík spasseraði um manngerða skrúðgarða. Borgin var óhrein, illa lyktandi sútunarhús voru á hverju horni og slátrarar hentu úrgangi sínum beint á göturnar. Þúsundir dóu úr þeim smitsjúkdómum sem þrifust í svaði rotnandi svínskrokka og mannasaurs.

Höllin í Versölum virtist á hinn bóginn vera ósnertanleg, hún var fögur, hrein, og konungshirðin ónæm frá sjúkdómum og fátækt. Versalir voru himnaríki hinna ríku og hreinu á meðan París var helvíti skítugra fátæklinga. Lúðvík konungur og hirð hans var yfir skítinn hafinn.

Söguna af konunglegu hjónakornunum þekkja flestallir Íslendingar sem hafa stundað grunnskólanámnám og lært um frönsku byltinguna, þessa byltingu sem var afsprengi upplýsingaraldarinnar og kollvarpaði eldri hugmyndum um pólitískt sjálf og gildi einstaklingsins.

Dauði Lúðvíks og frúar hans umbylti í hugmyndafræði Evrópubúa. Konungar og aðrir meistarar almúgans voru ekki lengur ósnertanlegir guðir, heldur menn sem hægt var að afhausa rétt eins og hvern annan ómaga. En þó að byltingin hafi breytt hugarfari vestrænna þjóða, var ein hugmynd sem að dó ekki; sú hugmynd að maðurinn sé aðskilinn frá náttúrunni og megi því drottna yfir henni.

Hræsni í hallarhirð

Marie Antoinette í brúnfölduðum kjól sem faldi skítinn.

Marie Antoinette í brúnfölduðum kjól sem faldi skítinn.

Nú voga ég mér að leika mér að orðum Shakespeare. Eitthvað var rotið í Frakka-veldi og þá á ég ekki bara við lík á strætum Parísar. Höllin í Versölum var nefnilega án vatnsklósetta sem ekki urðu vinsæl fyrr enn hundrað árum seinna. Í höllinni var bara einn kamar og eitt bað sem aðeins drottningin sjálf hafði aðgang að. Þetta þýddi að allir í hirð konungs þurftu að létta af sér í hornum hallarinnar eða í krókum og kimum garðanna. Konurnar voru klæddar síðum ballkjólum sem földu vel stykkin sem þær skildu eftir. Kjólarnir voru jafnvel hannaðir sérstaklega til að fela leifar úrgangsins þar sem að faldurinn var litaður smekklega með brúnum lit. Hreinleiki Versala var eingöngu glansmynd elítunnar.

Ísland, þjóð meðal þjóða og rykuga ríkidæmi Maasaii manna

Skautbúningur og kyrtill.

Skautbúningur og kyrtill hannaðir af Sigurði málara.

Ísland er ekki Versalahöll, en þjóðin á þó margt sameiginlegt með íbúum hallarinnar. Á tímum nýrómantíkurinnar, þegar menntamenn Íslands byrjuðu að vinna í að bæta ímynd þjóðararfsins kom stórt stökk í hreinlæti almenningsins. Nýr þjóðbúningur var hannaður af Sigurði málara og allt í einu fóru íslendingar að passa upp á hreinleika. Með auknum metnaði til að líkjast ríku nágrönnum okkar í Evrópu komu nýjar hugmyndir um að vera hreinn. Hreinleiki varð andstæða drullu og moldar sveitamenningarinnar. Í stað þess að skíturinn sé nú falinn undir pilsföldum er honum einfaldlega sturtað út í haf. Í dag teljum við okkur trú um að nútíminn sé hreinni en fortíðin og við virðumst ekki taka eftir samankrumpuðu kókómjólkurfernunum á gangstígunum eða svifryrkinu sem svífur yfir borginni. Við vitum ekkert hvert ruslið okkar fer og hvaða áhrif bílaneyslan okkar hefur.

Ef við lítum út fyrir hinn vestræna heim er hins vegar hugmyndin um hreinlæti af allt öðrum toga. Það er ekki einu sinni víst að hreinlæti sé sérstaklega álitleg hugmynd. Hinn víðfrægi Maasai ættbálkurinn í Keníu er gott dæmi um það að vestrænt og sápufreiðandi hreinlæti þarf alls ekki að vera merki um auð. Í stað þess að hreinsa sig frá óhreinindum, maka Maasaimenn sig út í litríku ryki, sandi eða mold.

Rykuga ríkidæmi Maasai manna.

Rykuga ríkidæmi Maasai manna.

Í þeirra menningarheimi hefur drullan tilgang og er hluti af þeirra náttúrulega og eðlilega heimi, ólíkt Íslendingum sem upplifa ryk og drullu sem óæskilega og eitthvað til að fela eða losa sig við. Ef að íslenskur vinur okkar myndi mæta þakinn brúnni flúðamold í skírnarveislu myndum við hafa áhyggjur af geðheilsu hans og jafnvel telja hegðun hans ónáttúrulega. Engu máli myndi skipta hvort hann hefði eytt uppvaxtarárum sínum meðal Maasai ættbálksins.

Einbýlishús og sápa

Á göngu um Reykjavík má finna hugmyndafræði Lúðvíks konungar. Flestöll húsin eru bein og hvítmáluð, garðarnir eru vel snyrtir og runnarnir ónáttúrulega beinir. Skáparnir okkar eru troðfullir af hreinsiefnum sem eru svo hættuleg að stundum berast fregnir af gaseitrun af völdum blöndunar þeirra í klósettskálum. Rusl skreytir vegakantana, en við göngum framhjá, virðum það ekki viðlitis og látum eins og það sé ekki á okkar ábyrgð. Maðurinn hefur beislað náttúruna og er yfir hana hafinn.

Sjampó innihald
Sjampó innihald

En hreinlætismenning Íslendinga hefur náð nýjum hæðum. Í dag hreinsum við okkur með sápum sem innihalda sterk eiturefni. Hreinlætisvörur nútímans eru næstum því eins eitraðar eins og blýpúðrið sem að María Antoinette bar á andlitið. En nú eru aðrir tímar og langur tími liðinn frá því að landinn hreinsaði sig upp úr keytu blandaða úr hlandi heimilismanna og húsdýra. Í dag fjárfestum við í sápum framleiddum í óþekktum heimshornum, sem innihalda efni sem almennt eru ekki í okkar orðaforða og varast ber að fá í augun.

Hver Íslendingur eyðir formúu í hreinsivörur, snyrtivörur, ný föt og nýja bíla, enda er það hluti af menningu okkar. Orðatiltækið „að vera vel til hafður“ gefur til kynna að viðfangið sé snyrtilegt, ryklaust og jafnvel klætt í fatnað sem virðist nýr.

Uppreisn gegn hræsni

Nýaldarsígaunar í Bretlandi nota fartölvur og jafnvel facebook.

Nýaldarsígaunar í Bretlandi nota fartölvur og jafnvel facebook.

Það kemur mörgum eflaust spánskt fyrir sjónir að sjá tiltölulega efnað fólk sem ekki er vel til haft, jafnvel skítugt. Við erum svo vön að tengja óhreinindi við fátækt að við getum ekki skilið afhverju einhver sem á pening á milli handanna kýs að ganga í litríkum og notuðum lufsufatnaði með ókempt hár. En það eru margir sem að upplifa hreinlætið sem kúgandi afl sem að krefst þess að allir eyði pening sínum í óheilnæm efni.

Uppreisnarseggirnir ganga jafnvel svo langt að hreinsa ekki á sér hárið með búðarkeyptu sjampói. Hreyfing sem kallar sig no-poo, snarlega þýtt sem  án-pó hreyfingin, deilir uppskriftum af náttúruvænum og heimagerðum sjampóum og öðrum hreinsiaðferðum á netinu. Tilgangur þessarar hreyfingar er ekki að taka upp aðferðir Maasaimanna og maka drullu og ryki í vestræna hárið sitt, heldur vilja einstaklingarnir forðast aukaefnin sem að berstrípa hárið algjörlega af náttúrulegri fitu.

En vandamálið með án-pó er það að fylgjendur þess eru fastir í vítahring. Þó að oft virki vel að sleppa sjampó við hárhreinsun er það svo að í sumum tilvikum virka heimagerðu án-pó sjampóin alls ekki. Uppreisnarseggurinn þarf því að vera með olíuríkt hár, eitthvað sem samfélagið á erfitt með að samþykkja og án-póarinn vill alls ekki. Spjallþræðir á án-pó heimasíðum eru stútfullar af tillögum, uppskriftum og ráðgjöf um hvernig best sé að hreinsa hárið.

Maður móti náttúru

Það er erfitt að vilja vera náttúrlegur í heimi sem að lítur á ónáttúrulega hluti sem náttúrlega, þar sem hreinsiefni, þráðbeinir og nýklipptir runnar, sjampó og ný föt eru normið. Auglýsingaherferðir með glansandi græjum selja okkur hugmyndir um hreinlæti og ríkidæmi. Náttúrusinnar, án-póarar og aðrir sem að vilja leyfa óhreinindunum aftur inn viðtekin sannindi vestræns samfélags eiga við högg að stríða. Það er erfitt að snúa við hundruðum ára upphafningar á hugmyndafræði Lúðvíks.

Grár veruleikinn mætir glansímynd græjuheimsins. Ipod auglýsing á Birmingham.

Grár veruleikinn mætir glansímynd græjuheimsins. Ipod auglýsing á Birmingham.

Kínverskt barn situr í ruslahaug vestrænnar tækni.

Kínverskt barn situr í ruslahaug vestrænnar tækni.

En hugmyndir eru bara hugmyndir, blákaldur sannleikurinn er sá að ný föt hætta að vera ný samstundis og þau eru nýtt og þráðbeinir runnar vaxa úr sér alveg eins hratt eins og villtir skógar í kringum þorp Maasai manna. Að lokum enda allar glansandi græjurnar á ruslahaugum með tilheyrandi náttúruspjöllum. Við vitum öll að það þarf að nota sjampó reglulega til að losna við náttúrulega hárfitu mannskepnunnar. Allar aðferðir vestrænna manna til að hafna náttúrunni hafa skilað síaukinni mengun, stórmálmum í höfum heimsins, fjölda dýra í útrýmingahættu og loftlagsbreytingum. Maðurinn er orðinn orðinn að ónáttúrulegu afli sem að stofnar lífríki jarðar í stórhættu.

Viðhorf okkar til náttúrunnar er í eðli sínu svo brenglað að samfélagsmótið sér mannkynið sem æðra náttúrunni og ekki hluti af henni. Maturinn sem við borðum er flest allur innpakkaður í plast, innfluttur í olíuskipum frá útlöndum. Fötin okkar koma líka frá útlöndum og eru framleidd í verksmiðjum sem virða mannréttindi að vettugi. Dýr eru álitin nytjavörur en ekki skynibornar skepnur og lifa oft við hræðilegar aðstæður. Mörg okkar vinnum í hverfum langt frá búsetu okkar og keyrum í vinnuna, og svo má lengi telja. Allt sem að samfélagið telur til eðlilegra hátta er langt frá því að vera sjálfbært eða náttúruvænt.

Væri ekki lífið bara auðveldara ef við myndum bara friðmælast við lífrænt subb og hárfitu og viðurkenna að við erum hluti af náttúrunni. Glansímyndartilburðir Lúðvíks kongungs voru ekkert til að hrópa húrra yfir, enda var hann afhausaður um leið og almenningur fékk nóg af hræsninni. Satt að segja er erfitt að þurfa stanslaust að fela náttúruna inní marmarahöllum og undir pilsföldum drottninga.

Náttúrulegt subb, mynd frá Project Wild Thing.

Náttúrulegt subb, mynd frá Project Wild Thing.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone