Svart og sykurlaust: Svar við grein Hildar Ýrar Ísberg

10149844_10203581003869785_728449494_n

Í pistli Hildar Ýrar Ísberg, „Mjókurkaffi eða Molasopi“, setur hún fram einfalda spurningu. „Hvað hefur þú á móti latte?“ Í þessum pistil ætla ég að útskýra frá sjónarhorni menningarfræðinema og kaffibarþjóns, hvað er svona úrkynjað við lattedrykkju.

Hugtakið lattelepjandi var ekki fundið upp á íslensku heldur er þetta bein þýðing á ensku hugtaki Latte Lapping Liberal. Það er notað í íhaldsömum og þröngsýnum miðlum í Bretlandi og Bandaríkjunum og lýsir mönnum sem einkennast ekki af vali sínu á kaffidrykkjum heldur þeirri staðreynd að þeir hafa bæði tíma og efni á því að sitja á kaffihúsi um miðjan dag og greiða 500 kr fyrir einn bolla af mjólkurkaffi. Þeir ræða ýmis málefni á kaffihúsum og skiptast á vinstri sinnuðum skoðunum án þess að hafa meira en yfirborðsþekkingu á málefninu. Þeir eru líka oft sakaðir um að hafa enga hagsmuni í málefninu og því er þeim í raun alveg sama um málstaðinn. Lattelepjandi einstaklingur er það sem verkamaðurinn fyrirlítur því hendur hans eru lausar við sigg og þó hann tjái skoðanir sínar frjálslega gengur hann aldrei í verkin.

Þetta hugtak er aðallega notað á Íslandi um íbúa höfuðborgarinnar og sérstaklega miðbæjarsvæðisins sem hanga á sömu kaffihúsum og Hugleikur Dagsson og ræða um mikilvægi skapandi lista andstætt tekjum sjávarútvegar. Lattelepjandi miðbæjarrottur eru fyrir íhaldsömum verkamönnum sníkjudýr samfélagsins. Því er drykkurinn sjálfur aukaatriði.

Latte er aftur á móti mikilvægur þáttur í þessari mynd af dekurrófunum í 101 Reykjavík. Í fyrsta lagi er fjórum til fimm sinnum meiri mjólk í latte en espresso (og þar miða ég við tvöfaldan latte). Þetta er þó ekki nýtt á Íslandi. Mjólkurkaffið gamla sem var drukkið á heimilum landsmanna var sykrað og borið fram í glasi með kaldri mjólk. Þetta var til dæmis oft gefið börnum hér áður fyrr. Lattemjólk er hins vegar flóuð og hún er því sæt og mjúk líkt og móðurmjólkin. Kaffi latte er morgunverðardrykkur út í heimi en í vesturlöndum er hann drukkinn allan daginn af þeim sem þykir espresso of sterkur og beiskur. Þeir sem drekka latte eru því í augum kaffibarþjónsins eins konar kettlingar, mjúkir menn sem vilja orkuna sem kaffi gefur án þess að þurfa að finna mikið fyrir bragðinu og þá sérstaklega ef þú bætir sýrópi eða sykri í bollann.  Cappuccino og espresso þykja mun fágaðri drykkir.

Á flestum vinnustöðum landsins er boðið upp á kaffi. Á fínni vinnustöðum er takkavél sem skyrpir út beisku og volgu mjólkurkaffi en á öðrum vinnustöðum er gamla uppáhellingin enn í boði. Það kaffi er gert í svartskánaðri könnu og er talið að því sterkara, svartara og beiskara sem það er því betra. „Og lútsterkt kaffi, manneskja, alveg soleiðis að það sé hægt að tjarga uppúr því hrúta“, sagði Bjartur í Sumarhúsum og er það almennt talin reglan í gæðum kaffis af eldri kynslóðum landsins.

Lattedrykkja er borgaralegur lúxus sem ekki allir leyfa sér eða hafa tækifæri til að geta leyft sér. Ímynd lattedrykkjumannsins er líkt og margar staðalímyndir, full af táknum, fordómum og rökvillum. Ég er eins og þú Hildur Ýr, ég stunda kaffihús og leikhús, skrifa pistla og les íslenskar bókmenntir en ég drekk kaffið mitt svart og sykurlaust. Samt myndi ég fljótt vera afgreidd sem lattelepjandi miðbæjarrotta. Þetta er ein leið íhaldsins til að þagga niður í hópi fólks sem hefur skapandi leiðir til að tjá skoðanir sínar. Það Hildur Ýr, að þú drekkur latte þýðir ekki að þýðir ekki að þú sért löt, fávís eða dekurrófa en með því að viðurkenna að þú sér „lattelepjandi höfuðborgarpakk“ ertu í hættu að vera sett í þann flokk og þar með verða skoðanir þína ógildar. Það er ekkert að því að drekka latte enda væru kaffihúsin í Reykjavík ekki starfandi ef ekki væri fyrir latteaðdáendur eins og þig.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone