„Það er margt skrítið við kerfið“

lara_kennir

Hvað gerir maður þegar heimurinn er ekki eins og maður vill hafa hann? Maður breytir honum. Er það ekki bara svona einfalt?

_MG_4430

Mynd: Uma Jovita Valaityte

Það skal ósagt látið hvort einfalt hafi verið fyrir Birni Jón Sigurðsson að hætta í námi sínu í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands og stofna kvikmyndaskóla, en það er engu að síður það sem hann gerði þegar hann stofnaði Kvikmyndakommúnuna í samvinnu við kennara sinn í kvikmyndafræðinni, Láru Marteinsdóttur, en Lára er einnig kvimyndagerðarkona. Stofnfundur var haldin 10. september síðastliðinn í höfuðstöðvum Kvikmyndakommúnunnar í Molanum í Kópavogi.

Á Íslandi færðu diplóma fyrir tvær og hálfa milljón og þú ert ekkert komin inn neins staðar eða með samning upp á vasann. Það er ekki einu sinni bachelor gráða sem fylgir því.

„Lára kenndi mér á fyrsta ári í HÍ í kúrsinum kvikmyndir og femínismi og kom með hugmynd að einhvers konar samfélagi þar sem hægt væri að læra ókeypis og hún gæti kennt ókeypis. Henni fannst vera einhver andi í þjóðfélaginu þar sem margir voru orðnir pirraðir á núverandi kerfi. Kvikmyndaskólar eru ótrúlega dýrir en veita samt ekki stórkostlega menntun. Á Íslandi færðu diplóma fyrir tvær og hálfa milljón og þú ert ekkert komin inn neins staðar eða með samning upp á vasann. Það er ekki einu sinni bachelor gráða sem fylgir því. Það þykir mér ansi dýr diplóma þótt það sé náttúrulega alveg fínt að komast í svona nám og læra á tæknilegu hliðina. Við ákváðum því bara að gera þetta upp á eigin spýtur og stofna sjálfstæðan kvikmyndaskóla þar sem fólk gæti komið og tekið þátt í starfseminni ókeypis.“

Það er frelsi í grasrótarstarfi

En hvernig ætli fjármögnunin gangi fyrir sig? Birnir Jón segir enga peninga í spilinu. „Það er það sem er svo fallegt við þetta. Það er engin velta og enginn gróði. Við fáum þetta rými ókeypis hjá Kópavogsbæ, sem er auðvitað geggjað, og ég sé um þetta ókeypis og Lára kennir ókeypis og það er ótrúlega frelsandi í rauninni. Maður þarf ekkert að hugsa um það eða pæla í því. Þetta er grasrótarstarf. Þetta er pönk!“ Birnir segir að hver sem er geti komið og tekið þátt og það fari bara eftir hverjum einum og metnaði viðkomandi hvernig til tekst. Kvikmyndakommúnan sé þá nokkurs konar kerfi sem hægt sé að sækja í. Starfið er í stöðugri 12027734_515092465314500_1956291424760693613_nþróun að sögn Birnis enda svo nýtt af nálinni og þau ennþá að læra hvað þau vilji gera og hvað þau vilji ekki gera. „Eins og þetta virkar núna þá erum við með kennslu á föstudögum þar sem við horfum á myndir og höfum umræður á eftir og hina virku dagana er opin vinnustofa þar sem fólk getur komið og sinnt sínum eigin persónulegu verkefnum. Ég er hérna alla virka daga frá 10 til 14 og fólki er velkomið að koma. Svo er ætlunin að fá gestakennara og það eru nokkrir sem hafa sýnt áhuga, stór nöfn í bransanum en það er ekki alveg komið á hreint. Við segjum frá því þegar nær dregur. Það er margt spennandi á döfinni.“ En hvernig er með græjur? „Pælingin er að þeir sem eiga græjur deili þeim með öðrum sem eru í Kvikmyndakommúnunni gegn loforði um að þeir fari vel með það. En maður þarf að stunda starfið. Maður er að lána þeim sem taka þátt í grasrótinni og þessu samfélagi sem hefur orðið til hér.“

Þetta er pönk!

lára_profile

Lára Marteinsdóttir, kvikmyndagerðarkona og stofnandi Kvikmyndakommúnunnar.

Á Facebook síðu Kvikmyndakommúnunnar segir að Kommúnan hvetji nemendur sína til þess „að kanna flæðið og verkferlið bakvið skapandi vinnu. Nemendur læra leiðir til að kanna innri mið, vinna með undirvitundina og gera æfingar sem örva sköpunarflæði og tæran spuna.“ Þar segir líka að það sé hugsjón Kommúnunnar að nám eigi að vera frítt og óháð fjárhagi einstaklingsins en eigi fremur að ráðast af metnaði hans og hæfileikum. Birnir segist vilja skoða í grunninn hverju sé hægt að breyta við núverandi kerfi. „Það er minn draumur að umbylta þessu kerfi, ég veit ekki alveg hvernig ennþá en það er margt skrítið við kerfið eins og það er í dag.“ Ókeypis sjálfstæður kvikmyndaskóli opinn öllum þar sem einhvers konar deilihagkerfi ræður ríkjum? Umbylting Láru Marteinsdóttur og  Birnis Jóns Sigurðssonar á kerfinu er þegar hafin.

 

Kvikmyndakommúnan heldur opna vinnustofu og kynningu á starfseminni á RIFF sunnudaginn 27. september. Nánari upplýsingar má finna á Facebook síðu viðburðarins.

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone