Það sem vantar – Sýning Margrétar H. Blöndal í i8 Gallery

untitled 2013
Untitled 2013 Vatnslitur, blýantur og ólífuolía á pappír

Sýning Margrétar H. Blöndal í i8 Gallery, 21. janúar – 5. mars 2016

Smágerðar mislitríkar teikningar svifu á hvítum fleti í rými i8 Gallerys. Margrét H. Blöndal kom 15 verkum þar fyrir sem létu nokkuð lítið yfir sér, ef litið var inn um glugga gallerísins á Tryggvagötu. En augnagoturnar skyldu víkja fyrir beinu augnaráði þess sem gaf sér tíma inni í sal gallerísins.

Sýningarrými i8 Gallery

Sýningarrými i8 Gallery

Ljóðrænn og fjölbreyttur einfaldleiki

Ég fékk innilega tilfinningu  fyrir ríkjandi næmleika og viðkvæmri fegurð í þessum verkum. Myndmálið virtist að mestu leyti óhlutbundið, form af ýmsum gerðum og stærðum mynduðu lífrænar heildir eða kjarna, þar sem fjölbreytt litanotkun kom inn til að vekja og veita þeim skapgerð. Yfirbragðið var á sama tíma einfalt og fíngert, en Margrét notaði vatnsliti og stundum blýant. Flestar myndirnar gátu reyndar litið út fyrir að vera ókláraðar, eins og upphaf að einhverju – vísbending um eitthvað sem erfitt er að skilja. En ef maður dró augun nær og fylgdi eftir leitinni að skýrara formi, sem myndirnar ýttu undir, þá var hægt að greina í þessum „skissum“ verulegan auð af smáatriðum – Fjölbreytni af dráttum, áferðum, litbrigðum og línum… míkrókosmos sem talaði við áhorfandann í líkamlegri og innri nánd, virkjaði þátttöku ímyndunarafls hans til að túlka myndirnar. Þannig var þessi yfirborðskennda vöntun mikils virði fyrir teikningarnar, því hún gerði okkur kleift að staldra aðeins við, taka eftir og njóta þess auðs í hinni smágerðu sjónrænu nærveru. Slík framsetning náði þessu betur en ef mynd hefði verið þróuð frekar og náð yfir allan flöt blaðsins. Þannig séð endurspeglaði þetta líka mínimalíska nálgun til hreinnar skynjunar af listhlutnum og tilveru hans í rýminu, en í þessum teikningum gat áhorfandinn meðal annars greint áþekkan anda og í innsetningarskúlptúrum sem Margrét hefur oftar verið að sýna.

Mynd sköpunarferlis

Auk teikninganna fimmtán í aðalrýminu var ljósmynd að finna í herberginu fyrir aftan sem var vísun í tilurð þeirra. Fleiri teikningum og tengdum ljósmyndum frá tímabilinu 2010-2016, var safnað saman í bók sem Crymogea gaf út samhliða sýningunni og heitir hún Drawings. Ljósmyndirnar eru hversdagsmyndir sem Margrét tekur og vinnur svo úr með því að einbeita sér að einhverju atriði í myndinni sem grípur auga hennar. Á endanum gleymist fyrirmyndin og viðkomandi atriði eitt og sér öðlast nýja tilveru í teikningunni. Þetta leiðir í ljós hvernig hugtakið „abstrakt“ á í raun erindi hér: Í fyrsta lagi hvað varðar útlit myndanna, en í öðru lagi í bókstaflegri merkingu orðsins, þ.e. úr latínu abstraho, draga eitthvað af. Eins og má finna í skrifum heimspekingsins Alexandre Kojève um hugtakið þá er „abstrakt“ málverk bæði hlutbundið og huglægt, að því leyti sem einstaklingur dregur hinn maleríska þátt fegurðarinnar úr raunverulegum hlutum.

Listakonan lýsti myndunum sem birtingu hljómfallsins og ásláttarins allt í kringum okkur, í tilfinningalífinu sem og í manngerða umhverfinu. Tilurð verkanna og framsetning hennar þóttu mér áhugaverðar að því leyti að þau benda á almennara ferli sem liggur á bak við sköpun í víðum skilningi: Myndun hughrifa og hugmynda, í list sem og í fræðum og hversdagslífi, s.s. hvernig við færum óorðaða reynslu af litlum atriðum yfir í mótun hugsana – e.t.v. ákveðið þýðingarferli.

Innrammaðar í olíu

Myndunum var raðað í einfalda línu á veggjum salarins og segja má að í þessu hvíta umhverfi hafi teikningarnar komið hljóðlátt „upp á yfirborðið“, smáar hlutmyndanir forms og litar. Staða þeirra á blöðunum virtist svo frjáls og tilviljunarkennd að eiginlega innrömmunin missti sína merkingu. Hvíta svæði blaðanna varð að einu með fábrotna rammann og rýmið í kring. Hins vegar sýndist listakonan búa til annan ramma í flestum myndum: Spássíu af ólívuolíu sem eins og skuggi hélt utan um teikningarnar og sást einungis í nálægð. Mögulega gat slík framsetning vakið upp gagnrýnar raddir gagnvart blekkingarfullu rými hins „hvíta kubbs“ gallerísins. Hins vegar fannst mér þessar aðstæður láta verkin njóta sín vel.

Sýning Margrétar var hljóð stund af einlægri nánd. Persónuleg tjáning ómaði í þessum verkum, og talaði ljóðrænt um viðkvæmni, hreyfingu og sköpun í rými þess sem vantar. Vonandi endurómuðu þessir tónar – og þagnir – innra með mörgum áhorfendum.

untitled 2013

Untitled 2013
Vatnslitur, blýantur og ólífuolía á pappír

untitled 2015

Untitled, 2015
Vatnslitur, blýantur og ólífuolía á pappír

 

 

 

 

 

 

 

Myndir af heimasíðu i8 Gallerys

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone