Þar sem himinn og jörð mætast – Sýning Þorbjargar Höskuldsdóttur í Gallerí 78

Þorbjörg Höskuldsdóttir, Súludans, 2012, akríl á striga, 75 x 80 cm
Þorbjörg Höskuldsdóttir, Súludans, 2012, akríl á striga, 75 x 80 cm

Hjá Samtökunum 78, Suðurgötu 3 er til húsa Gallerí 78 sem var stofnað á haustdögum 2015 og sýnir það eingöngu verk hinsegin listafólks. Opnunarsýning gallerísins var samsýning hinsegin listafólks sem kemur síðar til með að halda einkasýningar í galleríinu.  Ástæða þess að rekið er hinsegin gallerí í Samtökunum 78 er meðal annars sú að gera hinsegin fólk sýnilegt og jafnframt í leiðinni að vinna bug á fordómum í garð þess. Nú stendur yfir sýning Sonju Georgsdóttur og verður hún til 4. júní 2016.

Þorbjörg Höskuldsdóttir, Súludans, 2012, akríl á striga, 75 x 80 cm

Þorbjörg Höskuldsdóttir, Súludans, 2012, akríl á striga, 75 x 80 cm

Þann 21. nóvember síðastliðin opnaði sýning Þorbjargar Höskuldsdóttur myndlistarmanns í galleríinu og stóð hún til 31. janúar 2016. Það var aðstandendum gallerísins sönn ánægja að hefja röð einkasýninga með því að kynna verk eftir hin virta listamann Þorbjörgu Höskuldsdóttur sem á að baki langan og farsælan feril.  Með því að þiggja sýningarboðið tel ég að Þorbjörg hafi lagt Galleríi 78 ómetanlegt lið.

Þorbjörg Höskuldsdóttir er fædd árið 1939 og lagði hún stund á nám við Myndlistarskólann í Reykjavík á árunum 1962–1966 og síðan við Konunglegu Listakademíuna í Kaupmannahöfn frá 1967–1971. Hún hélt sína fyrstu einkasýningu í  Gallerí SÚM árið 1972 en í dag eru  þær orðnar um tuttugu talsins auk fjölda samsýninga. Auk þess hefur Þorbjörg hlotið heiðurslaun Alþingis frá árinu 2006. Á þessari sýningu voru tólf málverk unnin með akríl á striga sem Þorbjörg  málaði á árunum frá 2011-2015.

Súlur í víðáttunni

Í list sinni tekst Þorbjörg á við íslenska landslagsmálverkið að viðbættu hinu manngerða sem tengja má við strangflatarlist eða jafnvel súrrealisma. Flísalögð slétta, þrep sem liggja við rætur fjalla og um hálendið, auðir stólar á berangri, himnatjald yfir Lýsuhólshyrnu og súlur í víðáttunni, allt þetta ásamt mörgu öðru er að finna í myndheimi Þorbjargar. Jörð þar sem undir býr ólgandi kvika og jöklar sem hafa staðið lengur en fólkið sem landið byggir. Þetta samband manns og náttúru og mörkin sem liggja þar á milli var eitt megin stefið í verkunum á sýningunni. Ef rýnt er í pensilskrift Þorbjargar þá er hún skýr og ákveðin. Fjöllin eru sjálfum sér lík og fjarvíddarteikningin hnitmiðuð í málverkinu.  Samspil hita og kulda er oft að finna í verkum Þorbjargar og bláir og rauðir litatónar gegnumgangandi auk mildra jarðarlita eins og sjá má í verkinu Baula frá árinu 2012.

Þorbjörg Höskuldsdóttir, Baula, 2012, akríl á striga, 100 x 110 cm

Þorbjörg Höskuldsdóttir, Baula, 2012, akríl á striga, 100 x 110 cm

Samtal við auðnina

Listakonan stendur ein með náttúrunni og sá heimur birtist í myndum hennar.  Form sem minna á steinsteypu í hörku sinni kallast á við berangursleg fjöll þar sem hrjóstrug auðnin birtist í persónulegu samtali Þorbjargar við veröld þar sem himinn og jörð mætast. Myndir Þorbjargar eru flestar án lífvera en ummerki menningarinnar blasa við áhorfandanum hvert sem litið er. Í myndinni, Súludans, frá árinu 2012, má þó sjá undantekningu, því í forgrunni eru þrjár súlur að stíga dans á flísalagðri sléttu með Botnsúlur í fjarska.

Eftir á að hyggja vörpuðu málverkin á sýningunni einstöku ljósi á sterk höfundareinkenni Þorbjargar. Vandað var til uppsettningar og áhorfandinn leiddur í gegnum heim Þorbjargar þar sem kyrrðin í harðri náttúrunni mætir köldum veruleika nútímans.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone