Þegar snákurin beitan – Leikdómur um Litla prinsinn

Litli prinsinn

Faðir minn ann bókum og hefur, síðan ég var barn, kynnt mig fyrir uppáhaldsverkum sínum. Á unglingsárunum gaf hann mér Litla Prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry, sem vill svo til að er uppáhalds bókin hans. Ég hafði þá aldrei heyrt um þessa bók, hvað þá lesið hana. Ég get ekki, samviskunnar vegna, sagt að ég hafi glaðst þegar hann gaf mér hana en bókina á ég enn og um leið og ég byrjaði að lesa hana heillaðist ég og hún varð eitt af mínum uppáhalds verkum.

Mér fannst því afskaplega gaman að fá tækifæri til að taka eina af dætrum mínum, þá sjö ára, með á leikgerð Stefáns Halls Stefánssonar af Litla Prinsinum sem sýnd er um þessar mundir í Kúlu Þjóðleikhússins. Við undirbjuggum okkur vel og vandlega, drógum fram bókina frá afa og byrjuðum að lesa hana saman.

Um leið og lesturinn hófst fann ég að verkið var í þyngri kantinum fyrir svona ungt barn. Það hjálpaði að hún hafði séð teiknimyndirnar um Litla Prinsinn í Ríkissjónvarpinu, svo hún vissi að einhverju leyti um hvað málið snerist. Við náðum að lesa helminginn af bókinni fyrir sýninguna og ég verð að játa að ég kveið örlítið fyrir því að sjá hvernig hún næði að fylgja verkinu á sviði.

Við mæðgur klæddum okkur í okkar fínasta púss og héldum af stað í leikhúsið. Leikmynd Högna Sigurþórssonar hreif okkur strax, en sviðið var eins og gamall, ruslaralegur og skemmtilegur garður. Hinir ýmsu hlutir sem lágu þar eins og hráviði út um allt komu allir við sögu í leikritinu, garðslanga breyttist í snák, bauja í stjörnu og svo framvegis. Gamla flugvélin var þó stjarna leikmyndarinnar, afskaplega vel heppnuð og skemmtileg. Öll leikmyndin var til þess gerð að virkja ímyndunarafl barnsins – og barnanna innra með fullorðna fólkinu.

Stefáni Halli tókst að leysa flestar flækjur verksins með því að setja það upp sem rammafrásögn, sögumaður bókarinnar, flugmaðurinn (Snorri Engilbertsson) var þannig kominn heim og sex ár liðin frá fundum hans og Litla Prinsins (Þórunnar Örnu Kristjánsdóttur). Frænka hans (Edda Arnljótsdóttir) kom með dóttur sína í heimsókn. Sú er feimin þar til frændinn fer að segja henni söguna af litla prinsinum og áhorfendur hrífast með um leið og hún.

Sýningin nær þannig betur til barna á margan hátt en bókin. Leikararnir eru vel valdir í hlutverkin, en sérstaklega langar mig til að nefna Eddu Arnljótsdóttur sem lék hin ýmsu hlutverk af mikilli snilld og þá sérstaklega hlutverk konungsins. Stemningin var mögnuð og þar átti ekki síst hlut að máli lýsing Magnúsar Arnar Sigurðssonar.

Sýningin var hröð, þetta var klukkutíma sýning með afskaplega miklu og stóru efni. Það kom ekki niður á gæðum hennar – en það hefði ef til vill mátt eyða örlítið meiri tíma í nokkur styttri atriðanna án þess að það skaðaði neitt heldur. Dauði litla prinsins var áhrifamikið atriði og vakti miklar spurningar og umræður hjá hinum unga áhorfanda.

Þeirri sjö ára fannst hugmyndin um leikdóm mjög sniðug og bað um að fá að skrifa sinn eigin. Mér fannst hann svo skemmtilegur að ég ákvað að láta hann fylgja með, stafréttan:

 

Mér fands gaman þegar flugvélin sprak altaf.

Mér fands líka sorglegt þegar litli prinsin dó þegar snákurin beitan.

Mér fands þeta erfit.

 

Hildur Ýr Ísberg, doktorsnemi í íslenskum bókmenntum

Svanborg Ásta Hjartardóttir, grunnskólanemi og leikhúsunnandi.

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone