Þögguð óp miðla mennskunni

IMG_0014

Rýnt í listsýninguna Kláði, sviði, verkur, bólga og pirringur

Samsýning Kristínar Gunnlaugsdóttur og Margrétar Jónsdóttur í samvinnu við í Seltjarnarnesbæ og Þjóðminjasafn Íslands.

IMG_0015Í Nesstofu við Gróttu stendur yfir sýning sem neyðir gesti til að horfast í augu við sinn eigin hversdagslega sársauka. Sýningin nefnist Kláði, sviði, verkur, bólga, og pirringur og eru verkin veggteppi, eggtemperuverk á tré, og leirverk. Á henni skarast fræðasvið og svið listsköpunar þar sem sýningin er hugsuð inn í það rými sem Nesstofa býður upp á og varpar ljósi á þolraunir og þrautagöngur fyrrum gesta og íbúa hússins. Uppsetning sýningarinnar er nokkuð sérstök; hún myndgerir söguna og miðlar henni með staðsetningu sinni og umhverfi til áhorfandans sem fer að hugsa um forna tíma. Þannig má líkja upplifuninni af listsýningunni við það að lesa sögulega skáldsögu um fortíð sem var í senn raunveruleg og óraunveruleg.

IMG_0018

 

Það er varla hægt að ganga um sýninguna án þess að sú staðreynd að listamennirnir séu konur læðist að manni þar sem maður er markvisst minntur á hráa mannlega hlið kvenna. Hér eigum við að skynja sögu sem spannar tvöhundruð og fimmtíu ár. Viðfangsefnið, sársauki, er líka þess eðlis að áhorfandi kemst ekki hjá því að hugsa um hið líkamlega, um kyn og hlutverk þeirra, og af hverju sársaukinn stafar. Lyktin af innviðum hússins – timbrinu og steininum – leiðir mann í gegnum lágstemmda frásögn sýningarinnar um sýkingar, opin sár og léttasótt. Sýningagestir þurfa að beygja sig undir óskir hússins þegar þeir ganga inn í það. Gestir eru látnir klæða sig í bláar plasthlífar til að verja gólf fyir blautum skósólum, eins og tíðkast á biðstofum heilsugæslustöðva og tannlækna, og varð það að eins konar gjörningi sem sló í takt við sýninguna sjálfa. Það var líkt og maður væri að hefja rannsókn á líkömum og sársauka; manns eigin og annarra, fyrr og nú.

 

IMG_0004Verk sýningarinnar eru ólík en eiga vel saman. Þau leiða mann um þemað; svartan sársaukann. Hann virðist þó kvengerður á sýningunni, en það fer eftir túlkun hvers og eins. Það er svo sem ekki óeðlilegt, Kristín Gunnlaugsdóttir og Margrét Jónsdóttir hafa báðar áður notað reynsluheim kvenna í listsköpun sinni en eru þó komnar nokkuð langt frá því sem þær hafa hingað til fengist við. Til að mynda er hvergi að sjá tengingu við hannyrðir kvenna í verkum Margrétar, heldur sýnir hún dökk, einföld leirverk sem minna á áhöld til lyfjablöndunar og þær líkamlegu fórnir sem sjúkdómar útheimtu; eins og bein og smágarnir. Kerjum sem stillt er upp saman vekja hugrenningatengsl á milli kerjanna og kynjanna; um konuna sem ker, um styrk hennar og þögguð óp, um ljótleikann sem verður fagur á sinn hátt. Veggteppi Kristínar hafa sömuleiðis tekið breytingum frá því að sýna feykistórar abstrakt píkur, yfir í að sýna heimasætu með lífstykki reyrt um hálsinn, ást á baðstofulofti og svartar kvenverur sem eru lagstar á gólf. Óp þeirra eru þögul en konurnar á myndunum gætu hafa engst um af sársauka á átjándu öld. En þær gætu líka hafa gert það í gær og það gerir verkin dýpri, en líka erfiðari og óþægilegri. Kristín er hér einnig komin nokkuð langt langt frá íkonahefðinni, en heldur áfram með eggtemperuaðferðina á tré sem hún hefur unnið með í gegnum feril sinn. Tréverkin sýna, rétt eins og flest ullarverkin, sársaukann sem svarta, þunga möru – klofstórar líkamlegar fígúrur með rauðan blett á milli fóta, sem annað hvort er hringur eða sporaskja. Formið vísar til eilífrar hringrásar og þannig getur rauði liturinn táknað fæðingu, hreinsun og að lokum dauða.

 

IMG_0005Listaverkin og Nesstofa segja hér sameiginlega eina og áhrifaríka sögu. Rýmin í húsinu eru nýtt vel og bera þau vott um að húsið og saga þess hafi markvisst fengið að halda virðuleika sínum í hugmyndaferli sýningarinnar. Uppsetning verkanna var því látlaus og hversdagsleg, rétt eins og áhöldin sem voru þar áður. Það hefði verið hægt að ögra sögu þessa húss og þannig einnig áhorfendum, en höfundar verkanna létu það ógert. Þess í stað er einblínt á miðlun frá fortíð þar sem verk tóku á sig form og merkingu vegna hárnákvæmrar staðsetningar sinnar, í húsinu við sjóinn. Ögrunin felst því frekar í því að horfast í augu við okkar eigin hversdagslega sársauka, en ekki bara þann sem ómar úr fortíðinni. Listaverkin sem móta Kláða, sviða, verk, bólgu og pirring eru þannig minni um sársauka sem eitt sinn var, en einnig nútímaleg sköpun. Enn þann dag í dag kveljast líkamar með sama hætti og sjúklingar hússins gerðu forðum. Hið þaggaða óp fær enn ekki að heyrast því við viljum ekki tala um hráblautan líkamlegan raunveruleika okkar, hann er annað hvort óhreinn eða fátækur.

 

IMG_0027

 

 

 

 

 

 

 

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone