Þröngt horn þríhyrningsins

dukkuheimili.jpg__368x521_q85_crop_subsampling-2

Hið margrómaða verk Brúðuheimilið eða Dúkkuheimilið, eins og það heitir í nýrri þýðingu Hrafnhildar Hagalín, má berja augum á fjölum Borgarleikhússins um þessar mundir. Gagnrýnendur hafa keppst um að lofa verkið og vilja margir meina að um listrænt afrek sé að ræða. Með nýrri þýðingu stígur Nóra, sem framanaf má kalla dæmigerða birtingarmynd nítjándu aldar konu, inn í nútímann. Við breytinguna er ýmsu hliðrað til og í stað þess að minna áhorfandann á strengjabrúðu verður Nóra að Barbídúkku sem hin ýmsu öfl feðraveldisins leika sér að. Þrátt fyrir tímatilfærsluna er ótrúlega lítið brugðið út af frumtextanum.

 

Ibsen hefði átt að gera þetta svona

Á stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu birtist áhorfandanum langur dregill af rauðum sandi. Hann er þríhyrningslaga og blekkir augað svo hann virðist sem óendanlegur gangstígur. Í þessum endalausa sanddregli eru leyndarmál persónanna ýmist falin og grafin upp. Raunar má segja að sandurinn í sýningunni gegni álíka hlutverki og lampar í textanum sem Ibsen ritaði í lok nítjándu aldar. Þá varpa lamparnir ljósi á sannleika og lygi þá er persónur verksins reyna ýmist að fela eða birta. Sandurinn og virkni hans er mun áhrifameiri á sviðinu en ef lampahugmynd Ibsens hefði verið notuð óbreytt upp úr leiktextanum. Raunar er hálfgerð synd að Ibseni sjálfum hafi ekki hugkvæmst að láta verkið gerast á sandi drifnu leiksviðinu. Eftir því sem líður á sýninguna virðist yfirborð sandsins rísa og með því eru sífellt fleiri hlutir grafnir í sandinum. Á einum tímapunkti reynir eiginmaður Nóru meira að segja að grafa hana í sandinn. Hugmyndin er því sterk og táknmyndirnar sem af henni stafa áhrifaríkar.

 

 

 dukkuheimili_0
(Mynd af vefsíðu RÚV)

Fórnar móðir sér?

Í lok sýningarinnar stígur Nóra, leikin af Unni Ösp Stefánsdóttur, út fyrir sandinn yfir á svart og bert leikhússviðið. Undanfarið hafði verkið þó alfarið átt sér stað innan ramma sandsins. Túlki það hver fyrir sig hvort persóna Nóru steypist til glötunar eður ei, hvort börn hennar sem leika sér í lok verksins að því að sparka og kasta sandi út fyrir rammann muni feta í fótspor móður sinnar síðarmeir. Hvort allt mun verða samt eftir brottför móðurinnar miklu eða hvort Nóra hafi fórnað sjálfri sér til þess að börn hennar geti síðar meir lifað í rýmri ramma en hún sjálf. Einnig má ímynda sér að Nóra hafi með athæfi sínu veitt börnum sínum möguleika á fleiri lífsleiðum en bara þeim sem samfélagið gerði þeim ljósa.

 

 

Uppbrot á samfélagsrammanum?(Mynd tekin af umræðum eftir sýningu)

Þröngi gangurinn

Gangstígurinn óendanlegi sem enginn stígur út af minnir um margt á hinn þrönga gang, eða „narrow corridor“ sem oft er minnst á í svokölluðum kvennabókmenntum nítjándu aldar. Minnst er á hann meðal annars í skáldsögunni Madame Bovary Gustavs Flaubert og í örlítið breyttri mynd í skáldsögu Henry James, Portrait of a Lady. Þennan gang má túlka sem rými nítjándu aldar konunnar í hjónabandi. Fyrir hjónaband hefur hún úr nokkrum leiðum að velja. Hún getur valið að ganga í klaustur þar sem hún hlýtur einhvers konar vísi að menntun. Hún getur selt líkama sinn og gengið í annars konar hús, orðið vændiskona; eða hún getur gengið í hjónaband. Í hjónabandinu eru henni ákveðin takmörk sett varðandi lífstíl. Þessum lífstíl má líkja við langan þröngan gang sem opinn er í annan endann, þann sem hún gengur inn um; en lokaður í hinn. Gangurinn opnast ekki aftur nema við dauða annars aðila hjónabandsins. Þessi gangur er áberandi í sýningu Borgarleikhússins á Dúkkuheimilinu og verður það því óneitanlega táknrænt þegar Nóra ákveður að stíga út fyrir hann frá hlið frekar en að ganga hann endilangan.

 

Jóhanna María Einarsdóttir
Nemandi í Ritlist, Háskóla Íslands

Share on FacebookTweet about this on TwitterShare on TumblrPin on PinterestShare on Google+Email this to someone